Fara í innihald

Innósentíus 3.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Innósentíus III)
Innósentíus 3.

Innósentíus 3. (1160 eða 1161 – 16. júlí 1216) var páfi frá þeim 8. janúar 1198 til dauðadags. Hann fæddist undir nafninu Lotario dei Conti di Segni.

Innósentíus var einn voldugasti og áhrifamesti páfi fyrr og síðar. Hann var mikill áhrifamaður í öllum kristnum ríkjum Evrópu og leit á sig sem yfirboðara evrópskra konunga. Innósentíus studdi miklar umbætur á uppbyggingu kaþólsku kirkjunnar með úrskurðum sínum og með fjórða þinginu í Lateran-höll. Kirkjulög urðu fyrir vikið talsvert straumlínulagaðri. Innósentíus notfærði sér bannfæringar og önnur valdsvið páfans til að neyða fursta og konunga til að hlýða skipunum sínum, en það tókst þó ekki alltaf. Innósentíus kallaði eftir því að kristnir menn færu í krossferðir gegn Márum á Spáni og múslimum í landinu helga. Auk þess gekkst hann fyrir krossferð gegn katörum í Suður-Frakklandi.

Ein örlagaríkasta ákvörðun Innósentíusar var að skipuleggja fjórðu krossferðina. Upphaflega var ætlunin að ráðast á Jerúsalem í gegnum Egyptaland en óvæntar aðstæður leiddu til þess að krossfararnir settust þess í stað um Konstantínópel og hertóku borgina. Árásin gekk þvert gegn fyrirskipunum Innósentíusar og hann bannfærði krossfarana fyrir vikið, en þó sætti hann sig með semingi við útkomuna og leit á hana sem merki um vilja Guðs til að sameina latnesku og austurkirkjuna á ný. Til lengri tíma litið leiddu þessi atvik þó fremur til aukins rígs á milli kirkjudeildanna tveggja.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Moore, John (2003). Pope Innocent III (1160/61-1216): To Root Up and to Plant. Leiden, Boston: Brill. bls. 102–134.


Fyrirrennari:
Selestínus 3.
Páfi
(1198 – 1216)
Eftirmaður:
Honoríus 3.