Juan Perón
Juan Perón | |
---|---|
Forseti Argentínu | |
Í embætti 4. júní 1946 – 21. september 1955 | |
Varaforseti | Hortensio Quijano Alberto Teisaire |
Forveri | Edelmiro Farrell |
Eftirmaður | Eduardo Lonardi |
Í embætti 12. október 1973 – 1. júlí 1974 | |
Varaforseti | Isabel Perón |
Forveri | Raúl Lastiri |
Eftirmaður | Isabel Perón |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 8. október 1895 Lobos, Buenos Aires, Argentínu |
Látinn | 1. júlí 1974 (78 ára) Olivos, Buenos Aires, Argentínu |
Þjóðerni | Argentínskur |
Stjórnmálaflokkur | Réttlætisflokkurinn |
Maki | Aurelia Tizón (g. 1929; d. 1938) Eva Duarte (g. 1945; d. 1952) Isabel Martínez Cartas (g. 1961) |
Undirskrift |
Juan Domingo Perón (8. október 1895 – 1. júlí 1974) var argentínskur herforingi og stjórnmálamaður sem var kosinn forseti Argentínu þrisvar sinnum. Hann var forseti frá 1946 til 1955 þegar honum var steypt af stóli í herforingjabyltingu, og síðan aftur frá 1973 til dauðadags 1974. Önnur eiginkona hans, Eva Perón („Evita“) var meðstjórnandi hans fyrsta kjörtímabilið, frá 1946 þar til hún lést úr krabbameini 1952. Þriðja eiginkona hans, Isabel Martínez de Perón, var kosin varaforseti 1973 og tók við forsetaembættinu við lát eiginmanns síns.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Juan Domingo Perón fæddist árið 1895 í Búenos Aíres-héraði í Argentínu og var sonur efnalítilla bænda.[1] Hann gekk í þjóðlega herskólann árið 1910 og útskrifaðist þaðan fjórum árum síðar án þess að vekja á sér sérstaka athygli. Eftir skólagöngu varð hann liðsforingi í argentínska hernum og varð þar þekktur sem besti skylmingamaður hersins.[2]
Árið 1938 var Perón sendur til Þýskalands og Ítalíu til þess að kynna sér aðferðir í fjallahernaði. Dvölin á Ítalíu hafði mikil áhrif á Perón og vakti hjá honum hugmyndir um „krossferð andlegrar endurvakningar“ í Argentínu. Sér í lagi hreifst hann að stjórn Benito Mussolini og varð þess fullviss að einræðisríki Öxulveldanna ættu sigur vísan í seinni heimsstyrjöldinni, sem þá geisaði.[3] Eftir heimkomuna til Argentínu gekk Perón í leynifélagið Grupo Officiales Unidos (GOU) innan hersins. Leynifélag þetta gerði stjórnarbyltingu gegn ríkisstjórn Argentínu árið 1943 og Perón var útnefndur atvinnu- og félagsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn herforingjanna. Í því embætti lét hann handtaka marga helstu verkalýðsleiðtoga Argentínu og kom mönnum sem hann valdi sjálfur í stöður þeirra.[2] Perón beitti einnig ríkisfjármunum til að múta verkalýðshreyfingunni[2] og heimilaði stofnun verkalýðsfélaga í starfsgreinum sem áttu erfitt uppdráttar með bandamenn sína sem yfirmenn.[1] Perón setti jafnframt reglugerðir til að bæta laun, eftirlaun, sjúkrahjálp og vinnutíma argentínskra verkamanna. Perón gat sér þannig orðstír sem vinur hinna fátæku en bakaði sér jafnframt óvild efnaðari landbúnaðarstéttarinnar í Argentínu, sem vændi hann um að ala á stéttahatri.[4]
Árið 1944 var gerð önnur stjórnarbylting í Argentínu og hershöfðinginn Edelmiro Farrell varð forseti Argentínu. Perón varð varaforseti og hermálaráðherra í stjórn hans. Hann hafði áður skipað 30 prósenta launahækkun og eins mánaðar laun í jólabónus fyrir verkamenn landsins til að tryggja sér áframhaldandi stuðning.[2] Árið 1945 reyndi Perón að hrinda af stað eigin valdaráni gegn Farrell og fyrirskipaði handtöku fjölda andstæðinga sinna í landinu. Stjórnarbylting Peróns fór út um þúfur og þann 9. október var Perón handtekinn og settur í varðhald á eyjunni Martin García.[5] Hjákona Peróns, leikkonan Eva Duarte, hafði hins vegar samband við leiðtoga verkalýðshreyfinganna og kom því til leiðar að þeir leystu hann úr haldi.[1] Perón sagði af sér embættum sínum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, verkamannaflokkinn Partido Laborista. Perón gaf síðan kost á sér í forsetakosningum sem haldnar voru í febrúar næsta ár og vann sigur. Allment er fallist á að Perón hafi náð lýðræðislegu kjöri á forsetastól en fáum duldist þó að hann ætti frama sinn hernum að þakka.[6]
