Fara í innihald

Mælifellshnjúkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mælifellshnjúkur.

Mælifellshnjúkur er fjall í vestanverðum innsveitum Skagafjarðar. Hann er 1138 metrar á hæð, gnæfir yfir öll nærliggjandi fjöll og er mjög áberandi og eitt þekktasta fjall Skagafjarðar. Sagt er að í björtu veðri sjáist á hnjúkinn úr tíu sýslum. Af honum er einnig mjög víðsýnt og er því vinsælt að ganga á hann, enda er uppgangan tiltölulega auðveld.

Hnjúksins er getið í Landnámabók, þar sem sagt er frá því að Kráku-Hreiðar Ófeigsson, landnámsmaður í Tungusveit, kaus að deyja í Mælifell. Nafnið vísar til þess að í sveitunum utan við hnjúkinn var frá alda öðli talið hádegi þegar sól var yfir honum. Hnjúkurinn hefur líka verið notaður til að spá fyrir veðri; ef þokubelti er um hann miðjan en toppurinn stendur vel upp úr er talið víst að þurrkur verði daginn eftir. Í austanverðum hnjúknum er fönn fram á sumar sem þykir líkjast hesti, séðum frá hlið. Hún minnkar svo þegar líður á sumarið og þegar hesturinn var farinn í sundur um bógana var talið að Stórisandur væri orðinn fær, en forn þjóðleið suður á Stórasand og Kjalveg lá um Mælifellsdal, vestan við hnjúkinn.

Undir hnjúknum er bærinn Mælifell, kirkjustaður og áður prestssetur.

Jakob H. Líndal rannsakaði jarðfræði Mælifellshnjúks og skrifaði grein um hana í Náttúrufræðinginn, 10. árg. 1940. Ýmsir hafa rannsakað fjallið síðar. Mælifellshnjúkur er gerður úr móbergi (kubbabergi og móbergstúffi) sem hvílir á miklu eldri basalthraunlögum. Hann hefur orðið til við gos undir þykkum ísaldarjökli á skammvinnu eldgosaskeiði sem kom upp í Skagafirði löngu eftir að aðaljarðlagastafli héraðsins hafði hlaðist upp og megin drættir landslagsins höfðu mótast. Drangey, Málmey, Þórðarhöfði og jarðmyndanir yst á Skaga urðu til á sama skeiði. Mælifellshnjúkur er talinn vera um milljón ára gamall.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Lýtingsstaðahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2004. ISBN 978-9979-861-13-4