Stuttmyndadagar í Reykjavík
Stuttmyndadagar í Reykjavík er kvikmyndahátíð sem var haldin árlega í Reykjavík frá 1992 til 2002 og var endurreist vorið 2008. Hátíðin var upphaflega haldin af Kvikmyndafélagi Íslands, fyrirtæki Júlíusar Kemp og Jóhanns Sigmarssonar. Myndirnar voru sýndar á Hótel Borg 27. til 29. apríl 1992. Meðal fyrstu myndanna sem sýndar voru var Sjúgðu mig Nína eftir Óskar Jónasson og Spurning um svar eftir Sævar Guðmundsson og Filmumenn. 1993 var hátíðinni breytt í keppni þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestu myndina. 40 myndir bárust það ár og fyrstu verðlaun hreppti stuttmyndin Athyglissýki eftir Reyni Lyngdal og Arnar Jónasson. Meðal verðlaunahafa í gegnum tíðina má nefna Róbert Douglas, Ragnar Bragason og fleiri sem hafa verið áberandi í gerð kvikmynda í fullri lengd.
Árið 2008, eða sama ár og keppnin var endurreist var haldin í fyrsta skipti kvikmyndahátíðin Reykjavík Shorts & Docs þar sem veitt voru verðlaunin Silfurrefurinn fyrir bestu stuttmyndina annars vegar og bestu heimildarmyndina hins vegar.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur Stuttmyndadaga Geymt 20 september 2019 í Wayback Machine