Manon Roland
Manon Roland | |
---|---|
Fædd | 17. mars 1754 |
Dáin | 8. nóvember 1793 (39 ára) |
Dánarorsök | Hálshöggvin |
Störf | Stjórnmálakona, byltingarkona |
Flokkur | Gírondínar |
Maki | Jean-Marie Roland de La Platière |
Foreldrar | Gratien Phlippon og Madame Phlippon |
Undirskrift | |
Manon Roland (17. mars 1754 – 8. nóvember 1793), fædd undir nafninu Jeanne Marie Phlipon[1] og oft kölluð Madame Roland, var frönsk stjórnmála- og byltingarkona sem var einn af leiðtogum Gírondínaflokksins á tíma frönsku byltingarinnar. Fundarsalur sem Roland átti varð samkomuhús Gírondínanna og því naut Roland mikilla áhrifa á fundum stjórnmálahreyfingarinnar. Madame Roland var hálshöggvin á tíma Ógnarstjórnarinnar.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Jeanne Marie Phlipon var dóttir prentmeistarans Gatiens Phlipon og Marguerite Bimont, dóttur þernu og matselju í þjónustu franskrar markgreifynju. Hún var eina barn foreldra sinna sem komst á legg og naut því ein ástúðar og athygli þeirra.[2] Jeanne Marie las mikið sem barn og hafði snemma lesið verk eftir Plútarkos, John Locke[2], Montesquieu og Voltaire.[3] Hún var þó sérstaklega undir áhrifum af heimspeki Rousseau. Jeanne Marie gekk að eigin ósk í klaustur árið 1765 en hætti þar eftir dauða móður sinnar og helgaði sig náminu. Þann 4. febrúar árið 1780 giftist hún vísigreifanum, hagfræðingnum og heimspekingnum Jean-Marie Roland de La Platière.[4] Hjónin eignuðust dótturina Eudoru árið 1781.
Eftir að eiginmaður hennar var kjörinn á franska stéttaþingið sem Loðvík 16. hafði kallað saman flutti Madame Roland með honum til Parísar árið 1791. Byrjun frönsku byltingarinnar hafði vakið mikla þjóðerniskennd hjá Roland og hún varð fljótlega mjög virk í stjórnmálum Frakklands. Roland bauð mörgum helstu fyrirmennum byltingarhópanna til fundar í fundarsal (franska: salon) sem hún rak[5] og tók þátt í stofnun Gírondínaflokksins, sem var hófsamari hópur byltingarsinnanna.
Eiginmaður hennar var skipaður innanríkisráðherra í stjórn Gírondínanna árið 1792 en Madame Roland samdi og skrifaði undir fjölda tilskipana í hans nafni. Hún skrifaði meðal annars mjög harðorðað bréf til Loðvíks 16. þar sem hún krafðist þess að konungurinn sværi byltingarstjórninni skilyrðislausa hollustu sína og afsalaði sér neitunarvaldi sínu. Vegna bréfsins var eiginmaður hennar sviptur embætti en síðan endurráðinn eftir að Loðvík var handtekinn. Á hápunkti valda sinna lenti Roland í útistöðum við róttækari leiðtoga byltingarinnar úr röðum Fjallbúa og vann sér inn óvinsældir fyrir að reyna að stýra byltingunni á hófsamari braut. Rolandhjónin mótmæltu septembermorðunum ársins 1792 og hr. Roland greiddi atkvæði gegn aftöku Loðvíks 16. í desember sama ár. Georges Jacques Danton, einn af leiðtogum Fjallbúa, vændi Madame Roland opinberlega um að hafa haft áhrif á atkvæði eiginmanns síns og sagði um hr. Roland: „Við þurfum á ráðherrum að halda sem sjá með öðrum augum en augum eiginkvenna sinna.“[6] Eiginmaður hennar neyddist til að segja af sér þann 23. janúar 1793.
Þann 31. maí árið 1793 hófu Fjallbúarnir ofsóknir gegn Gírondínum en Madame Roland ákvað að flýja ekki. Manon Roland var handtekin þann 1. júní og síðan lokuð í Abbaye-fangelsinu í París.[7] Í fangelsinu var Roland sökuð um að vera holl franska konungsveldinu en hún brást við með því að segja: „Þessir harðstjórar geta kúgað mig, en niðurlægt mig? Aldrei, aldrei!“[8] Réttað var yfir Madame Roland þann 8. nóvember og hún var dæmd til dauða. Seinna sama dag var hún leidd fyrir fallöxina á Byltingartorgi Parísar, en áður en hún var afhöfðuð kraup hún fyrir framan styttu af holdgervingi frelsisins og lét fræg lokaorð falla:
„Ó, frelsi, hvílíkir glæpir eru drýgðir í nafni þínu!“[9]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „BNF Catalogue général“. catalogue.bnf.fr (franska). 1984. Sótt 22. nóvember 2018.
- ↑ 2,0 2,1 Manon Roland (1886). Madame Roland: sa détention à l’abbaye et à Sainte-Pélagie 1793 (franska). bls. 11.
- ↑ Gita May (1964). De Jean-Jacques Rousseau à Madame Roland: essai sur la sensibilité préromantique et révolutionnaire (franska). Librairie Droz. bls. 94-95.
- ↑ Léon Lavedan; Étienne Lamy; Édouard Jean Alexandre Trogan; Albert de Luppé (1865). Le Correspondant (franska). bls. 263.
- ↑ Yvonne Knibiehler; Martine Sagaert (2016). Les Mots des mères: du xviie siècle à nos jours (franska).
- ↑ Charles-Aimé Dauban (1864). Étude sur Madame Roland et son temps: suivie des lettres de Madame Roland à Buzot et d’autres documents inédits (franska).
- ↑ Catherine Valenti (2008). Les Grandes Femmes de l’Histoire de France (franska). Éditions First. bls. 98.
- ↑ Gustave Lanson (1908). Choix de lettres du xviiie siècle (franska). Librairie Hachette et Cie. bls. 677.
- ↑ „Á deyjanda degi“. Samtíðin. 1937. Sótt 22. nóvember 2018.