Hýpatía
Hýpatía (370 – 415) var forngrískur heimspekingur og stærðfræðingur og starfaði við háskólann í Alexandríu. Hún er fyrsta konan, sem nafngreind er í sögu stærðfræðinnar. Faðir hennar var einnig stærðfræðingur og hét Þeon. Margir frægir stærðfræðingar og heimspekingar þessa tíma leituðu til Hýpatíu, því að hún var afskaplega virt. Hún skrifaði greinar um verk Díofantosar og Apolloníosar. Hún var myrt á hryllilegan hátt af kristnum múgi og er sá atburður gjarnan talinn marka upphaf hnignunar Alexandríu sem menningarmiðstöðvar.
Nokkur rit eru eignuð henni í síðari tíma heimildum, þ.á m. skýringarrit við rit Díofantosar Um reiknilistina, rit Apolloníosar Um keilur og ýmis rit Ptólemajosar, en engin þeirra eru varðveitt. Á hinn bóginn gefa bréf til hennar frá Synesíosi nemanda hennar einhverja hugmynd um menningarlegan tíðaranda sem hún bjó við. Hýpatía var platonisti, en ekki er vitað hvort hún fylgdi Plótínosi, helsta platonska heimspekingi 3. aldar, að málum í túlkun sinni á heimspeki Platons.