Kínamúrinn
Kínamúrinn (hefðbundin kínverska: 長城, einfölduð kínverska: 长城, Hanyu Pinyin: Chángchéng) er 21.196 kílómetra langur virkisveggur í Kína sem var byggður á Ming-tímanum sem spannar tímabilið frá 14. öld til þeirrar 16.. Hann var reistur til þess að vernda Kína gegn innrásum mongólskra og tyrkneskra ættflokka úr norðri og norðvestri. Þegar mest var stóðu rúmlega ein milljón hermanna vörð á múrnum. Kínamúrinn, sem er á heimsminjaskrá UNESCO, er vinsæll ferðamannastaður í Kína og eitt þekktasta mannvirki landsins.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Byggingarsögu múrsins er yfirleitt skipt í þrjá hluta og eru þeir nefndir eftir þeim ættum sem þá stjórnuðu landinu. Það er Qin-tímabilið, Han-tímabilið og Ming-tímabilið.
Qin-tímabilið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 211 f.Kr. var Kína skipt niður í furstadæmi, en með því hófust gegndarlausar skærur um yfirráð þeirra og margir furstar létu byggja leir- og moldarveggi til að vernda sig og sína. Bardagarnir héldu áfram þar til árið 211 e.Kr., að Qin-ættin sem var undir forystu Zheng, náði völdum á öllum furstadæmunumm og sameinaði þau saman í eitt furstadæmi sem nú er Kína.
Í kjölfar sameiningarinnar breytti hann nafni sínu og tók upp nafnið Shi Huangdi Tí eða „hinn fyrsti einvaldi keisari“. Til þess að Kína yrði eitt ríki lét hann auk þess samræma letur og mælieiningar og setti furstadæmunum fyrrverandi sömu staðla í einu og öllu. Enn fremur lét hann rífa niður og eyða flestum öðrum múrum á milli furstadæmanna svo landið yrði ein órofa heild. Nágrannar Kína voru Mongólar en þeir voru svarnir óvinir Kínverja og réðust inn í landið hvenær sem tækifæri gafst til. Til þess að verjast þeim sameinaði og styrkti Shi Huangdi hluta af ytri múrum hinna gömlu furstadæma, lengdi þá og byggði nýja.
Stuttu eftir valdatökuna lét hann hefja byggingu múrsins, en hann varð allt í allt 3700 km á einungis átta árum. Byggingarhraðinn samsvaraði því að byggður væri einn og hálfur kílómetri á dag. Þessi fyrsti múr var kallaður 10.000 Li langveggurinn eða Stóri Mangol og var frumgerð Kínamúrsins. Til þess að halda þessum gífurlega byggingarhraða voru hundruð þúsund þræla notuð í verkið og enn fleiri sjálfseignarbændur fengnir til að aðstoða og þegar mest var er talið að um 20 milljónir manns hafi unið að því að byggja vegginn í einu. Enda er talið að tala þeirra sem létust við byggingu múrsins hlaupi á hundruðum þúsunda. Það er í raun rangnefni að kalla þetta einn múr því þetta voru margar raðir af múrum og sums staðar urðu þeir tvöfaldir.
Shi Huangdi þótti mikill kúgari og ætlaði arftaki hans að halda því áfram en hann var ráðinn af dögum tveimur til þremur árum eftir dauða Shi Huangdi. Gerðist það í mikilli uppreisn árið 206 f.Kr. Eftir fall Chin-ættarinnar urðu átök um stjórnun landsins og í henni var múrinn skilinn eftir ómannaður í 66-7 ár eða uns Han-ættin náði völdum. Þá hófst annar þáttur í byggingarsögu múrsins.
Tími Han-ættarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Han-ættin, undir stjórn Wu-ti, mannaði vegginn mun betur með því að setja ljósvita á 2,5 km fresti, turna á 5 km fresti, virki á 15 km fresti og kastala á 50 km fresti. Ef gerð var á árás á vegginn þá sendu verðirnir reykmerki frá ljósvitunum að degi til en kveiktu á vitanum að nóttu til og bárust þá skilaboðin hratt eftir múrnum og náðu þau til keisarahallarinnar mun fyrr heldur en ef reiðskjóti hefði verið sendur. Wu-ti lét einnig leggja Silkiveginn en það var verslunarleið sem lá með fram múrnum til vesturs og náði hún miklum vinsældum. Múrinn varði leiðina drjúgan hluta leiðarinnar. Fleiri meðlimir Han-ættarinnar létu lagfæra og auka við múrinn. Ein af merkari stækkunum ættarinnar var þegar múrinn var byggður í gegnum Gobi-eyðimörkina sem þykir afar illfær.
Vegna þess hve jörðin í Gobi-eyðimörkinni er snauð varð efnisnotkun öðruvísi en áður hafði verið. Í stað þess að þjappa mold og leir í 10 cm háa viðarramma, þá var sett í botninn á viðarrömmunum reyrstafi og ofan á það fíngerður sandur og vatn sem var þjappað vel.
Frá Han-ættinni til Ming-ættarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að Han-ættin hrökklaðist frá völdum liðu yfir 1000 ár þar til byggt var eitthvað að ráði við múrinn aftur. Þó skipti múrinn áfram gífurlega miklu máli fyrir kínversku þjóðina. Árið 423 lét Ming-shuan byggja um 1000 km viðbót við múrinn og á eftir honum kom Tai-wu sem lét byggja þunnan vegg utan um höfuðborgina. Árið 552 voru fengnar 1,8 milljónir manns til að gera við og stækka múrinn. Eftir að Súí-ættin náði völdum var byggt við múrinn og gert við hann sjö sinnum.
