Fara í innihald

Krantor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Krantorforngrísku: Κράντωρ) var forngrískur heimspekingur sem starfaði í gömlu Akademíunni.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Krantor var fæddur líklega um miðja 4. öld f.Kr. í Soli í Kilikíu. Hann fluttist til Aþenu til þess að geta lagt stund á heimspeki og varð nemandi Xenokratesar og vinur Polemons. Hann lést á undan Polemoni og Kratesi frá Aþenu.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Ritverk hans voru fjölmörg en þau eru ekki varðveitt. Svo virðist sem hann hafi einkum ritað um siðfræði. Rit hans virðast hafa verið lesin og vel þekkt í Rómaveldi á 1. öld f.Kr. en rómverska skáldið Hóratíus vísar meðal annars í þau.[1] Mestra vinsælda virðist ritið Um sorg hafa notið sem var ritað handa vini hans Hippóklesi við andlát sonar hins síðarnefnda. Cicero virðist hafa byggt þriðju bók Samræðna í Tusculum á þessu riti. Stóuspekingurinn Panætíos lýsti því sem „gullnu“ riti sem menn ættu að læra utanað orðrétt.[2]

Krantor raðaði lífsgæðunum í eftirfarandi röð: dygð, heilsa, ánægja, auður.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hóratíus, Ep. I.2.4.
  2. Cicero, Acad, II.44.