Fara í innihald

Hua Guofeng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hua Kuo-feng)
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Hua, eiginnafnið er Guofeng.
Hua Guofeng
华国锋
Hua Guofeng árið 1972.
Formaður kínverska kommúnistaflokksins
Í embætti
7. október 1976 – 28. júní 1981
ForveriMaó Zedong
EftirmaðurHu Yaobang
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
Í embætti
4. febrúar 1976 – 10. september 1980
ForsetiEnginn
Soong Ching-ling
Ye Jianying (starfandi þjóðhöfðingjar)
ForveriZhou Enlai
EftirmaðurZhao Ziyang
Persónulegar upplýsingar
Fæddur16. febrúar 1921
Jiaocheng-sýslu, Shansi, Kína
Látinn20. ágúst 2008 (87 ára) Peking, Kína
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Kína
MakiHan Zhijun (g. 1949)
Börn4

Hua Guofeng eða Hua Kuo-feng (16. febrúar 1921 – 20. ágúst 2008), fæddur undir nafninu Su Zhu, var kínverskur stjórnmálamaður og byltingarmaður sem var formaður kínverska kommúnistaflokksins og forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína. Hua var útvalinn eftirmaður Maó Zedong og tók því við æðstu pólitísku og hernaðarlegu embættum Alþýðulýðveldisins eftir dauða Maó og Zhou Enlai forsætisráðherra. Frá 1978 til 1981 var Hua hins vegar smám ýtt frá völdum af bandalagi flokksleiðtoga undir forystu Deng Xiaoping. Hua dró sig í kjölfarið úr pólitíska sviðsljósinu en hélt þó sæti sínu í miðstjórn Kommúnistaflokksins til ársins 2002.

Hua Guofeng var meðal þeirra meðlima kínverska kommúnistaflokksins sem hröktu stjórn þjóðernissinna frá heimahéraði Maó Zedong, Hunan, í kínversku borgarastyrjöldinni í ágúst 1949.[1] Hua vakti fyrst á sér athygli sem landbúnaðarsérfræðingur í Hunan. Sagt er að hann hafi unnið að gerð vatnsveitukerfis við fæðingarstað Maós, Shaoshan. Hua varð varalandstjóri Hunan árið 1958 og lifði af umrótaskeið menningarbyltingarinnar án þess að verða fyrir árásum öfgavinstrihreyfinga Rauðu varðliðanna.[2]

Hua var kjörinn í miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins í apríl árið 1969. Hann var síðan kjörinn í framkvæmdastjórn flokksins fjórum árum síðar. Árið 1975 staðfesti kínverska alþýðuþingið útnefningu Hua Guofeng í embætti varaforsætisráðherra og öryggismálaráðherra Kína. Hua varð landsþekktur þegar honum voru falin tvö stór verkefni árið 1975. Fyrst var honum falið að flytja aðalræðuna á landbúnaðarráðstefnu þar sem hann hvatti til betri stjórnunar samyrkjubúa. Síðan var hann aðalfulltrúi stjórnvalda við hátíðahöld í Lhasa í tilefni þess að tíu ár voru liðin síðan Tíbet varð sjálfstjórnarlýðveldi innan kínverska alþýðulýðveldisins.[2]

Hua Guofeng var skipaður forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins eftir að Zhou Enlai lést í febrúar árið 1976. Hann var jafnframt skipaður fyrsti varaformaður miðstjórnar Kommúnistaflokksins.[1]

Skjótur frami Hua kom mörgum á óvart á þessum tíma en talið er að Maó formaður hafi valið hann til að gegna þessum ábyrgðarstöðum þar sem hann hafi staðið sig vel við stjórn heimahéraðs hans á tíma menningarbyltingarinnar. Gjarnan hafði verið búist við því að Deng Xiaoping, fulltrúi raunsæisarms kommúnistaflokksins, yrði eftirmaður Zhou sem forsætisráðherra en hann leið fyrir það að honum hafði verið útskúfað um skeið á tíma menningarbyltingarinnar og átti í deilum við hreyfingu vinstriróttæklinga eins og Jiang Qing og fjórmenningaklíkunnar.[2]

Maó lést einnig í október 1976 og Hua Guofeng tók við af honum sem formaður kommúnistaflokksins og æðsti leiðtogi Kína. Hua gegndi jafnframt áfram embætti forsætisráðherra og hafði því formlega séð enn meiri völd en Maó hafði haft.[3] Stuttu eftir að Hua tók við völdum lét hann handtaka Jiang Qing og hina meðlimi fjórmenningaklíkunnar og treysti þannig eigin völd. Hua og bandamenn hans létu halda fjöldagöngur á móti Jiang, sökuðu hana um að hafa mistúlkað kenningar Maós og gáfu jafnvel í skyn að hún hefði verið völd að dauða hans.[4][5]

Eftir að Hua ruddi fjórmenningaklíkunni úr vegi kom hann af stað pólitískum breytingum sem fólu í sér algera afneitun á arfleifð menningarbyltingarinnar. Með þessum breytingum var reynt að hverfa aftur fyrir tímann fyrir menningarbyltinguna og margir sem höfðu verið fordæmdir á tíma hennar fengu uppreist æru, meðal annars Deng Xiaoping. Með breytingunum fór Hua sjálfur hins vegar smám saman að glata völdum og Deng varð æ meira áberandi sem helsti leiðtogi Kínverja. Sumarið 1980 sagði Hua af sér sem forsætisráðherra og sagðist vilja einbeita sér að störfum sínum sem formaður kommúnistaflokksins.[6] Í júlí 1981 varð Hua einnig að segja af sér sem flokksformaður og við honum tók Hu Yaobang, bandamaður Dengs. Var Deng þá orðinn voldugasti maður Kína þrátt fyrir að gegna hvorki embætti flokksleiðtoga né ríkisstjórnarleiðtoga.[7]

Þrátt fyrir ósigur sinn í valdabaráttunni við Deng var Hua hvorki drepinn, fangelsaður né gerður útlægur. Hann hélt sæti sínu í miðstjórn kommúnistaflokksins til ársins 2002. Hua lést árið 2008.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Lí Tsaó (28. júní 1977). „Alþýðlegi formaðurinn“. Vísir. bls. 5.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Hua Kuo-feng — sérfræðingur í landbúnaði en ekki reyndur diplómat“. Morgunblaðið. 12. febrúar 1976. bls. 15.
  3. „Valdameiri en Mao?“. Morgunblaðið. 17. október 1976. bls. 24.
  4. „Hefnd hinna auðmýktu“. Morgunblaðið. 30. nóvember 1976. bls. 30-31.
  5. „Hreinsunin í Peking“. Morgunblaðið. 7. nóvember 1976. bls. 48-49; 53.
  6. Ragnar Baldursson (15. janúar 1981). „Valdabarátta í kínverska kommúnistaflokknum“. Vísir. bls. 9.
  7. Jónas Kristjánsson (7. júlí 1981). „Hinn austræni Natóvinur“. Dagblaðið. bls. 12.
  8. „Fyrrverandi leiðtogi Kína látinn“. mbl.is. 20. ágúst 2008. Sótt 17. júní 2022.


Fyrirrennari:
Maó Zedong
Formaður kínverska kommúnistaflokksins
(7. október 197628. júní 1981)
Eftirmaður:
Hu Yaobang
Fyrirrennari:
Zhou Enlai
Forsætisráðherra Alþýðulýðveldisins Kína
(4. febrúar 197610. september 1980)
Eftirmaður:
Zhao Ziyang