Fara í innihald

Stafsetning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kennsla í stafsetningu á Englandi á fyrri hluta 20. aldar

Stafsetning á oftast við það að skrifa orð hins talaða máls með bókstöfum og stafmerkjum samkvæmt ákveðnum reglum, sem kallaðar eru stafsetningarreglur eða ritreglur, og finna má í kennslubókum og handbókum[1] . Í þeim skilningi er unnt að meta stafsetningu ýmist rétta eða ranga eftir því hvort orðin eru skrifuð samkvæmt þessum reglum eða ekki. Annað orð fyrir stafsetningu í þessari merkingu er réttritun.

Stafsetning getur einnig merkt rithátt tungumáls eða ritvenjur, óháð reglum (e. orthography). Í þeim skilningi merkir 'stafsetning' þann hátt, hefð eða venju, sem skapast hefur í tilteknu málsamfélagi um að stafsetja eða skrifa orð hins talaða máls með ákveðnu kerfi bókstafa, sem kallað er stafróf, og stafmerkjum. Þessar hefðir geta verið breytilegar eftir tímabilum, mállýskusvæðum, einstaklingum eða lærdómi skrifara. Hin skráða gerð tungumáls er líka kölluð ritmál en það hugtak felur einnig í sér ýmis önnur einkenni hins ritaða máls, orðaval og setningaskipan, sem eru frábrugðin hinu talaða máli.

Þróun stafsetningar í íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Stafsetning tungumála heimsins hefur þróast frá því byrjað var að skrá hið talaða mál[2] . Fyrstu varðveittu ritheimildir um íslensku eru frá tólftu öld en talið er að ritun á íslensku með latínustafrófi hafi byrjað á elleftu öld[3] . Þrettánda öldin er blómaskeið í íslenskum bókmenntum, bæði í fagurbókmenntum og fræðilegum skrifum, og því verður snemma til ákveðin rithefð sem liggur til grundvallar stafsetningu nútímamáls. Frá fyrri hluta tólftu aldar er Fyrsta málfræðiritgerðin, einstæð lýsing á því hvernig unnt er að nota stafróf erlends máls (latínu) til að skrifa móðurmál sem ekki á sér rithefð (íslensku), og þar með ekki neina hefðbundna notkun bókstafanna.

Íslensk stafsetning mótaðist á fyrstu öldum ritunar í landinu án þess að til væru sérstakar reglur ef frá eru taldar leiðbeiningar Fyrsta málfræðingsins. Það er ekki fyrr en prentöld hefst á sextándu öld og bókaútgáfa fer vaxandi að upp kemur þörf fyrir ákveðnar reglur eða leiðbeiningar um stafsetningu[4] . Fyrstu eiginlegu leiðbeiningar eða reglur um íslenska stafsetningu eru frá átjándu öld, eftir Eggert Ólafsson, en á nítjándu öld eru stafsetningarreglur fyrir íslensku enn svo ómótaðar að um þær er kröftuglega deilt fram á fyrri hluta 20. aldar. Núgildandi reglur um opinbera stafsetningu voru gefnar út af menntamálaráðuneytinu með auglýsingu nr. 132/1974. Þessum reglum er fylgt opinberlega og í skólum en auglýsingin hefur hvorki gildi laga né reglugerðar og því er hverjum og einum frjálst að hafa þann rithátt sem hann kýs.

Almenn skoðun er að stafsetning sé skráning talmálsins og reglulega spretta upp umræður um hvers vegna stafsetning sé ekki í meira samræmi við framburð. Þetta er framburðarsjónarmiðið, að stafsetning eigi að vera sem nákvæmust skráning talmálsins, en á stafsetningu eru fleiri hliðar. Fá ritmál -- ef nokkur -- eru fullkomin skráning talmálsins. Einna næst því kemst finnska, þar sem samsvörun hljóðs og stafs er nálægt því að vera 1:1. Einna fjærst því er enska þar sem samsvörun hljóðs og stafs er mjög óregluleg[5] .

Þróun stafsetningar hjá börnum

[breyta | breyta frumkóða]

Með því að fylgjast með hvernig börn ná tökum á stafsetningu móðurmáls síns er unnt að greina ákveðin skref á þeirri braut sem líka má orða sem svo að þau nái tökum á ákveðnum reglum eða þáttum í stafsetningu[6] . Fyrir íslensku væri eðlilegt að gera ráð fyrir eftirfarndi stigum[7] .

0. Forstig stafsetningar. Barn krotar eða rissar tákn sem líkjast að einhverju leyti stöfum eða ritmáli tilsýndar. Oft er ekki ljóst hvort barnið er að skrifa eða teikna. Allt frá upphafi ritunar virðist krot barna draga dám af því ritmáli sem þau hafa fyrir augum. Fyrsta stafakrot íslenskra barna er því frábrugðið kroti barna sem alast upp við önnur tungumál.

