Höfundaréttarsáttmáli Alþjóðahugverkastofnunarinnar
Útlit
Höfundaréttarsáttmáli Alþjóðahugverkastofnunarinnar er alþjóðasamningur um höfundarétt sem aðildarríki Alþjóða hugverkastofnunarinnar stóðu að árið 1996. Ástæðan fyrir gerð samningsins var að ríkin töldu breytinga þörf vegna þróunar upplýsingatækni og tilkomu Internetsins. Höfundaréttarsáttmálinn skilgreinir forrit sem höfundaréttarvarið verk, líkt og bókmenntaverk, útfærir gagnagrunnsvernd og sniðgöngubann fyrir aðgangsvarnir tæknibúnaðar. Með Digital Millennium Copyright Act 1998 var sáttmálinn innleiddur í Bandaríkjunum. Hann hefur verið innleiddur í Evrópusambandinu með ýmsum tilskipunum eins og Tölvuforritatilskipuninni 1991, Gagnagrunnstilskipuninni 1996 og Höfundaréttartilskipuninni 2001.