Fara í innihald

Steinsstaðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steinsstaðir er bær í Tungusveit í Skagafirði, fornt höfuðból og landnámsjörð Kráku-Hreiðars. Búskapur lagðist niður á Steinsstöðum 1943 en jörðinni var þá skipt niður í nokkur nýbýli og nú hefur risið dálítið þéttbýli í landi Steinsstaða.

Mikill jarðhiti er í landi Steinsstaða og næstu jarðar, Reykja. Þar var frá fornu fari þvottalaug, Steinsstaðalaug, sem mestöll sveitin nýtti sér. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem fæddur var á Steinsstöðum 1762, lýsir lauginni svona árið 1792: „Spottakorn fyrir sunnan Reyki er hin fagra Steinsstaðalaug, sem er ekki heitari en svo að þægilegt er að þvo í henni. Þess vegna hefur verið gert þar þvotta- og þófarastæði fyrir hérumbil alla sveitina (þófara­bálkur).“ Páll Sveinsson silfursmiður á Steinsstöðum, faðir Sveins, smíðaði vatnsmyllu við laugarlækinn.

Árið 1822 hóf Jón Þorláksson Kærnested sundkennslu sem mun hafa farið fram í Steinsstaðalaug þótt oft sé sagt að hún hafi verið á Reykjum. Er talið vel líklegt að Fjölnismenn, eða einhverjir þeirra, hafi þá verið meðal nemenda hans, því Jónas Hallgrímsson og Brynjólfur Pétursson voru við nám í Goðdölum og Konráð Gíslason átti heima skammt frá. Eftir það var sund kennt þar öðru hverju og frá 1890 á hverju vori. Síðar var hlaðin upp laug á Steinsstöðum og var þar fyrsti opinberi sundstaður Skagafjarðarsýslu. Árið 1925 var svo hafist handa við að steypa upp sundlaug og var það fyrsta steinsteypta laug sýslunnar. Núverandi sundlaug var tekin í notkun 1980.

Á Steinsstöðum reis skóli fyrir sveitina 1949 og var þar heimavist til 1976. Kennslu var hætt í Steinsstaðaskóla vorið 2003 og farið að flytja alla nemendur í Varmahlíðarskóla. Nú er skólahúsið nýtt til ferðaþjónustu. Félagsheimilið Árgarður var vígt 1974.

Í landi jarðarinnar hafa risið mörg nýbýli, iðnaðarbýli og íbúðarhús, þar á meðal þjónustu- og ferðamannamiðstöðin Bakkaflöt. Þar er einnig nokkur sumarbústaðabyggð.