Le Coq Sportif

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Le Coq Sportif er franskt fyrirtæki sem framleiðir íþróttafatnað og aðrar íþróttavörur. Það var stofnað árið 1882. Fyrirtækið er að mestu í eigu svissneskra fjárfesta nú um stundir, en það hefur oft skipt um eigendur í gegnum tíðina.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fatakaupmaðurinn Émile Camuset stofnaði klæðaverksmiðju árið 1882 með aðstoð fjölskyldu sinnar. Hann hóf fljótlega framleiðslu á íþróttafatnaði að enskri fyrirmynd. Fyrsti íþróttavörulisti fyrirtækisins kom út árið 1929 og hafði einkum að geyma treyjur fyrir hjólreiðakappa. Tíu árum síðar kynnti það til sögunnar fyrsta íþróttagallann, sem einnig var kynntur sem „sunnudagsklæðnaður“. Áratugir áttur þó eftir að líða uns þýska fyrirtækið Adidas kom slíkum flíkum almennilega á kortið.

Vegur Le Coq Sportif varð mestur á sjötta áratugnum. Upphaf velgengninnar má rekja til þess að árið 1951 tóks fyrirtækinu að tryggja sér réttinn á að framleiða gulu treyjuna sem fremsti keppandinn í Tour de France klæðist meðan á keppni stendur. Fyrirtækið naut einnig góðs af samningi sínum við hjólreiðakappann Louison Bobet sem sigraði í Frakklandshjólreiðunum þrjú ár í röð frá 1953-55. Um svipað leyti náði Le Coq Sportif samningum við knattspyrnu- og rúbbílandslið Frakklands og sá Ólympíuliði Frakka fyrir íþróttafatnaði á Rómarleikunum 1960.

Merki fyrirtækisins, reisulegur hani innan í þríhyrningi, var kynnt til sögunnar árið 1966, en Le Coq Sportif var eitt af fyrsta íþróttavörufyrirtækið til að merkja varning sinn með merki sínu með áberandi hætti. Þegar komið var fram á sjöunda áratuginn var fyrirtækið orðið stærsti íþróttavöruframleiðandi Frakklands.

Stríð við Adidas[breyta | breyta frumkóða]

Á þessum árum var í gildi samkomulag milli Le Coq Sportif og þýska íþróttavörurisans Adidas þess efnis að franska fyrirtækið einbeitti sér að íþróttafatnaði á franska markaðnum en Þjóðverjarnir sinntu skómarkaðnum. Í byrjun áttunda áratugarins ákvað Adidas að blanda sér slaginn á íþróttafatamarkaðnum og kom þá þegar til árekstra og síðar málaferla, enda hafði Camuset-fjölskyldan látið skrá einkaleyfi sitt í Frakklandi á hinu hefðbundna einkennismerki Adidas, röndunum þremur. Afleiðingin var harðvítugt viðskiptastríð fyrirtækjanna tveggja.

Eftir að Adidas beið lægri hlut í málaferlunum leitaði það hefnda með öðrum leiðum, sem fóru nærri því að knésetja Le Coq Sportif. Þjóðverjarnir tryggðu sér auglýsingasamning við Eddy Merckx, rísandi stjörnu í hjólreiðaheiminum. Það og nokkrar slæmar viðskiptaákvarðanir Camuset-fjölskyldunnar komu franska fyrirtækinu í mikil vandræði. Adidas bauðst til að yfirtaka keppinaut sinn, gegn því að fá einkaréttinn á að nota rendurnar þrjár í Frakklandi en Mirielle Camuset, dóttir stofnandans Emile, stóð öndverð gegn öllum slíkum hugmyndum. Sú andstaða byggðist þó fremur á tilfinningarökum en viðskiptasjónarmiðum, þar sem Mirielle hafði verið virk í andspyrnuhreyfingunni í seinni heimsstyrjöldinni. Frönsk stjórnvöld voru sama sinnis og fóru þess á leit við athafnamanninn André Guelfi að hann tæki að sér að bjarga Le Coq Sportif frá ásælni erlendra aðila.

Guelfi tók þetta hlutverk sitt ekki alvarlegar en svo að hann náði samkomulagi við Horst Dassler, þáverandi stjórnanda Adidas, þess efnis að Þjóðverjarnir fengju á laun leiðandi hluta í Le Coq Sportif gegn því að reisa það til vegs og virðingar á ný. Á níunda áratugnum naut fyrirtækið vaxandi velgengni í skjóli þýska risans og þótti það mikil lyftistöng þegar tennisleikarinn Yannick Noah fór með sigur af hólmi á opna franska meistaramótinu 1983 í fötum frá Le Coq Sportif. Merki fyrirtækisins var einnig áberandi á búningum ökumanna kappakstursliða Peugeot og Renault sem og hjólagarpsins Bernard Hinault.

Horst Dassler féll frá árið 1987 og setti það stöðu bæði Adidas og Le Coq Sportif í nokkuð uppnám. Franski auðkýfingurinn Bernard Tapie eignaðist fyrirtækið um tíma en hann stóð þá í ströngu vegna mútumála sem tengdust félagi hans, Olympique de Marseille. Í kjölfarið skipri fyrirtækið nokkrum sinnum um hendur þar sem erlendir fjárfestar seldu það sín á milli. Eftir mikla fjármálaörðugleika var félagið endurskipulagt árið 1005 og fimm árum síðar flutt aftur til stofnbæjarins, Romilly-sur-Seine, þar sem aðalverksmiðjur þess eru í dag.

Kunn keppnislið[breyta | breyta frumkóða]

Fjöldi sigursælla íþróttaliða í ólíkum íþróttagreinum hafa keppt í búningum frá Le Coq Sportif. Ber þar helst að nefna tvö heimsmeistaralið. Annars vegar Ítali á HM á Spáni 1982 og Argentínu á HM í Mexíkó 1986.

Enska liðið Everton varð meistari árið 1985 í treyjum frá Le Coq Sportif. Sömu sögu má segja um Fluminese frá Brasilíu árið 1984 og Ajax Amsterdam nokkrum sinnum á áttunda og níunda áratugnum.