Fara í innihald

Sigmund Freud

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Helstu rit Freuds)
Sigmund Freud
Ljósmynd úr tímaritinu LIFE.
Fæddur6. maí 1856
Dáinn23. september 1939 (83 ára)
MenntunVínarháskóli
MakiMartha Bernays (g. 1886)
Börn6
Undirskrift

Sigmund Freud (6. maí 185623. september 1939) var austurrískur geðlæknir og taugafræðingur. Hann er upphafsmaður sálgreiningar og kenningar hans hafa haft mikil áhrif á hugmyndir almennings um sálarlífið. Hann var talsmaður þess að starfsemi líkamans mætti skýra út frá efna- og eðlisfræðilegum lögmálum. Lærði dáleiðslu hjá franska taugalækninum Jean Martin Charcot. Freud þróaði aðferð sem kallaðist frjáls hugrenningaaðferð. Hugrenningar sjúklings gefa sálgreinanda vitneskju um innihald dulvitundar. Með dulvitund er átt við þær hugsanir, viðhorf, óskir, hvatir og tilfinningar sem við höfum ekki beinan og greiðan aðgang að. Dulvitund er lykilhugtak í kenningum Freuds.

Freud fæddist í Freiberg í Austurrísk-Ungverska keisaradæminu (nú Příbor í Tékklandi) árið 1856. Fjölskylda hans flutti til Vínar þegar hann var fjögurra ára gamall og þar bjó hann þangað til nasistar hernámu borgina 1938. Freud var gyðingur að uppruna en var þó alla tíð yfirlýstur trúleysingi.

Freud var talinn góður nemandi, en þrátt fyrir það var hann lengi að ljúka háskólanámi. Hann nam læknisfræði við háskólann í Vín og smíðaði kenningar í taugalífeðlisfræði. Hann átti í erfiðleikum með að velja námsgrein en læknisfræðin varð að lokum fyrir valinu.

Á námsárum sínum kynntist hann Josef Breuer sem var læknir og lífeðlisfræðingur. Saman ræddu þeir um sjúkdómstilfelli og átti einn af sjúklingum Breuers eftir að hafa mikil áhrif á Freud. Sjúklingurinn var kallaður Anna O. í dagbókum Freuds og þjáðist af því sem á þeim tíma var nefnt sefasýki. Sefasýki Önnu O. lýsti sér þannig að hún gat ekki talað sitt eigið móðurmál, þýsku, en gat talað á ensku og frönsku. Hún gat heldur ekki drukkið vatn, og var tímabundið lömuð. Engar þekktar líffræðilegar skýringar lágu að baki þessum sjúkdómseinkennum, svo talið var að þau væru sálræn. Breuer hafði komist að því að ef hann dáleiddi hana gat hún munað eftir hlutum sem hún mundi ekki eftir annars og að eftir dáleiðsluna voru sjúkdómseinkennin horfin.

Freud fór síðar til Parísar til náms hjá hinum virta taugasérfræðingi Jean-Martin Charcot sem meðal annars rannsakaði sefasýki og notaði dáleiðslu. Árið 1886 sneri Freud aftur til Vínar, giftist og opnaði einkastofu þar sem hann sérhæfði sig í tauga- og heilasjúkdómum. Hann reyndi fyrst að nota dáleiðslu en komst síðar á þá skoðun að hann gæti fengið sjúklinga til að opna sig með því að láta þá leggjast á sófa og tala um hvaðeina sem þeim kom í hug með nokkurs konar frjálsu flæði. Þetta er kallað frjáls hugrenningaraðferð. Síðan greindi hann það sem sjúklingarnir höfðu sagt eða munað og reyndi með því að finna út hvaða atburður hefði valdið einkennum fólks.

Árið 1900 gaf Freud út bókina Túlkun drauma (de: Die Traumdeutung) og setti fram kenningar sínar um hinn dulvitaða huga. Ári síðar gaf hann út bókina Psychologischen Mittwochs-Vereinigung þar sem hann setti fram þær kenningar að gleymska eða mismæli (sem nú kallast á ensku „freudian slip“) væri alls ekki eitthvað út í bláinn heldur væri birtingarmynd dulvitundarinnar og hefði einhverja merkingu. Síðar setti hann fram þær kenningar að kynhvötin væri það sem helst mótaði sálfræði einstaklingsins og að hún væri jafnvel til staðar hjá ungabörnum. Þessar kenningar hneyksluðu fólk þegar þær komu út árið 1905. Frægasta kenning hans er um Ödipusarduldina. Samkvæmt kenningunni laðast drengir kynferðislega að móður sinni og öfunda föður sinn eða hata. Síðar setti Freud fram svipaða kenningu um stúlkur, Elektruduld, þar sem hann hélt fram að allar stúlkur þjáðust af reðuröfund.

