Kvikmyndahátíð í Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kvikmyndahátíð í Reykjavík, áður Kvikmyndahátíð Listahátíðar í Reykjavík, er kvikmyndahátíð sem haldin er í Reykjavík.

Fyrsta kvikmyndahátíðin var haldin í tengslum við Listahátíð í Reykjavík 2.-12. febrúar 1978 í kjölfar umræðu innan Bandalags listamanna þar sem kvikmyndagerðarfólki þótt sinn hlutur hafa verið rýr á fyrri listahátíðum. Framkvæmdastjóri listahátíðar var þá Davíð Oddsson en framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar var Friðrik Þór Friðriksson. Heiðursgestur var Wim Wenders og fóru flestar sýningar fram í Háskólabíói, en nokkrar í Tjarnarbíói.

Kvikmyndahátíðin var síðan haldin annað hvert ár, sama ár og Listahátíð, en í upphafi 10. áratugarins minnkaði aðsókn ört og hrundi árið 1993 frá því sem áður hafði verið. Þá var rætt um að breyta fyrirkomulagi hátíðarinnar. Engin hátíð var haldin 1995 en 1996 var hátíðin endurreist sem Kvikmyndahátíð Reykjavíkur ótengd Listahátíð og haldin af Félagi kvikmyndagerðarmanna. Hátíðin var haldin árlega eftir það en lognaðist út af eftir 2001.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF) hefur verið haldin í Reykjavík frá 2004.