Justin Fashanu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Justin Fashanu, (fæddur Justinus Soni Fashanu; 19. febrúar 1961 – 2. maí 1998) var enskur knattspyrnumaður. Hann lék með mörgum liðum á milli árana 1978 og 1997. Hann er þekktastur fyrir að vera fyrsti opinberlega samkynhneigði atvinnumaður á Englandi. Hann spilaði flesta leiki með uppeldisklúbbnum sínum, Norwich City og skoraði sögulegt mark fyrir þá á móti Liverpool árið 1979. Markið var síðar valið sem mark tímabilsins hjá BBC. Norwich seldi Justin síðan til Nottingham Forest árið 1981 fyrir metfé og var hann fyrsti svarti knattspyrnumaðurinn til þess að vera seldur fyrir meira en eina milljón punda.

Ferill Justins náði ekki flugi hjá Nottingham Forest og skoraði hann einungis 3 mörk í 32 leikjum. Hann var síðan seldur frá Nottingham Forest og flakkaði á milli klúbba til ársins 1997 þegar hann lagði skóna á hilluna og flutti til Bandaríkjanna. Í Bandaríkjunum var hann sakaður um kynferðisofbeldi gegn 17 ára dreng. Ásökunin leiddi til þess að Justin Fashanu fór aftur til Englands og framdi þar sjálfsmorð.

Knattspyrnuferill[breyta | breyta frumkóða]

Justin Fashanu hóf feril sinn hjá Norwich City og gerðist atvinnumaður í desember 1978. Hann lék sinn fyrsta deildarleik 13. janúar 1979, gegn West Bromwich Albion en leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Hann spilaði 103 leiki fyrir aðallið Norwich og skoraði 40 mörk. Justin lék 11 leiki fyrir U21 árs landslið Englands og skoraði 5 mörk en var aldrei valinn í A-landsliðið. Tímabilið 1980-81 var Justin Fashanu þriðji markahæsti leikmaður efstu deildarinnar ásamt Michael Robinson hjá Brighton , en báðir skoruðu 19 mörk það tímbil. Markahæstu menn það tímabilið voru þeir Steve Archibald (Tottenham) og Peter White (Aston Villa) með 20 mörk hvor. Frammistaða Justin vakti mikla athygli hjá fjölda félaga, þar á meðal frá nýkrýndum evrópumeisturum Nottingham Forest.  

Justin gekk til liðs við Nottingham Forest næsta tímabil og var þá fyrsti svarti knattspyrnumaðurinn sem var seldur fyrir eina milljón punda eða meira. Justin gekk ekki vel hjá Nottingham Forest og skoraði aðeins 3 mörk í 32 leikjum fyrir félagið. Samband hans við knattspyrnustjórann Brian Clough var ekki gott en deila þeirra snerist meðal annars um kynhneigð Justins og líffstíl en Clough heyrði orðróm um heimsóknir Fashanu á næturklúbba og bari samkynhneigðra. Justin var meinað að æfa með liðinu og var sendur á lán til Southampton árið 1982. Justin skoraði þrjú mörk í níu leikjum fyrir suðurstrandarliðið, en fjárhagserfiðleikar liðsins komu í veg fyrir að Southampton gæti keypt leikmanninn.

Ásökun um kynferðisofbeldi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1998 bjó Justin í Maryland ríki í Bandaríkjunum. Í mars það ár var hann sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn 17 ára dreng. Samkynhneigð var ólögleg í Maryland á þessum tíma og drengurinn hélt því fram Justin hafi áreitt hann kynferðislega meðan hann svaf í íbúð Fashanu. Fashanu var yfirheyrður af lögreglu þann 3. apríl en var ekki settur í varðhald, en þann 3. apríl var gefin út handtökuskipun á hendur honum. Þá kom í ljós að Fashanu hafði flúið Bandaríkin og farið til Englands.

Sjálfsvíg[breyta | breyta frumkóða]

Að morgni 3. maí fannst lík Justins í yfirgefnum bílskúr sem hann hafði brotist inn í, í Fairchild Place, Shoreditch, London. Hann hafði hengt sig þá aðeins 37 ára gamall. Í bréfi sem Fashanu skildi eftir neitaði hann öllum ásökunum og hélt því fram að atvikið með piltinum í Bandaríkjunum hafi gerst með samþykki beggja aðila en að hann hefði flúið land vegna þess að hann taldi að hann myndi ekki fá sanngjörn réttarhöld vegna kynhneigðar sinnar. Hann bætti við að hann taldi aðra gera ráð fyrir því að hann væri sekur og að hann vildi ekki koma meiri skömm á fjölskyldu sína.

Lík Fashanu var brennt skömmu síðar. Bróðir Justins, John Fashanu sem var líka atvinnumaður í fótbolta sagði íÍ viðtali við talkSPORT árið 2012 að bróðir hans hefði ekki verið samkynhneigður en hefði aðeins verið athyglissjúkur.[1]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Justin Fashanu. Transfermarkt.com. e.d. Justin Fashanu - Career stats | Transfermarkt

Premier League 1980/1981 e.d. » Top Scorer. Worldfootball.net. Premier League 1980/1981 » Top Scorer (worldfootball.net)

https://www.britannica.com/biography/Justin-Fashanu

https://www.bbc.com/news/uk-england-norfolk-54617759

  1. „John Fashanu: my brother Justin wasn't gay“. The Telegraph (enska). 16. mars 2012. Sótt 5. desember 2023.