Árið 1902 var Freud útnefndur prófessor við háskólann í Vín. Hann safnaði að sér mörgum stuðningsmönnum sem aðhylltust kenningar hans og hjálpuðu til við útbreiðslu þeirra um heiminn. Síðar kom upp skoðanaágreiningur í hópnum og sumir nánustu fylgismenn hans (líkt og Alfred Adler og Carl Jung) klufu sig frá hópnum.

Freud reykti mikið, u.þ.b. 20 vindla á dag, og fékk hann krabbamein í kjálka árið 1923 og gekkst undir margar aðgerðir vegna þess.

Freud skrifaði margar bækur og orðstír hans barst víða. Árið 1933 breiddist nasisminn út um Evrópu og verk Freuds lentu í bókabrennum nasista.

Þar sem Freud var gyðingur litu nasistar til hans með litlum velvilja. Vegabréfið var tekið af honum en vegna mikils þrýstings erlendis frá var honum leyft að halda úr landi og flúði hann þá til Englands. Þar lést hann í september árið 1939, sama mánuð og Heimsstyrjöldin síðari braust út.

Sigmund Freud austurríkismaður og einn þekktasti sálfræðingur allra tíma. Var talsmaður þess að starfsemi líkamans mætti skýra út frá efna- og eðlisfræðilegum lögmálum. Lærði dáleiðslu hjá franska taugalækninum Jean Martin Charcot. Þróaði aðferð sem kallaðist frjáls hugrenningaaðferð. Hugrenningar sjúklings gefa sálgreinanda vitneskju um innihald dulvitundar. Með dulvitund er átt við þær hugsanir, viðhorf, óskir, hvatir og tilfinningar sem við höfum ekki beinan og greiðan aðgang að. Dulvitund lykilhugtak í kenningu Freuds.

Sjúklingar Freuds

[breyta | breyta frumkóða]

Eftirmæli og gagnrýni

[breyta | breyta frumkóða]

Kenningar Freuds hafa lengi verið mjög umdeildar. Helsta gagnrýnin er að hugmyndir hans séu óprófanlegar og geti því ekki talist vísindalegar. Eitt grundvallarhugtakið í Persónuleikakenningu Freuds, dulvitundin, er til dæmis samkvæmt skilgreiningu nokkuð sem ekki er hægt að rannsaka með beinum hætti. Sumir telja líka að kenningin gangi ekki röklega upp.

Almennt má segja að nútímasálfræðingar hafni kenningum Freuds eða styðjist að minnsta kosti ekki við þær. Kenningar hans hafa þó enn nokkur áhrif innan sumra annarra félagsvísinda og í geðlæknisfræði. Staða hans er líka nokkuð sterk í bókmenntafræði, en sálgreining er stundum notuð sem undirstaða bókmenntatúlkunar. Kenningar Freuds hafa líka haft gífurleg áhrif á hugmyndir almennings um sálarlíf manna.

Helstu ritverk Freuds eru þessi:

  • Zum psychischen Mechanismus der Vergesslichkeit, 1898
  • Die Traumdeutung, 1900
  • Zur Psychopathologie des Alltagslebens, 1901
  • Drei Abhandlungen zur Sexualtheorie, 1905
  • Totem und taboo, 1913
  • Zur Einführung des Narzißmus, 1914
  • Jenseits des Lustprinzips, 1920
  • Das Ich und das Es, 1923
  • Die Zukunft einer Illusion, 1927
  • Das Unbehagen in der Kultur, 1929

Zum psychischen Mechanismus der Vergesslichkeit

[breyta | breyta frumkóða]

Í þessari bók talar Freud um gleymsku og segir að það séu tveir athyglisverðir eiginleikar þegar kemur að gleymsku. Annar þeirra er þegar athygli manns beinist í aðra átt frá umræðuefninu. Hinn er, þegar maður getur ekki rifjað eitthvað upp, að þá á maður ekki að hugsa um það í langan tíma, og á endanum kemur það aftur í kollinn á manni.

