Fara í innihald

Jean-Jacques Rousseau

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rousseau)
Jean-Jacques Rousseau
Jean-Jacques Rousseau (1712-1778)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur28. júní 1712Genf í Sviss)
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilHeimspeki 18. aldar
Skóli/hefðUpplýsingin
Helstu ritverkOrðræða um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna, Orðræða um stjórnmál, Samfélagssáttmálinn, Emile, Játningar Jean-Jacques Rousseau
Helstu kenningarOrðræða um uppruna og grundvöll ójöfnuðar meðal manna, Orðræða um stjórnmál, Samfélagssáttmálinn, Emile, Játningar Jean-Jacques Rousseau
Helstu viðfangsefnistjórnspeki, uppeldisfræði

Jean-Jacques Rousseau (28. júní 17122. júlí 1778) var fransk-svissneskur heimspekingur á upplýsingaöldinni. Stjórnmálaviðhorf hans höfðu meðal annars áhrif á frönsku byltinguna, tilurð sósíalisma og þjóðernishyggju.

Ef til vill ber fræg tilvitnun í bók hans, Samfélagssáttmálann, best vitni um arfleifð hans sem róttæks byltingarmanns: „Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“.

Samfélagssáttmálinn

[breyta | breyta frumkóða]

Samfélagssáttmálinn, sem kom úr árið 1762, er ef til vill frægasta verk Rousseaus og varð fljótt eitt af áhrifamestu ritum í stjórnspeki í vestrænni heimspeki. Í ritinu setur Rousseau fram kenningu sína um grundvöll réttmæts stjórnarfyrirkomulags. Rousseau þróar þar áfram einhverjar af hugmyndum þeim sem hann hafði áður sett fram í grein sinni „Stjórnspekileg hagfræði“ (fr. Economie Politique) sem birtist í alfræðiriti Diderot, Encyclopédie. Rousseau hélt því fram að náttúrulegt ástand væri frumstætt ástand án laga og siðferðis og að menn hafi gefið það upp á bátinn vegna ávinningsins af samhjálp og nauðsynjar hennar. Þegar samfélagið þróaðist hafi verkaskipting og einkaeign neytt menn til þess að setja sér lög. Á afturfararskeiði samfélagsins hefur maðurinn tilhneigingu til þess að keppa sífellt við náungann en á sama tíma reiðir sig æ meira á samborgara sína. Þetta tvöfalda álag ógnar bæði afkomu hans og frelsi. Þetta sýnir að maðurinn hefur gert mistök, mannlegt samfélag er ekki eins og það ætti að vera. Rousseau segir að því sé um að kenna að fólk hafi gleymt hver tilgangur þess væri og þess vegna hafi það vikið af réttri leið. Heimurinn eins og hann er núna er ekki eins og Guð ætlaði honum að vera, samfélagið er óreiðukennt og erfitt: „Maðurinn er frjáls en er hvarvetna í hlekkjum. Sá sem telur sjálfan sig annars herra er ekki síður þræll en hinn.“ (Samfélagssáttmálinn 17). Mannkyninu er ætlað að vera frjálst en til þess að svo geti orðið er þörf á umfangsmiklum breytingum á samfélagi manna. Lausn Rousseaus er sú að beita skynseminni til þess að upplýsa fólk og breyta lífsstíl þess. Maðurinn gæfi þá upp á bátinn náttúrurétt sinn úr því að hann getur nú verið frjáls og dafnað. Þetta leiðir af almennum vilja fólksins sem tryggir að engum öðrum er skylda á herðar lögð og menn hlýða einungis sjálfum sér. Ef fólk breytti á hinn bóginn einungis með hliðsjón af sínum eigin hagsmunum, þá bryti það í bága við almannaviljann.

Uppeldisfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Rousseau setti fram hugmyndir sínar um uppeldi og menntun í Émile eða Um menntun, skáldað verk sem fjallar um uppvöxt ungs drengs að nafni Émile sem er undir umsjá Rousseaus sjálfs. Rousseau elur drenginn upp í sveitinni, þar sem hann telur að fólki sé eðlilegast að vera, fremur en í borginni, þar sem við lærum einungis slæma siði. Markmið menntunar segir Rousseau að sé að læra að lifa lífinu réttlátlega. Þessu marki er náð með því að vera undir handleiðslu leiðbeinanda sem getur leiðbeint nemandanum í gegnum hinar ýmsu lærdóma.

Uppvöxtur barna skiptist í þrjú skeið. Fyrsta skeiðið nær fram að tólf ára aldri eða svo en þá eru reikningur og flókin hugsun vart möguleg og börn lifa eins og dýr. Annað skeiðið nær frá tólf ára aldri til sextán ára aldurs en þá þroskast skynsemin. Og að lokum frá sextán ára aldri en þá fullorðnast einstaklingurinn. Á þessu skeiði ætti unglingurinn að læra einhverja iðn, svo sem trésmíði. Trésmíðin er tekin sem dæmi af því að hún felur bæði í sér sköpun og hugsun en ógnar ekki siðgæði manns. Á þessum aldri kynnist Émile ungri konu, sem hann tekur saman með.

