Fara í innihald

Juan Hohberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Juan Hohberg (1965).

Juan Eduardo Hohberg (f. 8. október 1926 - d. 30. apríl 1996) var argentínsk/úrúgvæskur knattspyrnumaður og þjálfari. Hann vann meistaratitla með Peñarol og keppti með landsliðinu á HM 1954 þar sem hann var nærri búinn að láta lífið á vellinum.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Hohberg fæddist í Córdoba í Argentínu og hóf meistaraflokkferil sinn með liðunum Central Córdoba og Rosario Central. Árið 1948 fluttist hann búferlum til Úrúgvæ, gekk til liðs við Peñarol og öðlaðist úrúgvæskt ríkisfang. Hann varð sjö sinnum úrúgvæskur meistari með Peñarol á árunum 1949-60 og varð einnig Copa Libertadores-meistari með liðinu árið 1960. Hann lauk leikferlinum í Kólumbíu árið 1961.

Hann lék nokkra landsleiki með Úrúgvæ frá 1954-59, þar á meðal á HM í Sviss. Hann var í stóru hlutverki í undanúrslitaleik Úrúgvæ og Ungverjalands sem talinn er einn æsilegasti leikur HM-sögunnar. Ungverjar náðu tveggja marka forystu en Hohberg jafnaði metin með tveimur mörkum, því seinna rétt fyrir lok venjulegs leiktíma. Í fagnaðarlátunum eftir markið hneig hann niður í hjartastoppi. Sjúkraliðar Úrúgvæ náðu að endurlífga hann í skyndingu. Þar sem varamenn voru ekki heimilaðir á þessum árum stefndi í að Úrúgvæ yrði að leika manni færri í framlengingunni. Hohberg ákvað þá að halda áfram leik, sem verður að teljast glannaleg ákvörðun.[1] Ungverjar fóru að lokum með sigur af hólmi, 4:2. Í bronsleiknum skoraði Hohberg eina mark sinna manna í 3:1 tapi gegn Austurríki.

Að keppnisferli loknum sneri Hohberg sér að þjálfun. Frá 1962-92 stýrði hann fjölda félagsliða og var t.a.m. þrívegis meistari í Perú. Hann var um skeið landsliðsþjálfari Ekvador og var í tvígang við stjórnvölinn hjá úrúgvæska landsliðinu, þar á meðal á HM í Mexíkó 1970 þar sem liðið hafnaði í fjórða sæti.

Hann lést í Perú árið 1996.

  1. „Futbolretro.es, Juan Hohberg, the player who died, He was revived and continued playing“.