Fara í innihald

Hörgur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hörgur er heiðið blóthús eða blótstallur. Einnig merkir orðið grjóthóll, hæð, fjall, hnjótur, hrjóstrugt land eða skortur.

Talið er hörgar hafi upphaflega verið blótstaðir undir berum himni, líklega steinaltari. Á þetta bendir uppruni orðsins hörgur. Í Eddukvæðunum er getið um hörg, sem hlaðinn var úr steinum. Stundum virðast hörgarnir hafa verið hús. Getið er um hörga sem brunnu, og um hátimbraða hörga.

Á Íslandi hafa fundist tóftir sem talið er að séu af fornum hörgum og hefur ein þeirra verið rannsökuð. Kom þá í ljós að hörgurinn hefur verið hús í líkingu við hof en miklu minni.

Því hefur verið haldið fram að ásynjurnar hafi aðalega verið dýrkaðar í hörgunum. Þessi skoðun byggist á því, að Snorri kallar höllina Vingólf hörg. En þá höll áttu ásynjur og víðar er getið um dýrkun þeirra í hörgum. Ekki voru allir hörgar helgaðir gyðjum, i Svíþjóð eru til örnefnin Þórshörgur og Óðinshögur.

Talið er að hörgar séu eldri en hofin. Aðalmenjar um hörga eru í örnefnum og er þeirra ekki getið nema á tveim stöðum í sagnaritum.

  • „Hvað þýðir orðið hörgur?“. Vísindavefurinn.
  • Um hof og hörga[óvirkur tengill]