Fyrri forsetatíð (1946–1955)
[breyta | breyta frumkóða]Í aðdraganda kosninganna kvæntist Perón Evu Duarte í borgaralegri athöfn og síðan í vel auglýstri kirkjulegri athöfn. Perón og Eva höfðu lengi búið saman í óvígðri sambúð og samstarfsmenn Peróns höfðu ávítað hann fyrir það, en fyrir kosningarnar ákváðu þau að ganga í hjónaband til þess að vinna sér stuðning kaþólsku kirkjunnar í Argentínu.[1] Eva Perón naut verulegra áhrifa í ríkisstjórn eiginmanns síns og átti mikinn þátt í því að Perón tókst að viðhalda hylli verkalýðsins í landinu. Árið 1951 kom til tals að hún gæfi kost á sér sem varaforseti eiginmannsins en andstaða hersins, sem tryggði völd Peróns, olli því að ekkert varð úr þeim fyrirætlunum.[6]
Efnahagsfarsæld hafði ríkt í Argentínu á stríðsárunum og því tók Perón við góðu þjóðarbúi þegar hann varð forseti árið 1946. Perón rak efnahagsstefnu í þjóðlegum anda og einbeitti sér meðal annars að því að kaupa út erlenda fjárfesta í samgöngum og iðnaði og þjóðnýta fyrirtækin. Stjórn hans setti jafnframt á fót velferðarstofnun sem byggði nýja skóla, sjúkrahús, barnaheimili og rak ýmis önnur velferðarverkefni í nafni Evu Perón.[1] Perón tvöfaldaði jafnframt rúmlega útgjöld til hernaðarmála og varði um 25-40 prósentum ríkistekna í þau. Til þess að standa straum af þessum miklu útgjöldum stofnaði Perón ríkisverslunina IAPI til þess að annast verslun með matvæli við Evrópu. Evrópsk matvælaframleiðsla hafði enn ekki náð sér eftir styrjöldina og því gat Argentína grætt verulega á útflutningi matvæla þangað.[3]
Upp úr árinu 1948 hafði matvælaframleiðsla í Evrópu náð sér á strik og eftirspurn eftir matvælum frá Argentínu skrapp saman. Fyrir vikið fór verðbólga að gera vart við sig í Argentínu vegna óhóflegra ríkisútgjalda, hækkandi kaupgjalds og minnkandi framleiðslu. Vegna einokunarverslunarinnar sem ríkið rak gat Perón hins vegar stýrt upplýsingagjöf til landsmanna með því að neita fjölmiðum sem fjölluðu neikvætt um hann um pappír. Með stjórn sinni á stéttarfélögum landsins gat Perón einnig stýrt verkföllum hjá þeim blaðafyrirtækjum sem honum þóknaðist ekki eða einfaldlega látið banna þau. Perón lét einnig hreinsa til í mennta- og dómskerfi landsins til að skipa þessar stofnanir eingöngu stuðningsmönnum sínum.[3]
Á stjórnartíð Peróns á sjötta áratugnum var hvatt til slíkrar persónudýrkunar á honum að honum var spyrt saman við Guð, Jesús, Múhameð og Búdda. Evu Perón var hins vegar jafnað við dýrling og sérstakur helgidagur valinn sem dýrlingadagur hennar. Dýrkunin á Evitu varð enn yfirgengilegri eftir að hún lést fyrir aldur fram úr krabbameini árið 1952. Henni var byggt risavaxið grafhýsi í elsta verkamannahverfi Búenos Aíres og þeir sem ekki klæddust sorgarklæðum við ríkisútför hennar misstu vinnuna. Þar sem sumar yfirlýsingar hans þóttu jafngilda guðlasti varð kaþólska kirkjan brátt mjög andsnúin Perón[3] og snerist enn fremur gegn honum eftir að hann lögleiddi hjónaskilnaði og rekstur vændishúsa árið 1954.[1]
Efnahagslægðin kostaði Perón verulegar vinsældir á næstu árum og staða hans veiktist mjög. Í nóvember árið 1954 sakaði Perón hóp argentínskra biskupa um að reka áróður gegn ríkisstjórninni og lét handtaka um 80 presta. Þetta reitti þjóðina mjög til reiði og olli verulegri ólgu.[7] Í september árið 1955 leiddi herforinginn Eduardo Lonardi byltingu íhaldssamra kaþólikka gegn Perón í borginni Córdoba og mannfjöldi þyrptist út á götur til þess að ganga til liðs við hann. Perón neyddist til þess að flýja á skipi til Paragvæ.[1]
