Lúðrasveit Þorlákshafnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lúðrasveit Þorlákshafnar er áhugamannalúðrasveit í Þorlákshöfn. Meðlimir sveitarinnar eru á öllum aldri og stjórnandi sveitarinnar frá upphafi er Róbert Darling tónlistarkennari.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Lúðrasveit Þorlákshafnar var stofnuð árið 1984 af nokkrum hljóðfæraleikurum í Þorlákshöfn fyrir tilstilli Lionsklúbbs Þorlákshafnar. Róbert Darling var fyrsti stjórnandi sveitarinnar og hefur stjórnað henni nær óslitið síðan. Virkir félagar sveitarinnar eru um 40 manns á öllum aldri. Viðfangsefni lúðrasveitarinnar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin. Á hverju ári hefur sveitin tekið þátt í ýmsum hátíðarhöldum í Þorlákshöfn líkt og þjóðhátíðardegi Íslendinga, sjómannadeginum, jólaljósatendrun og Hafnardögum. Sveitin hefur einnig haft aðra fasta punkta eins og jóla- og vortónleika til fjölda ára. Á seinni árum hefur Lúðrasveit Þorlákshafnar ráðist í ýmis óhefðbundnari og meira krefjandi verkefni eins og nýárstónleika, jólatónleika á Selfossi þar sem sveitin spilaði með Páli Óskari, Kristjönu Stefánsdóttur og söngvaranum Daníel Hauki. Stærsta verkefnið sem sveitin hefur ráðist í er verkefnið "Þar sem himin ber við haf" með tónlistarmanninum og gömlum lúðrarsveitarmeðlimi Jónasi Sigurðssyni.

Sveitin hefur frá stofunun tekið þátt í landsmótum lúðrasveita og sjálf haldið landsmót meðal annars í október 2013 þar sem um 200 lúðrasveitarmeðlimir íslenskra lúðrasveita tóku þátt og tróðu upp á stórtónleikum ásamt 200.000 naglbítum, Jónasi Sigurðssyni og Fjallabræðrum.

Þorláksvaka[breyta | breyta frumkóða]

Um árabil stóð L.Þ. fyrir eigin hátíðarhöldum í Þorlákshöfn, Þorláksvöku, en hún var haldin í fyrsta sinn vorið 1988 og var framkvæmdin alfarið í höndum sveitarinnar. Þá var slegið upp stóru samkomutjaldi í skrúðgarði bæjarins og ýmislegt haft til skemmtunar, bæði fyrir börn og fullorðna. Má segja að þarna hafi komið vísir af bæjarhátíð framtíðarinnar.

Jólakveðjur[breyta | breyta frumkóða]

Jólakveðjur lúðrasveitarinnar settu í nokkur ár svip á Þorlákshöfn á Þorláksmessu, en þá gat fólk sent vinum og vandamönnum kveðju gegn vægu gjaldi með lúðrablæstri félaga L.Þ. Þótt lúðrasveitin taki ekki lengur við pöntunum á jólakveðjum þá hefur hún lagt það í vana sinn að fara á stúfana rétt fyrir jólin og spila jólalög á nokkrum vel völdum stöðum í bænum.

Popphornið[breyta | breyta frumkóða]

Landsmót sambands íslenskra lúðrasveita var haldið í Þorlákshöfn haustið 2013. Þessi viðburður var nefndur Popphornið og var hugmyndin sú að fylgja eftir uppgangi lúðrasveita í landinu og auknum sýnileika þeirra vegna þátttöku í ýmsum stórverkefnum undanfarin ár. Þekktir tónlistarmenn sem hafa unnið með lúðrasveitum á landinu tóku þátt í viðburðinum. Þátttakendur voru um 200 talsins auk Jónasar Sigurðssonar, 200.000 naglbítum og Fjallabræðrum. Tónleikarnir voru haldnir í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar og komu um 800 gestir á tónleikana.

Þar sem himinn ber við haf[breyta | breyta frumkóða]

Verkefnið "Þar sem himinn ber við haf" var samstarfsverkefni Lúðrarsveitar Þorlákshafnar og Jónasar Sigurðssonar. Verkefnið er eitt það stærsta sem Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur ráðist í þau ár hún hefur verið starfandi. Um er að ræða frumsamda tónlist frá Jónasi þar sem lúðrasveitin er sérstaklega höfð í huga. Verkið er heilstætt, saga með upphafi, miðju og endi og grunntónninn er hafið, sjávarþorp og lífið.Tónlistin er stór og útsetningar miklar, dramatík og kraftur. Útgáfutónleikar voru haldnir 19. og 20. október í Reiðhöll Guðmundar í Þorlákshöfn. Reiðhöllinni var breytt úr skítugri reiðhöll í glæsilega tónleikahöll sem rúmaði 400 manns í sæti, ásamt stóru sviði og sýningartjaldi.

Viðurkenningar verkefnisins[breyta | breyta frumkóða]

  • Þrjú lög af plötunni Þar sem himinn ber við haf náðu efstu sætum vinsældalista Rásar 2
  • Í maí 2013 hlaut L.Þ. ásamt Jónasi Sig menningarverðlaun Ölfuss fyrir útgáfutónleikana Þar sem himin ber við haf sem og öflugt innlegg í menningarlíf Þorlákshafnar.



Lúðrasveitir í SÍL
Lúðrasveit Akureyrar | Lúðrasveit Akraness | Lúðrasveit Hafnarfjarðar | Lúðrasveit Hornafjarðar | Lúðrasveit Húsavíkur | Lúðrasveit Reykjavíkur | Lúðrasveit Selfoss | Lúðrasveit Stykkishólms | Lúðrasveitin Svanur | Lúðrasveit verkalýðsins | Lúðrasveit Vestmannaeyja | Lúðrasveit Þorlákshafnar
  Þessi menningargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.