1. Framburðarstig (e. phonetic stage). Barn uppgötvar að bókstafir eru einhvers konar skráning málhljóða eða orða. Í upphafi þessa stigs áttar barn sig á að það sjálft á sérstakan staf. Það lærir að aðrir eiga líka staf og að stafur hvers og eins stendur í einhverju samhengi við framburð eða heiti stafsins og framburð nafnsins. Smám saman lærist framburður fleiri stafa og barnið fer að geta skrifað orð þannig að ritháttur minnir á framburð þess og verður loks í samræmi við framburð. Á þessu stigi má búast við dæmum á borð við ni (enni), hdeji (hádegi) og leind (lengd).

2. Almennt hefðarstig (e. alphabetic stage eða orthographic stage). Barn uppgötvar að orðin eru ekki alltaf skrifuð eins og þau eru borin fram, heldur virðast einhverjar venjur eða hefðir búa að baki. Á þessu stigi lærir það almennar rithefðir málsins. Það lærir að skipta tali í orð eftir áherslu og að skrifa stóran staf í sérnöfnum, það áttar sig á hvaða stafir og stafasambönd koma fyrir í ritmálinu og smám saman líta orðin út eins og íslenska, jafnvel þótt þau séu ekki rétt skrifuð samkvæmt reglum sem lærast á síðari stigum. Þær hefðir sem barnið lærir á almennu hefðarstigi eru almenns eðlis, til dæmis 'é' fyrir 'je', grannan sérhljóða fyrir breiðan á undan 'ng' og 'nk' og 'hv-' í spurnarorðum þótt sagt sé 'kv-'. Ritun 'hv-' í spurnarorðum er almenn regla en ritun 'hví öðrum orðum tilheyrir sértæk regla (hvalir/kvalir, hvísl/kvísl).

3. Orðhlutastig (e. morphologic stage). Barn uppgötvar að merking orðs hefur áhrif á stafsetningu þess. Það kemur auga á að stafseting orða líkist ef þau merkja hið sama, eða svipað, jafnvel þótt framburður sé ólíkur (dæmi: vatn-vatns, rigna-rigndi, dagur-degi). Á þessu stigi fer orðaforði barnsins og málskilningur að skipta meginmáli fyrir farsæla þróun stafsetningar. Sá eiginleiki stafsetningar að varðveita merkingartengsl orða, þrátt fyrir breytilegan framburð, er talinn stuðla að því að auðvelda lesskilning og auka leshraða. Þessi eiginleiki er stundum kenndur við "uppruna", en sú nafngift er villandi. Hér er fyrst og fremst um að ræða að stafsetning varðveitir innri merkingartengsl orða og orðhluta. Á þessu stigi áttar barnið sig á ritun einfaldra og tvöfalldra samhljóða (holur-holt, hollur-hollt) og að ritun 'y/ý/ey' tengist orðum með krigdu sérhljóði (u/ú/au/jú/jó). Af þeim sökum skrifa börn gjarnan 'y' í orðum sem hafa 'ö/jö' í stofni, t.d. '?kylir' af 'kjölur'. Á þessu stigi verður ritun barna "í stórum dráttum" rétt.

4. Setningarstig (e. syntactic stage). Barn uppgötvar að setningarlegt samhengi getur haft áhrif á stafsetningu orðs og merkingu. Þetta á einkum við um ritun á einu eða tveimur ennum í lýsingarorðum og lýsingarháttum sem taka kyn sitt frá nafnorði. Dæmi: Maturinn er borinn fram. Súpan er borin fram.

5. Sértækt hefðarstig (e. orthograpic stage eða lexical stage). Barn uppgötvar að í ritmálinu gilda ýmsar sérstækar reglur um ákveðin orð sem ekki er unnt að ráða af neinum reglulegum tengslum framburðar og stafsetningar eða samhengi í setningu. Þessi óregla á við nokkur atriði: ritun í einu orði eða tveimur, ritun hástafa og lágstafa, orð af erlendum uppruna sem ekki fylgja íslenskum framburði (bridge/brids/bridds), nokkur orð þar sem erfitt er að finna reglu tvö eða fleiri orð ruglast saman (peysa, skrítinn, leiti/leyti, birgðir/byrgi) og þar sem vafi er á samsetningu orða (íbúða(r)hús, nám(s)skrá). Yfirleitt er áhersla í framburði til marks um hvort rita skal eitt orð eða tvö, en frá því eru allmargar undantekningar (út af, fram hjá, eins og) þar sem "reglan" byggist á orðflokki frekar en áherslu í framburði. Samsett orð eru gjarnan skrifuð í tveimur orðum eftir áherslu (hvíta sunna, páska dagur). Vandi við ritun hástafa og lágstafa er aðallega bundinn við ritun orða sem leidd eru af sérnöfnum og eru ýmist með hástaf eða lágstaf (Þorláksmessa, maríustakkur, Þjóðverjar, marxistar). Hina eiginlegu "óreglu" í íslenskri stafsetningu má tengja við sértæka hefðarstigið.

