Jakob Jakobsen
Jakob Jakobsen (á færeysku stundum Jákup Jakobsen) (22. febrúar 1864 – 15. ágúst 1918) var færeyskur málfræðingur, þjóðfræðingur og rithöfundur. Hann var fyrsti Færeyingurinn sem tók doktorspróf og fjallaði ritgerðin um norræna málið á Hjaltlandi (norn). Tungumál og bókmenntir Færeyja og Hjaltlands voru höfuðviðfangsefni hans.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Foreldrar hans voru: Hans Nicolai Jacobsen (1832–1919) frá Þórshöfn, og Johanne Marie Hansdatter (1816–1899) frá Sandey (Sandoy). Jakob var yngstur þriggja barna, hann átti tvær eldri systur, Sigrid Niclasen (1854–1927) og Önnu Horsbøl (1856–1940). Faðir hans var bókbindari og rak bókaverslun í Þórshöfn. Verslunin, H. N. Jacobsens Bókahandil, var stofnuð 1865 og er enn starfrækt; hún er elsta bókaverslun í Færeyjum og setur skemmtilegan svip á miðbæinn, timburhús með torfþaki.
Jakob Jakobsen fór í gagnfræðaskólann í Þórshöfn, þar sem í ljós komu góðar námsgáfur á sviði tungumála. Þegar hann var 13 ára fór hann til Kaupmannahafnar og varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum vorið 1883. Hann fór svo í Háskólann og brautskráðist vorið 1891 með dönsku sem aðalgrein og frönsku og latínu sem aukagreinar. Árið 1897 hlaut hann doktorsnafnbót fyrir verk sitt Det norrøne sprog på Shetland (Norræna málið á Hjaltlandi). Eftir það starfaði hann eingöngu sem fræðimaður, þó að hann frá 1914 væri að nafninu til dósent við Háskólann í Aberdeen. Hann fór í margar rannsóknarferðir, til Færeyja, Hjaltlands, Orkneyja og Skotlands, en komst ekki til Suðureyja og Manar eins og hann hafði hugsað sér. Hann bjó lengst af í Kaupmannahöfn.
Í háskólanum kynntist Jakob Jakobsen Íslendingnum Boga Th. Melsteð og höfðu þau kynni talsverð áhrif á hvert áhugamál hans beindust. Reyndar sinnti Jakobsen nokkuð íslenskum fræðum síðar á ævinni, þýddi Gunnlaugs sögu ormstungu yfir á færeysku (1900) og gaf út Austfirðinga sögur í fræðilegri útgáfu.
Jakobsen og færeyska
[breyta | breyta frumkóða]Jakob Jakobsen vann mikið í þágu færeyskra bókmennta. Á árunum 1886–1891 vann hann með V. U. Hammershaimb að sýnisbók færeyskra bókmennta (Færøsk Antologi), sem var tímamótaverk. Mikilvægasta framlag hans til færeyskra bókmennta var þó Færøske folkesagn og æventyr (Færeyskar þjóðsögur og ævintýri) sem kom út 1898–1901. Þjóðsögunum hafði hann safnað á ferðum sínum um eyjarnar. Þetta þjóðsagnasafn hefur svipaðan sess í Færeyjum og Þjóðsögur Jóns Árnasonar hér á landi, og átti mikinn þátt í að festa nútíma færeysku í sessi sem ritmál. Hann safnaði einnig þjóðkvæðum úr munnlegri geymd, rannsakaði færeysk örnefni og bjó til mörg nýyrði. Hann var fyrstur til að benda á keltnesk örnefni í Færeyjum.
Árið 1889 kynnti Jakob Jakobsen færeyska stafsetningu byggða á nýrri fræðigrein, hljóðfræði. Náin samsvörun átti að vera milli framburðar og ritháttar til þess að börn ættu auðvelt með að læra réttritun. Miklar deilur urðu í Færeyjum um stafsetningarmálin, og var stafsetningu Jakobsens hafnað.
Jakobsen og Hjaltlandseyjar
[breyta | breyta frumkóða]Dr. Jakob Jakobsen er lykilmaður í menningarsögu Hjaltlandseyja. Á eyjunum var talað norrænt mál (kallað „norn“) fram á 16. öld, en eftir það fór það að láta undan síga fyrir skosku. Jakobsen dvaldist þar á árunum 1893–1895 og safnaði síðustu leifunum af norræna málinu. Með því nam hann nýtt land fyrir norræn fræði. Auk doktorsritgerðarinnar (1897) gaf hann út undirstöðurit um mállýskur og örnefni á Hjaltlandi. Höfuðverk hans kom út í fjórum heftum á árunum 1908–1921: Etymologisk ordbog over det norrøne sprog paa Shetland. Verkinu var ekki lokið þegar Jakobsen féll frá, 1918, og tók Finnur Jónsson að sér að ljúka fjórða heftinu, sem var ekki fullgert frá hendi Jakobsens. Orðabókin kom út í enskri þýðingu 1928–1932.
Jakobsen sinnti einnig fleiri þáttum í menningu Hjaltlandseyja, t.d. fjallaði hann um örnefni og þjóðhætti á eyjunum. Honum entist ekki aldur til að vinna úr gögnum sínum frá Orkneyjum, en birti grein um það efni 1911.
