Melar (Melasveit)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Melar er gamalt höfuðból og áður kirkjustaður og prestssetur í Melasveit í Borgarfjarðarsýslu. Mikið landbrot hefur verið á jörðinni og er upphaflegt bæjarstæði horfið í sjó ásamt fornum kirkjugarði.

Við Mela var kennd forn höfðingjaætt, Melamenn, sem tengdist Sturlungum. Ýmsir fræðimenn voru af ætt Melamanna og við bæinn er kennt skinnbókarbrotið Melabók, en í því eru brot úr Landnámabók, Vatnsdæla sögu, Eyrbyggju og Flóamanna sögu. Í Melabók Landnámu eru ættir víða raktar til Melamanna og hefur einhver af þeirri ætt skrifað eða látið rita nýja útgáfu til að auka hróður ættarinnar. Talið er að það hafi verið Snorri Markússon lögmaður (d. 1313), stundum nefndur Mela-Snorri, en Guðný, móðir Snorra Sturlusonar, var afasystir hans. Sonur hans var Þorsteinn Snorrason ábóti á Helgafelli og hefur hann líklega einnig átt einhvern þátt í ritun bókarinnar.

Kirkjan á Melum var lögð af 1883 og var síðasti prestur þar séra Helgi Sigurðsson, mikill áhugamaður um söfnun fornra gripa og stofnandi Forngripasafnsins ásamt Sigurði Guðmundssyni málara.

Nú er rekið á Melum stórt svínabú og fengu eigendur nágrannajarðarinnar Melaleitis árið 2011 dæmdar bætur vegna lyktarmengunar þaðan.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Jarðeigendur fá milljónir vegna lyktarmengunar." Morgunblaðið, 26. júní 2011“.