Fara í innihald

Hausröndungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hausröndungur
Hausröndungur (Mugil cephalus)
Hausröndungur (Mugil cephalus)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Röndungar (Mugiliformes)
Ætt: Röndungaætt (Mugilidae)
Ættkvísl: Mugil
Tegund:
M. cephalus

Tvínefni
Mugil cephalus"
Linnaeus, 1758

Hausröndungur (fræðiheiti: Mugil cephalus) er fiskur af röndungaætt.

Bakið á hausröndung er ólífugrænt, hliðar eru silfraðar og renna síðan út í hvítt á maganum. Fiskurinn hefur oftast sex eða sjö einkennandi láréttar rendur en enga hliðarrák. Munnur þunnur með örmjóar varir. Algeng lengd er 50 cm en getur verið á bilinu 30–100 cm. Hámarksþyngd er 8kg.[1]

Lífsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Hausröndungar geta lifað bæði í saltvatni og ferskvatniám og vötnum). Það er mismunandi eftir hvar í heiminum fiskurinn lifir hvort hann sé einungis í sjó eða líka í ferskvatni. Fullþroska hausröndungar mynda stórar torfur í grunnum sjó nær yfirborðinu, oft nálægt kóralrifum.

Hins vegar hrygnir hann í dýpri sjó, hrygning fer fram á mismunandi tíma ársins eftir svæðum. Kvenkyns fiskurinn hrygnir 0,8 til 2,6 milljón eggjum og um er að ræða ytri frjóvgun. Seiði færast síðan með straumi af mjög grunnum sjó þangað til þau verða um 5cm löng og færast þá í dýpri sjó. Fiskurinn verður svo fullþroska um 3–4 ára.[1]

Aðalfæða hausröndunga eru ýmiskonar svifdýr. Fullþroska fiskar borða einnig þörunga þegar þeir lifa í ferskvatni. Hausröndungar hafa langan meltingarveg og hluti af maganum þar sem veggur hans er mjög þykkur líkt og fóarn sem gefur þeim kleift að borða bergmylsnu.[2]

Heimkynni og útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Hausröndungar lifa víða um heiminn á strandsvæðum, nánar tiltekið í fjörðum, ármótum við sjó og í víkum, lónum og höfnum. Einnig finnast þeir í ám og í vötnum, aðallega á hitabeltis- og heittempruðum svæðum. Fiskurinn finnst þó einnig á kaldari svæðum. Oftast á 0–10 m dýpi en hefur fundist á allt að 120 m dýpi og í 8–24°C.[1]

Í Vestur-Atlantshafi finnst hann frá Nova Scotia í Kanada suður að Brasilíu, þar á meðal í Mexíkóflóa. Hausröndungur hefur þó ekki fundist í Karíbahafinu. Í Austur-Atlantshafinu finnst hann frá Frakklandi og suður að Suður-Afríku. Enn fremur finnst fiskurinn bæði í Miðjarðarhafi og Svartahafinu.

Hausröndungar er þó algengastur í Indlands- og Kyrrahafinu, þar sem fiskurinn finnst á flestum strandasvæðum.[3]

Veiðar og eldi

[breyta | breyta frumkóða]

Kínverjar tilkynntu veiðar á hausröndungi fyrst árið 1995 og eru þeir í dag lang mesta veiðiþjóðin í veröldinni með rúm 127.000 tonn árið 2015. Hausröndungar eru veiddir víða um heim, nánast allstaðar þar sem þeir finnast í einhverju magni. Stærstu löndin í hausröndunga veiðum 2010–2015 voru Kína, Suður-Kórea og Taívan. Heimsafli og eldi á undanförnum árum hefur verið um og yfir 50.000 tonn og fer hækkandi. Veitt er með voðir, fallneti, tálkneti og ýmiss konar handfærum.[2]

Töluvert hefur verið um hausröndungaeldi bæði á landi og í sjó í tugi ára. Helstu eldissvæðin eru miðjarðahafslönd, Suðaustur-Asía, Taívan, Japan og Hawaii. Í dag er Taívan og Ítalía stærst í landeldi og Kórea stærst í sjóeldi.[2] Aðferðir í eldi hausröndunga hafa verið að þróast mikið, þá sérstaklega á Ítalíu.[1] Mest af eldinu er enn háð seiðum sem er safnað í náttúrunni, þar sem það er enn ódýrara en að reka seiðaeldisstöðvar.[3]

Vinnsla og markaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Hausröndungur er venjulega seldur heill eða slægður, sjaldan flakaður en þó stundum. Stærsti markaðurinn fyrir hausröndunga er miðjarðahafssvæðið, aðallega Egyptaland. Þar er hann mestmegnis seldur ferskur eða ísaður. Eldisfiskurinn er mest seldur ferskur á uppboðsmörkuðum á hverjum degi. Venjulega er að fiskurinn ekki lengur í ís en einn dag. Þar sem fiskurinn er seldur ferskur er lítill markaður fyrir frystan hausröndung. Þó er hausröndungur stundum blautsaltaður eða marineraður, þetta er lúxusmatur í Egyptalandi og nokkrum Arabaríkjum.

Einnig er fiskurinn vinsæll í sumum Asíulöndum en þar er sagt að hann hefur verið veiddur og borðaður frá fornu fari. Líklega vegna þess að hausröndungurinn lifði í grunnum sjó eða vatni og í stórum torfum þannig auðvelt var að veiða mikið án þess að hafa stóra báta eða veiðarfæri. Í Vestur- og Norður-Evrópu og Norður-Ameríku er lítill markaður fyrir hausröndung. Smá markaður er í Bandaríkjunum en þar er fiskurinn aðallega notaður sem beita.[3]

Ekki er mikið útflutt af hausröndungi þar sem nær allur fiskurinn sem er annars vegar veiddur eða hins vegar alinn er neytt í framleiðslulandinu þar sem eftirspurn hefur aukist.[3] Enn fremur eru hrogn seld fersk eða reykt og notuð í kínverskum lækningum.[2]

Heimildarskrá

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Musschoot, Musschoot, Tobias. „Mugil cephalus, Linnaeus, 1758“. Fish base. Sótt 17. febrúar 2018.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Mugil cephalus (Linnaeus, 1758)“. Food and Agriculture Organization of the United Nations. Sótt 17. febrúar 2018.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Towers, Lucy. „How to Farm Flathead Grey Mullet“. The Fish Site. Sótt 17. febrúar 2018.