Útlegð og endurkoma á forsetastól
[breyta | breyta frumkóða]Þrátt fyrir að hafa hrökklast frá völdum við litlar vinsældir var Perón áfram einn mikilvægasti stjórnmálamaður Argentínu næsta áratuginn. Á tíma herforingjastjórnanna sem tóku við af honum fór minningin um stjórn þeirra Evítu að taka á sig rómantískan blæ og margir landsmenn litu aftur til hennar með söknuði.[1][8] Perón dvaldist í átján ár í útlegð, lengst af á Spáni, en fylgismenn hans, kallaðir perónistar, voru áfram mikilvægt afl í argentínskum stjórnmálum. Árið 1973 lýsti Alejandro Agustín Lanusse forseti Argentínu því yfir að lýðræði yrði endurreist í landinu og leyfði Réttlætisflokknum, flokki perónista, með semingi að gefa kost á sér í kosningum. Perón sjálfum var hins vegar ekki leyft að bjóða sig fram til forseta. Því valdi flokkurinn annan mann, tannlækni að nafni Héctor José Cámpora, sem forsetaframbjóðanda sinn, en þó með það í huga að Cámpora væri í reynd staðgengill Peróns. Cámpora vann sigur í forsetakosningum með um helmingi atkvæða og tók við forsetaembætti þann 25. maí 1973.[9] Cámpora sagði hins vegar af sér eftir aðeins um tvo mánuði á forsetastól og veik til hliðar til þess að Perón sjálfur gæti orðið forseti á ný. Eftir að nýjar kosningar voru haldnar var Perón kjörinn forseti og sór embættiseið þann 12. október 1973. Í þetta sinn lét hann verða af því að gera eiginkonu sína að varaforseta – Isabel Martínez de Perón, sem hann hafði kvænst í útlegðinni, sór embættiseið við hlið eiginmanns síns sem varaforseti Argentínu.[10]
Perón þótti ekki standa undir væntingum stuðningsmanna sinna eftir endurkomu sína á forsetastól. Þann 1. maí árið 1974 sökuðu mótmælendur úr vinstriarmi ungliðahreyfingar perónista forsetann um að fara fyrir ríkisstjórn afturhaldsseggja. Perón brást hinn versti við og kallaði mótmælendurna „hálfvita, leiguþý og skeggjúða“. Perón lést aðeins tveimur mánuðum síðar, þá 78 ára.[1] Isabel de Perón tók við forsetaembætti eftir eiginmann sinn en var sjálfri steypt af stóli eftir aðeins um ár við völd.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Tómas R. Einarsson (19. mars 1997). „Perón - maðurinn hennar Evitu“. Alþýðublaðið. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 Stephan Naft (22. október 1947). „Perón, nýjasti fasistaleiðtoginn – Fyrri grein“. Morgunblaðið. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 „Peron varð Argentínu dýr forseti“. Sunnudagsblaðið. 4. mars 1956. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ „Peron, einræðisherra Argentínu“. Morgunblaðið. 16. mars 1946. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ Stephan Naft (23. október 1947). „Perón, nýjasti fasistaleiðtoginn – Síðari grein“. Morgunblaðið. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ 6,0 6,1 „Herforinginn og leikkonan, sem stjórna Argentínu“. Samvinnan. 1951. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ „Byltingin í Argentínu“. Tíminn. 25. september 1955. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ „Önnur valdataka Perons“. Morgunblaðið. 21. júlí 1973. Sótt 22. nóvember 2019. „Því er gleymt að Peron fór á sínum tíma til Berlínar og Rómar og lauk lofsorði á þróttmikla stefnu, sem hann kvað fylgt í þessum höfuðborgum fyrir stríð. Nú er sagt, að saga Perons og valdatíma hans hafi verið rangtúlkuð og hann hafi aldrei verið eins slæmur og sagt hafi verið.“
- ↑ Halldór Sigurðsson (5. júní 1973). „Valdataka Perónista í Argentínu“. Þjóðviljinn. Sótt 22. nóvember 2019.
- ↑ „Peron og Isabellita sverja embættiseið“. Morgunblaðið. 13. október 1973. Sótt 22. nóvember 2019.
Fyrirrennari: Edelmiro Farrell |
|
Eftirmaður: Eduardo Lonardi | |||
Fyrirrennari: Raúl Alberto Lastiri |
|
Eftirmaður: Isabel Martínez de Perón |