Bókin byggir á hugsjónum Rousseaus um heilbrigt líferni. Drengurinn verður að finna út hvernig hann getur fylgt félagslegri tilhneigingu sinni án þess að láta ginnast af löstum einstaklingshyggju borgarlífsins og sjálfsmeðvitund.

Greinargerð Rousseaus fyrir menntun Émiles hæfir hins vegar ekki stúlkum jafn vel. Menntunin sem Rousseau mælir með fyrir Sophie, ungu stúlkunni sem Émile á að giftast, er í mikilvægum atriðum frábrugðin menntun Émiles. Menntun Sophie miðar að því að að gera hana undirgefna húsbónda sínum en menntun Émiles miðar að því að gera hann að eigin herra. Þetta er ekki tilviljun heldur höfuðatriði í uppeldis- og menntunarfræði Rousseaus og liggur til grundvallar greinarmuni hans á einkalífi og hinu opinbera lífi stjórnmálanna, eins og Rousseau telur að það geti verið og ætti að vera.

Trúarheimspeki

[breyta | breyta frumkóða]

Rousseau var á sínum tíma einkum umdeildur vegna skoðana sinna í trúmálum. Sú kenning hans að maðurinn sé í eðli sínu góður er ósamrýmanleg kristnum kenningum um erfðasyndina og náttúruleg guðfræði hans, sem sett er fram í ritinu Émile varð til þess að bókin var bönnuð bæði í hinni kalvinísku Genf og í hinni kaþólsku París. Í Samfélagssáttmálanum segir Rousseau að sannir fylgjendur Jesú yrðu ekki góðir borgarar. Þetta var ein ástæða þess að bókin var bönnuð í Genf. Rousseau reyndi að verjast gagnrýni á trúarskoðanir sínar í opnu bréfi sínu til Christophe de Beaumont, erkibiskups í París.[1]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Textann má nálgast á netinu á frummálinu: Lettre à Mgr De Beaumont Archevêque de Paris (1762) Geymt 4 júlí 2007 í Wayback Machine
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Jean-Jacques Rousseau“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 3. apríl 2006.
  • Bertram, Christopher. Rousseau and The Social Contract. (London: Routledge, 2003).
  • Cassirer, Ernst. Rousseau, Kant, Goethe. (Princeton: Princeton University Press, 1945).
  • Cooper, Laurence. Rousseau, Nature and the Problem of the Good Life. (Pennsylvania: Pennsylvania State University Press, 1999).
  • Cranston, Maurice. Jean-Jacques: The Early Life and Work. (New York: Norton, 1982).
  • Cranston, Maurice. The Noble Savage. (Chicago: University of Chicago Press, 1991).
  • Cranston, Maurice. The Solitary Self. (Chicago: University of Chicago Press, 1997).
  • Damrosch, Leo. Jean-Jacques Rousseau: Restless Genius. )New York: Houghton Mifflin, 2005).
  • Dent, Nicholas J.H. Rousseau : An Introduction to his Psychological, Social, and Political Theory. (Oxford: Blackwell, 1988).
  • Dent, Nicholas J.H. A Rousseau Dictionary. (Oxford: Blackwell, 1992).
  • Dent, Nicholas J.H. Rousseau. (London: Routledge, 2005).
  • Einaudi, Mario. Early Rousseau. (Ithaca: Cornell University Press, 1968).
  • Ellingson, Ter. The Myth of the Noble Savage. (Berkeley, CA: University of California Press, 2001).
  • Garrard, Graeme. Rousseau's Counter-Enlightenment: A Republican Critique of the Philosophes. (Albany: State University of New York Press, 2003).
  • Gauthier, David. Rousseau: The Sentiment of Existence. (Cambridge: Cambridge University Press, 2006).
  • Lange, Lynda. Feminist Interpretations of Jean-Jacques Rousseau. (University Park: Penn State University Press, 2002).
  • Marks, Jonathan. Perfection and Disharmony in the Thought of Jean-Jacques Rousseau. (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
  • Melzer, Arthur. The Natural Goodness of Man: On the System of Rousseau's Thought. (Chicago: University of Chicago Press, 1990).
  • Riley, Patrick (ritstj.). The Cambridge Companion to Rousseau. (Cambridge: Cambridge University Press, 2001).
  • Simpson, Matthew. Rousseau's Theory of Freedom. (London: Continuum Books, 2006).
  • Simpson, Matthew. Rousseau: Guide for the Perplexed. (London: Continuum Books, 2007).
  • Starobinski, Jean. Jean-Jacques Rousseau: Transparency and Obstruction. (Chicago: University of Chicago Press, 1988).
  • Williams, David Lay. Rousseau’s Platonic Enlightenment. (Pennsylvania: Pennsylvania State University Press, 2007).
  • Wokler, Robert. Rousseau. (Oxford: Oxford University Press, 1995).
  • Wraight, Christopher D. Rousseau's The Social Contract: A Reader's Guide. (London: Continuum Books, 2008).
  • Du contrat social Geymt 23 október 2008 í Wayback Machine In: MetaLibri Digital Library.
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:Jean-Jacques Rousseau
  • „Er fulltrúalýðræði hentugasta stjórnarfyrirkomulagið?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað er átt við með samfélagssáttmála?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver var Rousseau og hvert var framlag hans til heimspekinnar?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver er syndafallskenning Rousseaus?“. Vísindavefurinn.