Kráku-Hreiðar Ófeigsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kráku-Hreiðar Ófeigsson var landnámsmaður í Skagafirði og nam Tungusveit eða hluta hennar.

Um hann segir í Landnámabók:

Gæsalappir

Kráku-Hreiðar hét maður, en Ófeigur lafskegg faðir hans, son Yxna-Þóris. Þeir feðgar bjuggu skip sitt til Íslands, en er þeir komu í landsýn, gekk Hreiðar til siglu og sagðist eigi mundu kasta öndvegissúlum fyrir borð, kveðst það þykja ómerkiligt að gera ráð sitt eftir því, kveðst heldur mundu heita á Þór, að hann vísaði honum til landa, og kveðst þar mundu berjast til landa, ef áður væri numið. En hann kom í Skagafjörð og sigldi upp á Borgarsand til brots. Hávarður hegri kom til hans og bauð honum til sín, og þar var hann um veturinn í Hegranesi. Um vorið spurði Hávarður, hvað hann vildi ráða sinna, en hann kveðst ætla að berjast við Sæmund til landa. En Hávarður latti þess og kvað það illa gefist hafa, bað hann fara á fund Eiríks í Guðdölum og taka ráð af honum, "því (að) hann er vitrastur maður í héraði þessu". Hreiðar gerði svo. En er hann (fann) Eirík, latti hann þessa ófriðar og kvað það óhent, að menn deildi, meðan svo væri mannfátt á landi, kveðst heldur vilja gefa honum tunguna alla niður frá Skálamýri, kvað þangað Þór hafa vísað honum og þar stafn á horft, þá er hann sigldi upp á Borgarsand, kvað honum ærið það landnám og hans sonum. Þenna kost þekkist Hreiðar og bjó á Steinsstöðum; hann kaus að deyja í Mælifell. Son hans var Ófeigur þunnskeggur, faðir Bjarnar, föður Tungu-Steins.“

— Landnáma.

Kráku-Hreiðar nam því neðri hluta Reykjatungu, sem er á milli Svartár að vestan og Héraðsvatna að austan og hafði verið hluti af landnámi Eiríks Hróaldssonar, en óvíst er hvar efri mörkin voru því örnefnið Skálamýri er týnt. Landnámsjörðin Steinsstaðir er neðarlega í Tungunni.

Samkvæmt frásögn Landnámu kom Ófeigur faðir Hreiðars með honum til Íslands en hann er þó aldrei talinn landnámsmaður, heldur aðeins sonurinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Landnámabók“.
  • Ólafur Lárusson (1940). Landnám í Skagafirði. Sögufélag Skagfirðinga.