Fara í innihald

Bogi Th. Melsteð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bogi Thorarensen Melsteð (f. í Klausturhólum 4. maí 1860, d. 12. nóvember 1929) var íslenskur sagnfræðingur sem samdi greinar og bækur um sögu Íslendinga. Hann var einnig alþingismaður í eitt ár.

Bogi var sonur Jóns Melsteð (f. 28. maí 1829, d. 13. febr. 1872) prests í Klausturhólum, sonar Páls Melsteð amtmanns, og konu Jóns, Steinunnar dóttur Bjarna Thorarensen. Bogi lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1882 og magistersprófi í sagnfræði frá Hafnarháskóla 1890.

Hann dvaldist í Kaupmannahöfn frá því að hann lauk námi og til æviloka. Hann var aðstoðarmaður í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn 1893—1903 og styrkþegi Árnasafns í yfir 20 ár samtals. Frá árinu 1904 hafði hann styrk í fjárlögum til þess að semja sögu Íslands. Hann var forgöngumaður um stofnun Hins íslenska fræðafélags 1912, formaður þess frá stofnun til æviloka og jafnframt ritstjóri Ársrits fræðafélagsins frá 1916. Á meðal þeirra bóka sem hann sendi frá sér voru Saga Íslendinga (1903), Stutt kennslubók í Íslendinga sögu handa byrjendum (1904) og Sögukver handa börnum ásamt nokkrum ættjarðarljóðum og kvæðum (1910). Hann skrifaði einnig fjölda blaða- og tímaritagreina um íslensk málefni, sagnfræði, stjórnmál og fleira.

Bogi var alþingismaður Árnesinga 1892 – 1893.

  • „Æviágrip á vef Alþingis“. Sótt 19. apríl 2011.
  • Jón Þ. Þór: Bogi Th. Melsteð, ævisaga hugsjónamanns, Hafnarfirði 2015, 333 s. – Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn styrkti útgáfuna.