Systir Jakobs Jakobsens, Anna Horsbøl, veitti honum mikinn fjárhagslegan stuðning við rannsóknir sínar. Eftir að hann dó þýddi hún höfuðverk hans yfir á ensku, eins og hann hafði hugsað sér að gert yrði.
Sumarið 1918 gekkst Jakob Jakobsen undir uppskurð í Kaupmannahöfn, sem leiddi hann til dauða 15. ágúst 1918. Hann var þá aðeins 52 ára.
Á 100 ára afmæli Jakobs Jakobsens, árið 1964, var Fróðskaparrit, 13. bindi, helgað minningunni um hann. Þar eru ritgerðir 24 fræðimanna og ritaskrá hans.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]Bækur
[breyta | breyta frumkóða]- The Dialect and Place Names of Shetland. Two Popular Lectures, Lerwick 1897.
- Det norrøne sprog på Shetland, Kbh. 1897, 193 s. — Doktorsrit.
- Shetlandsøernes stednavne, Kbh. 1901, 205 s. — Ensk þýðing Önnu Horsbøl: The place-names of Shetland, London 1936, endurprentuð: Kirkwall 1993, xxviii, 273 s.
- Færøsk sagnhistorie : med en indledende oversigt over øernes almindelige historie og literatur, Kbh. 1904, 81 s.
- Etymologisk ordbog over det norrøne sprog paa Shetland, Kbh. 1908–1921. — Finnur Jónsson lauk útgáfunni.
- An etymological dictionary of the Norn language in Shetland 1–2, London 1928-1932. — Ensk þýðing eftir Önnu Horsbøl og Sir William A. Craigie. Endurprentað í Leirvík: The Shetland Folk Society, 1985
- Poul Nolsøe : Livssøga og irkingar, Tórshavn 1912, 340 s. — Um þjóðhetjuna Nólseyjar-Pál.
- Greinir og ritgerðir, Tórshavn 1957. — Úrval af greinum hans og ritgerðum, ásamt ritaskrá og æviágripi eftir Christian Matras.
Nokkrar greinar
[breyta | breyta frumkóða]- Nogle ord om færøsk, samt et forslag til en ny færøsk retskrivning. Í: Dimmalætting, Tórshavn 1889, Nr. 20-25.
- Det færøske Retskrivningsspørgsmål. Í: Dimmalætting, Tórshavn 1890, Nr. 12-14.
- Poul Nolsøe. Et Livs- og tidsbillede fra Færøerne ved slutningen af det 18. og begyndelsen af det 19. aarhundrede. Historisk Tidsskrift, Kbh. 1892, 87 s.
- Shetland og Shetlænderne. Tilskueren 1896. — Sjá einnig Greinir og ritgerðir.
- Biskop Erlend af Kirkebø, Tingakrossur 27–28 og 50, Tórshavn 1901. — Sjá einnig Greinir og ritgerðir.
- Nordiske minder, især sproglige, paa Orknøerne. Festskrift til H.F. Feilberg, Stockholm 1911. — Sjá einnig Greinir og ritgerðir.
- Stednavne og personnavne i Normandiet med særligt hensyn til den nordiske besættelse. Danske studier, 1911:59–84. — Sjá einnig Greinir og ritgerðir.
Útgáfur
[breyta | breyta frumkóða]- Færøsk anthologi 1–2, Kbh. 1891. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 15. — Með V. U. Hammershaimb. Síðast gefið út í Þórshöfn 1991.
- Poul Nolsøs Fuglekvad, Kbh. 1892, 26 s.
- Færøske folkesagn og æventyr, Kbh. 1898–1901, 648 s. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 27. — 4. útgáfa 1975.
- Austfirðinga sögur, Kbh. 1902–1903, 264 s. Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur, rit 29. — Texafræðileg útgáfa.
- Diplomatarium Færoense. Føroyskt Fornbrævasavn, við søguligum rannsóknum I, Kbh. 1907. — Færeyskt fornbréfasafn, ljósprentað 1985.
- Færeyskar sagnir og æfintýri, Akureyri 1951. — Pálmi Hannesson og Theodóra Thoroddsen sneru á íslensku. Úrval úr ofangreindu safni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Bogi Th. Melsteð: Dr. Phil. Jakob Jakobsen. Ársrit hins íslenska fræðafélags í Kaupmannahöfn, 4. ár, Kmh. 1919:165–170.
- Finnur Jónsson: Dr. phil. Jakob Jakobsen. Arkiv för nordisk filologi, 35. ár, Lund 1919:340–342.
- Christian Matras: Dr. Jakob Jakobsen, Føroyingurin, granskarin. Greinir og ritgerðir, Tórshavn 1957:7–21.
- Roy Grønneberg: Jakobsen and Shetland. Lerwick 1981:96 s.
- Kaj Larsen: Hin fyrsti málreinsarin. Málting 9:12-19.
- John Davidsen: Jakob Jakobsen. Dansk biografisk leksikon 7, Kbh. 1981.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Jakob Jakobsen“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 1. júní 2009.