Fara í innihald

Lúðrasveit verkalýðsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lúðrasveit Verkalýðsins)

Lúðrasveit verkalýðsins var stofnuð þann 8. mars 1953 til þess að „efla tónmennt meðal verkalýðsins, leika á útifundum, í kröfugöngum og á öðrum samkomum alþýðunnar“ eins og finna má ritað í lögum hennar. Á þeim rúmu 50 árum sem liðin eru frá stofnun hefur starfið þróast og breyst en félagar í Lúðrasveit verkalýðsins hafa alltaf haft uppruna og sögu sveitarinnar að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna þá hafa félagsgjöld ekki tíðkast og ekki verið settur upp aðgangseyrir að tónleikum Lúðrasveitarinnar. Þetta hefur verið gert til að auðvelda öllum sem áhuga hafa á að hlýða á tónlistarflutning. Í áranna rás hafa verkalýðsfélög í Reykjavík stutt við bakið á starfsemi Lúðrasveitar verkalýðsins og einnig Reykjavíkurborg en borgarráð veitti sveitinni fyrst starfsstyrk árið 1960.

Lúðrasveit verkalýðsins hóf æfingar undir stjórn Haralds Guðmundssonar og hafði sveitin þá enga fasta æfingaaðstöðu. Fyrsti opinberi tónlistarflutningurinn var þann 5. maí 1953 þegar leikið var á „Þjóðarráðstefnunni gegn her í landi“ ásamt Söngfélagi verkalýðssamtakanna. Fyrsta eiginlega æfingahúsnæðið var í skúr við húsið á Tjarnargötu 20 sem sveitin innréttaði árið 1957. Árið 1962 flutti sveitin æfingaaðstöðu sína úr skúrnum í MÍR salinn að Þingholtsstræti 27 þar sem æft var til ársins 1967 þegar flutt var að Vesturgötu 3. Enn var flutt árið 1969 og nú í Skipholt 21 en varanlegt húsnæði hlaut Lúðrasveitin þegar fest voru kaup á efstu hæðinni í Skúlatúni 6. Þetta var stórt skref í sögu sveitarinnar og hefur reynst mikil stoð við starfsemina að hafa fasta æfinga- og félagsaðstöðu.

Undanfarin ár hafa á bilinu 25-30 manns æft reglulega með Lúðrasveit verkalýðsins. Félagar eru á öllum aldri. Sveitin hefur haldið vor- og hausttónleika ár hvert, leikið við hátíðahöld 1. maí og 17. júní auk fleiri tilefna. Afmælisárið 2003 héldu félagar til St. Pétursborgar til tónleikahalds og til að skoða sig um. Sama ár var einnig farið á lúðrasveitarmót til Sviss. Síðast liðin fjögur ár hefur Lúðrasveit verkalýðsins heimsótt bæjarfélög við sjávarsíðuna á Sjómannadaginn þar sem leikið hefur verið við hátíðahöld sjómanna. Árið 2002 var farið til Neskaupstaðar, 2004 til Grindavíkur, 2005 til Bolungarvíkur og vorið 2006 var farið á Grundarfjörð. Þessar ferðir hafa verið bæjarbúum og félögum í sveitinni til mikillar ánægju.

Lúðrasveit verkalýðsins er meðal stofnenda Sambands íslenskra lúðrasveita og lék í fyrsta sinn á landsmóti þess í Vestmannaeyjum árið 1960. Að einu móti undanskildu, hefur Lúðrasveit verkalýðsins sótt landsmót SÍL og félagar hafa verið virkir í stjórnarstörfum sambandsins.

  • Fróðleikur um sögu Lúðrasveitar verkalýðsins er byggður á samantekt Atla Magnússonar sem birtist í 40 ára afmælisriti sveitarinnar sem gefið var út árið 1993


Lúðrasveitir í SÍL
Lúðrasveit Akureyrar | Lúðrasveit Akraness | Lúðrasveit Hafnarfjarðar | Lúðrasveit Hornafjarðar | Lúðrasveit Húsavíkur | Lúðrasveit Reykjavíkur | Lúðrasveit Selfoss | Lúðrasveit Stykkishólms | Lúðrasveitin Svanur | Lúðrasveit verkalýðsins | Lúðrasveit Vestmannaeyja | Lúðrasveit Þorlákshafnar