Die Traumdeutung

[breyta | breyta frumkóða]

Þetta er ein af frægustu bókum Freuds. Þegar Freud fór að grúska í sálfræði þá fór hann að sálgreina fólk, og ein leið til að sálgreina fólk var í gegnum drauma þess. Þegar sjúklingur hans sagði frá draumi, leiddi það oft í sálarlíf einstaklings. Ofskynjanir taldi hann það sama því þær höfðu oft eitthvað að segja um það sem er í gangi í dulvitund sjúklingsins. Hann hélt fram að draumar og ofskynjanir voru hluti af óskum sem manneskjan vildi fá uppfylltar, eins og dagdraumar. T.d. draumar um dauða ástvina eða fjölskyldumeðlima væru yfirleitt duldar óskir einstaklings um að viðkomandi myndi deyja.

Bókin kom fyrst út í 600 eintökum og það upplag seldist upp á 8 árum. Það var ekki mikið talað um ritið, en það fékk lélega dóma í sálfræðitímaritum. Einn Gagnrýnandi sagði að “ógagnrýnir hugar myndu með ánægju taka þátt í þessu leikriti með hugmyndum og myndu síðan enda í draumórum og óskipulagi”. Bókin varð samt sem áður vinsælli þegar seinni útgáfan kom út 10 árum seinna. Bókin hefur alls verið gefin út átta sinnum, seinast 1929. Hún var þýdd á ensku og rússnesku, og sex önnur mál fyrir 1938.

Zur Psychopathologie des Alltagslebens

[breyta | breyta frumkóða]

Þessi bók tekur á því sem við gerum dags daglega, og hvernig það tengist sálinni. Eins og gleymskubókin, þá fjallar þessi bók um að gleyma réttum nöfnum og erlendum orðum. Við gleymum þeim ekki einungis, heldur að við munum vitlausa mynd þeirra aftur. Freud talar líka um “accidental slips of the tongue” sem myndi vera á íslensku mismæli. Í dag er talað um þetta sem freudísk mismæli, í höfuðið á honum. Hann heldur þar fram að tungubrjótar sem þessir eru ekki tilviljanir, heldur að dulvitundin sé að reyna að segja að meðvitundin vill ekki segja þessi orð. Svipað með “slips of the pen” sem eru ritvillur. Sumt af þessu gæti verið ástæðan fyrir mislestri: Forgangsspurningar, langvarandi vanar, undirbúningur þess sem les, staða þess sem les eða núverandi ástand, eitthvað sem vekur varnir þess sem les eða persónulegar hvatir (skv. Freud). Síðan kynnir Freud eina frægustu kenningu sína í ritinu, sem er kenning um ödipusarduldina.

Das Ich und das Es

[breyta | breyta frumkóða]

Í þessari bók segir Freud frá þeim hugmyndum sínum að huganum sé skipt í þrennt og frá upphafi yfirsjálfs (e. superego).

Í þessari bók má finna kenningar Freuds um það hvernig hugurinn starfar. Þar er einnig að finna skýra mynd Freuds af meðvitund og dulvitund. Meðvitundin á að vera það sem við gerum og vitum af, en dulvitundin á að vera það sem gerist í huganum á okkur sem við erum ekki vör við, og hefur þar af leiðandi áhrif á meðvitundina.

Dæmi:

Ef einstaklingur ræðst á einhvern annan í reiðiskasti á götu úti, þá finnum við bara reiðina gagnvart manneskjunni sem verið er að ráðast á, við vitum ef til vill ekki að manneskjan sem ráðist er á, lagði árásarmanninn í einelti á yngri árum.

Bókin talar líka um sjálf (e. ego), það (e. id) og yfirsjálf (e. superego). Samkvæmt Freud er sjálfið meðvitund okkar, þaðið er hvatastöð okkar, sem sagt það lætur stjórnast af hvötunum (lífshvöt og dauðahvöt), en yfirsjálfið er siðgæðisvörður hugans. Togstreita milli þaðsins og yfirsjálfsins getur leitt til þess að ýmiss konar varnarhættir séu teknir upp.

Jenseits des Lustprinzips

[breyta | breyta frumkóða]

Í sálgreiningu er gert ráð fyrir því að andleg atvik sé hægt að rekja til vellíðunarlögmálsins, en það er sú kenning að allt sem við gerum er ákveðið af ánægju.