Leirá (Leirársveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Leirá er fornt höfuðból í í Leirársveit, kirkjustaður og fyrrum prestssetur, er stendur við samnefnda fengsæla laxveiðiá. Vegur liggur áfram frá Leirá til hringvegarins við Leirárvoga.

Að Leirá hefur verið útkirkja frá Saurbæ frá 1883, en áður lá Leirá til Mela. Þar var kirkja helguð Pétri postula í kaþólskum sið. Núverandi kirkja á Leirá var reist árið 1914 og á árunum 1973-1976 voru gerðar á henni verulegar endurbætur. Meðal kirkjugripa eru silfurkaleikur og patína sem smíðuð eru í Kaupmannahöfn af Sigurði Þorsteinssyni og gefin kirkjunni af Magnúsi Stephensen árið 1797. Altaristafla kirkjunnar er eftir Eggert Guðmundsson.

Sögur og sagnir[breyta | breyta frumkóða]

Leirár er fyrst getið í Landnámu sem aðsetur Oddgeirs er átti Hróðgeir hinn spaka fyrir bróður og bjó Hróðgeir fyrstur í Saurbæ. Oddgeir þessi flutti síðan að Oddgeirsstöðum í Flóa. Leirá hefur verið meðal mestu höfuðbóla og öndvegisjarða hérlendis og sátu þar margir höfðingjar og áhrifamenn í íslensku þjóðlífi. Meðal þeirra voru Árni lögmaður Oddsson (1592-1665), Jón Vigfússon (1643-1690) síðar biskup á Hólum, Oddur lögmaður Sigurðsson er andaðist með vofveiflegum hætti 1741 og Magnús amtmaður Gíslason (1704-1766) sem tók að sögn Leirá fram yfir Bessastaði þegar hann var amtmaður. Þá bjuggu á Leirá feðgarnir Ólafur Stefánsson (1731-1812) og Magnús Stephensen (1762-1833), er lét reisa þar prentsmiðju og prentaði meðal annars sálmabók 1801. Það sama ár flutti Magnús inn orgel í sóknarkirkjuna á Leirá, eitt það fyrsta í íslenskri kirkju. Þá sat Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld, sá er samdi fyrstu skáldsöguna á íslensku í nútímalegum skilningi á Leirá frá 1863 til dauðadags.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, L-R. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Borgarfjörður og Mýrar. Mál og menning. ISBN 9979-3-0657-2.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.