Þótt þróun í töku ritmáls (stafsetningar) sé hér lýst í stigum er ekki svo að börn þroskist af einu stigi á annað, heldur eru þau á hverjum tíma á fleiri en einu stigi. Stigin eru hins vegar nokkurn veginn í þeirri röð sem hér er lýst.

Eftir því sem barn hefur meiri reynslu af ritmáli, betri orðaforða og málskilning gengur þróun stafsetningarkunnáttu hraðar, barnið á auðveldara með að tengja orðaforðann innbyrðis og koma auga á þá reglu sem gildir hverju sinni. Fyrir því barni sem hefur litla reynslu af ritmáli, fátæklegan orðaforða og slakan málskilning verður stafsetning flestra orða framandi og óregluleg.

Stafsetningarvillur

[breyta | breyta frumkóða]

Sumir eiga erfitt með að lesa og stafa orð rétt. Ef þessir erfiðleikar eru alvarlegir og eru viðvarandi fram á unglingsár getur verið um leshömlun (e. dyslexia) eða rithömlun (e. dysgraphia) að ræða. Mikilvægt er að greina erfiðleika í lestri og stafsetningu sem fyrst til að unnt sé að fyrirbyggja eða draga úr að þeir hafi áhrif á þroska barnsins. Íhlutun í málþroska á leikskólaaldri og fyrstu árum grunnskólans getur skipt sköpum fyrir farsæla þróun lestrar og ritunar.

Stafsetningarvillum er skipt í tvo meginflokka, hljóðréttar villur (e. phonetic errors) og hljóðrangar villur (e. nonphonetic errors)[8] . Hljóðrétt villa breytir ekki framburði orðs (t.d. feldi- felldi, leyti-leiti, sigldi-silgdi) en hljóðröng villa gerir það (t.d. fima-fimma, vala-valla). Hljóðrangar villur eiga að vera að baki um níu eða tíu ára aldur. Ef börn gera áberandi margar hljóðrangar villur í ritun sinni er ástæða til að fylgjast með og grípa til úrræða. Börn gera hins vegar hljóðréttar villur langt fram eftir aldri. Hinar svokölluðu "stafsetningarreglur" eru lýsing á því hvernig beri að skrifa þegar framburður segir ekki til um stafsetningu, það er þau atriði stafsetningar sem börn læra á 2. til 5. stigi.

Innan hvors villuflokks um sig má greina þrjár megintegundir villna: Brottfall, víxl og viðbót. Algengast er að stafir falli brott; brottfall telst mjög venjuleg villa sem getur stafað af hugsunarleysi, fljótfærni eða vanþekkingu, og getur verið til marks um að barnið eigi ýmislegt ólært eða þurfi að vanda sig betur. Eftir því sem barnið fellir fleiri stafi úr er vandinn alvarlegri, til dæmis er alvarlegt að fella heil atkvæði (Reykvíkingar>Reykingar). Víxl og viðbætur eru ekki eins alvarleg. Víxl á útlitslíkum eða hljóðlíkum stöfum (m/n, p/b/d) eru ekki alvarlegar villur á ungum aldri og viðbætur, ekki síst ef barnið bætir við stöfum sem bera vott um að það sé að hugsa um merkingu orðs og orðhluta (t.d. handski fyrir hanski), geta verið vísbending um að barnið sé að glíma við ákveðna reglu[9] . Í töku ritmáls, eins og í töku talmáls, er eðlilegt að barn alhæfi reglur þar sem þær eiga ekki við, en slíkar alhæfingar eru til marks um að barnið sé á réttri leið með velta stafsetningu fyrir sér. Barn í þeirri stöðu er yfirleitt móttækilegt fyrir umræðu og leiðbeiningum um stafsetningu en hjá öðrum börnum kann slík umræða að fara fyrir ofan garð og neðan.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dóra Hafsetinsdóttir (ritstj.) (2006). Stafsetningarorðabókin. Íslensk málnefnd og JPV.
  2. David Crystal (1987 eða síðar). The Cambridge encyclopedia of language. Cambridge University Press. bls. 194 o.áfr.
  3. Stefán Karlsson (1989). Tungan - Stafsetning. Þjóðsaga. bls. 33.
  4. Jón Aðalsteinn Jónsson (1959). „Ágrip af sögu íslenzkrar stafsetningar“. Íslensk tunga. 1: 71–119.
  5. P. H. K. Seymour (2003). „Foundation literacy acquisition in European orthographies“. British Journal of Psycology. 94: 143–174.
  6. Terezinha Nunes; Peter Bryant og Miriam Bindman (1997). Spelling and grammar: The necsed move. bls. 151-170.
  7. Baldur Sigurðsson (1987). „Hvernig geta börn lært stafsetningu?“. Íslenskt mál og almenn málfræði. 9: 7–22.
  8. Uta Frith (1980). Unexpected spelling problems. bls. 495-515.
  9. Baldur Sigurðsson (1995). Orðhlutaleið í stafsetningarkennslu. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. bls. 93-120.
  Þessi tungumálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.