Tang-ættin náði völdum 618 og hófst þá mikil þensla í Kína. Fyrir vikið datt Kínamúrinn upp fyrir og endaði með því að Mongólar réðust á Kína og náðu henni á sitt vald árið 1279 og réðu henni í ríflega 100 ár en þá kom Ming-ættin til sögunnar og með henni fylgdi gullaldartími Kínamúrsins. Ming-ættin náði aftur völdunum í ríkinu og ákvað að aldrei aftur skildu Mongólar ráðast á Kína. Með það fyrir augunum lét Ming-ættin því hefjast handa við að byggja mun rammgerðari og traustari múr en áður hafði verið. Múrinn var í þetta sinn aðallega hlaðinn úr steini ólíkt því sem áður hafði verið en framan af hafði múrinn verið úr mold, leir og sandi. Ming-múrinn er sá múr sem sjá má í dag og er þekktur sem sem Kínamúrinn. Þegar Ming-ættin lét byggja múrinn fékk hún til þess hæfa steinverkamenn í stað þrælanna sem áður höfðu unnið við að reisa múrinn og borgaði þeim í silfri. Ming-ættin endurbyggði drjúgan hluta af múrunum og bætti enn fremur við hann.
Ming-ættin byggði nálægt höfuðborginni annan múr samsíða hinum svo um tvöfalda vörn væri að ræða og var þá skipt í syðri og nyrðri múr. Ming-ættin var ein duglegasta ættin í byggingu múrsins og bætti hún hann ekki aðeins heldur lengdi hann einnig mikið. Árið 1644 hrökklaðist Ming-ættin frá völdum og Ching-ættin tók völdin. Lagði hún mikla áherslu á að sameina Mongólíu, Tíbet og aðrar þjóðir í kring og því var engin ástæða fyrir því að halda múrnum við vegna þess þá stafaði Kína ekki ógn af nágrannaþjóðum sínum. Af þessum sökum var múrnum ekki haldið við öldum saman.
Nútíminn
[breyta | breyta frumkóða]Í upphafi 20. aldarinnar var hluti múrsins eyðilagður í kringum höfuðborgina. Einnig hafa verið gerð göt í gegnum vegginn fyrir vegi. Árið 1970 gekk þetta meira að segja svo langt að hluti af múrnum var rifinn niður og notaður í byggingarefni. Í dag er litið á þetta öðrum augum og hlutinn sem var eyðilagður árið 1970 hefur verið endurbyggður og vissir hlutar af múrnum verið gerðir upp.
Árið 1987 var Kínamúrinn settur á heimsminjaskrá UNESCO. Múrinn er nú vinsæll ferðamannastaður í Kína og á ágangur ferðamanna á múrinn nú mestan þátt í að þörf er á viðhaldi og viðgerðum á honum.
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Kínamúrinn er allt í allt 7300 km langur, ef tvöföldun er ekki tekin með þá er hann um 6700 km langur. Múrinn er að meðaltali sjö til átta metra hár og fer mest í 10 metra. Hann er sex metra breiður og hægt er að ganga ofan á múrnum og eru eins metra háir kantar ofan á múrnum svo hestar og menn falli ekki af honum. Tröppur liggja upp á múrinn og á 200-300 metra fresti kemur svo upphækkaður stallur sem gaf góða sýn yfir bardagann. Þar uppi kemur svo reglulega ljósviti eða skjól fyrir hermennina í stormum. Stundum var stallurinn á tveimur til þremur hæðum og voru vopn og skotfæri geymd þar inni.
Kínamúrinn í menningu og listum
[breyta | breyta frumkóða]Mörg merk ummæli hafa verið látin flakka um þennan múr. Þegar Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, heimsótti Kína sagði hann: „Þetta er merkur múr og einungis merk þjóð með merka fortíð hefði getað byggt svo merkan múr. Og svo merk þjóð með svo merka fortíð mun eflaust eiga sér merka framtíð.“[1]
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Á ensku: „This is a Great Wall and only a great people with a great past could have a great wall and such a great people with such a great wall will surly have a great future.“
Heimildir og ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Yamashita, Michael and William Lindesay, The Great Wall: From Beginning to End (New York: Sterling Publishing, 2007).
- Arnold, H.J.P, „The Great Wall: Is It or Isn't It?“ Astronomy Now (1995).
- Hessler, Peter., „Walking the Wall“, The New Yorker 21. maí (2007): 56-65.
- Lovell, Julia, The Great Wall: China against the World. 1000 BC - 2000 AD (London: Atlantic Books, 2006).
- Michaud, Roland, Sabrina Michaud og Michel Jan, The Great Wall of China (Abbeville Press, 2001).
- Waldron, Arthur, The Great Wall of China: From History to Myth (Cambridge: Cambridge University Press, 1990).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Kínamúrinn
- International Friends of the Great Wall Geymt 17 febrúar 2009 í Wayback Machine - samtök sem beita sér fyrir verndun og viðhaldi múrsins.
- „The Great Wall of China: Tangible, Intangible and Destructible“ Geymt 19 júlí 2008 í Wayback Machine, China Heritage Magazine, mars 2005.
- Paul Mooney, „Great Wall of China Overrun, Damaged, Disneyfied“, National Geographic News, 15. maí 2007.
- Panoramamyndir af Kínamúrnum Geymt 11 febrúar 2007 í Wayback Machine frá Powerhouse Museum