Fara í innihald

Ógnarstjórnin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teikning af aftöku Gírondínanna.

Ógnarstjórnin (la Terreur) var tímabil í sögu frönsku byltingarinnar sem einkenndist af alræðistilburðum ríkisstjórnarinnar[1] og fjöldaaftökum á meintum gagnbyltingarmönnum.[2][3][4][5] Þar sem Ógnarstjórnin varð til smám saman er deilt um það hvenær hún hófst í reynd: ýmist er miðað við stofnun byltingardómstólsins í mars árið 1793, við septembermorðin árið 1792 eða við fyrstu aftökurnar í júlí árið 1789.[6] Ógnarstjórnin og aftökurnar sem fylgdu henni stóðu sem hæst eftir að Fjallbúahópurinn svokallaði tók við stjórn franska lýðveldisins árið 1793. Almennt er miðað við að henni hafi lokið þegar leiðtoga Fjallbúanna, Maximilien Robespierre, var steypt af stóli og hann hálshöggvinn á fallöxinni þann 28. júlí 1794.[6]

Eftir að franska konungdæmið var leyst upp þann 10. ágúst 1792 og fulltrúar Gírondína á franska stjórnlagaþinginu voru handteknir frá 31. maí til 2. júní næsta ár[7] tók Fjallbúahópurinn (les Montagnards) við stjórn fyrsta franska lýðveldisins. Franska lýðveldið var þá í miðju fyrsta franska byltingarstríðinu og jafnframt í miðri borgarastyrjöld gegn konungssinnum og sambandssinnum. Því var því stjórnað með valdbeitingu og bælingu á öllu andófi sem talið var til „gagnbyltingarsinna“.[8] Á sama tíma stóðu Fjallbúarnir í valdabaráttu gegn Gírondínum, hófsamari byltingarmönnum, Hébertistum (sem studdu enn ofsafengnari valdbeitingu en Fjallbúarnir) og stuðningsmönnum Georges Jacques Danton, sem hafði látið lífið undir fallöxinni að undirlagi Robespierre. Eftir fullnaðarsigur lýðveldissinna innan Frakklands sameinuðust þessir hópar á móti Robespierre og fylgismönnum hans og létu taka þá af lífi 28. júlí 1794. Þar með lauk Ógnarstjórninni, ofbeldisfyllsta kafla frönsku byltingarinnar.

Á tíma Ógnarstjórnarinnar voru um 500.000 manns fangelsaðir og um 100.000 drepnir, ýmist í opinberum aftökum eða stjórnlausum fjöldamorðum. Um 17.000 manns voru hálshöggnir undir fallöxinni og 20.000 til 30.000 voru skotnir til bana. Frá júní 1793 til júlí 1794 voru 16.594 manns formlega dæmdir til dauða í Frakklandi, þar af 2.639 í París.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Cliotexte, recueil de textes sur la Révolution française dont la décision du 11 octobre 1793 Geymt 28 apríl 2009 í Wayback Machine.
  2. Émile Fournier, La terreur bleue, Albin Michel, 1984, bls. 253-254.
  3. Roger Dupuy, Nouvelle histoire de la France contemporaine, bls. 268-269
  4. Jacques Hussenet (dir.), « Détruisez la Vendée ! », bls. 140 et 466.
  5. Louis-Marie Clénet, Les colonnes infernales, Perrin, coll. « Vérités et Légendes », 1993.
  6. 6,0 6,1 Jean-Clément Martin, La Terreur, part maudite de la Révolution, Découvertes/Gallimard, 2010, bls. 14-15.
  7. Archives parlementaires de 1787 à 1860, Paris, P. Dupont, 1897-1913, bls. 708.
  8. Définition de J. Tulard, J.-F. Fayard, A. Fierro, Histoire et dictionnaire de la Révolution française, 1789-1799, 1987, bls. 1113 ; voir aussi P. Gueniffey, La Politique de la Terreur, 2000, bls. 13.
  9. Linton, Marisa. „The Terror in the French Revolution“ (PDF). Kingston University. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17 janúar 2012. Sótt 2. desember 2011.