Fara í innihald

Kollafjörður (Ströndum)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kollafjörður á Ströndum)
Klakkur er áberandi fjall í botni Kollafjarðar. Bærinn á myndinni heitir Undraland.
Kort sem sýnir Kollafjörð og nágrenni.

Kollafjörður er stuttur fjörður á Ströndum. Bændur þar lifa á sauðfjárrækt. Grunnskóli var rekinn á Broddanesi frá 1978 fram til ársins 2004, en hætti þá um haustið og skólabörnum er nú ekið til Hólmavíkur. Skólabyggingin er nú notuð í ferðaþjónustu, en þar er farfuglaheimili. Hún er teiknuð af dr. Magga Jónssyni arkitekt.

Næsti fjörður norðan við Kollafjörð er Steingrímsfjörður og næsti fjörður sunnan við er Bitrufjörður. Úr botni Kollafjarðar liggur vegur nr. 69 yfir í Gilsfjörð um Steinadalsheiði.

Utarlega í Kollafirði norðanverðum standa tveir steindrangar í fjöruborðinu, í Drangavík. Sagan segir að þeir séu tröll sem dagaði þar uppi eftir að hafa gert tilraun til að skilja Vestfirði frá meginlandinu. Kjálkann ætluðu þau að hafa fyrir tröllaríki. Stærri drangurinn er kerlingin og sá minni er karlinn. Þriðja tröllið sem tók þátt í þessari vinnu er drangurinn sem Drangsnes er kennt við.

Á Kollafjarðarnesi er kirkja, byggð úr steinsteypu árið 1909. Það er elsta steinsteypta hús á Ströndum. Kollafjarðarnes er nú sumardvalarstaður. Á sveitabænum Felli var um tíma rekin sumardvöl fyrir fatlaða einstaklinga.

Erfið siglingaleið er inn á fjörðinn vegna skerja. Þjóðsagan segir að kerlingin Hnyðja hafi lagt á fjörðinn að þar myndi aldrei drukkna maður og heldur aldrei fást þar bein úr sjó, eftir að synir hennar tveir drukknuðu í fiskiróðri.

Jarðir í Kollafirði

[breyta | breyta frumkóða]

Síðastnefnda jörðin, yst við norðanverðan Kollafjörð, tilheyrðu áður Kirkjubólshreppi og síðar Hólmavíkurhreppi, en hinar tilheyrðu Broddaneshreppi, síðar Fellshreppi og síðan aftur Broddaneshreppi. Nú eru öll þessi sveitarfélög hluti af Strandabyggð.