Smárakirkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Krossinn)
Jump to navigation Jump to search

Smárakirkja er íslenskt trúfélag, sem á rætur að rekja til Hvítasunnukirkjunnar, stofnað 3. júní 2014. Smárakirkja er til húsa að Hlíðasmára í Kópavogi.

Almennar safnaðarsamkomur eru haldnar tvisvar á viku; á sunnudögum kl. 16:30 og á þriðjudögum kl. 20:00. Að auki eru reglulegar bænastundir á miðvikudögum kl. 19:30.[1]

Forstöðumaður kirkjunnar er Sigurbjörg Gunnarsdóttir, en hún tók við af föður sínum Gunnari Þorsteinssyni árið 2010.[2]

Slagorð kirkjunnar er: Elskum alla, þjónum öllum

Saga Smárakirkju[breyta | breyta frumkóða]

Trúfélagið Krossinn var stofnað árið 1979, en fékk löggildingu trúfélags árið 1982. Söfnuðurinn hefur alla tíð komið saman í Kópavogi. Fyrst um sinn var hann staðsettur í Auðbrekku 34 en er nú staðsettur í Hlíðasmára 5-7 í Kópavogi. Rætur Krossins liggja í Hvítasunnukirkjunni, en fyrsti forstöðumaður Krossins, Gunnar Þorsteinsson tilheyrði þeim söfnuði áður en Krossinn var stofnaður. Árið 2010 tók Sigurbjörg dóttir hans við starfinu og var nafninu breytt í Smárakirkju þann 3. júní 2014.

Trúarjátning[breyta | breyta frumkóða]

Grunnur að trúarjátningu kirkjunnar er sú trú safnaðarmeðlima (þó ekki sé gerð krafa um þessa trú við skráningu í söfnuðinn) að Biblían sé innblásið Orð Guðs. Þetta byggir söfnuðurinn meðal annars á 16. versi í 3. kafla 2. Tímóteusarbréfs, en þar bendir Páll postuli Tímóteusi samverkamanni sínum á að sérhver ritning sé innblásin af Guði.

Frá Biblíunni fær söfnuðurinn svo aðrar játningar sínar, sem eru í megin atriðum hefðbundnar kristnar kenningar, svo sem um guðdómleika Jesú Krists og endurfæðingu mannsins fyrir trú á Jesú.

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Skipulag safnaðarins er þannig að safnaðarfundur kýs sér forstöðumann og fimm manna stjórn (forstöðumaður auk fjögurra annarra sitja í stjórninni), auk eins varamanns. Forstöðumaður safnaðarins sér um daglegt skipulag eftir samþykktum stjórnarinnar.


Starfseminni má í megin atriðum skipta í:

  • Almennar samkomur
  • Unglingastarf
  • Barnastarf
  • Tónlistarstarf
  • Tekmar tæknideild
  • Verslun

Almennar samkomur[breyta | breyta frumkóða]

Almennar samkomur eru á sunnudögum kl. 16:30 og á þriðjudögum kl. 20:00. Umsjón með samkomunum hefur forstöðumaður, en hann útdeilir verkefnum. Tónlistarstarfið sér þá almennt um lofgjörðina, Tekmar tæknideildin sér um hljóðblöndun, upptökur og Netútsendingar og forstöðumaður predikar eða fær aðra til þess.

Tónlistarstarf[breyta | breyta frumkóða]

Á samkomum spilar hljómsveit blöndu af gospel, rokki og rólegri lögum. Tilgangur starfsins er að hvetja, uppörva og þjálfa þá sem Guð hefur kallað í tónlistarþjónustu í ágæti, næmni, auðmýkt og einnig styrk.

Tekmar[breyta | breyta frumkóða]

Tekmar, tæknideild kirkjunnar, vinnur metnaðarfullt starf. Deildin hefur umsjón með vefsíðunni krossinn.is og vefhönnun sem því fylgir. Einnig sér Tekmar um alla tæknivinnslu, viðbætur og þróun heimasíðunnar, hljóð-, hreyfimynda- og myndvinnslu fyrir síðuna og því að koma áður unnu efni út á Netið, á heimasíðu Smárakirkju, Facebook síðu kirkjunnar, Youtube.com og Vimeo.com.

Verslun[breyta | breyta frumkóða]

Í safnaðarheimilinu er rekin lítil verslun með kristilegar bækur og geisladiska, auk kaffisölu. Ágóði af versluninni fer til góðra málefna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Samkomur". . (Krossinn lifandi kirkja). Skoðað 01-01-2012.
  2. „Yfirlýsing frá Krossinum". . (Krossinn lifandi kirkja). Skoðað 01-01-2012.


Tenglar[breyta | breyta frumkóða]