Hallgrímskirkja (Vindáshlíð)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hallgrímskirkja í Vindáshlíð er kirkja sem staðsett er í Vindáshlíð í Kjós og er hluti af starfstöð KFUM og KFUK þar. Sóknarnefnd Hallgrímskirkju í Saurbæ afhenti sumarstarfi KFUK í Reykjavík sína gömlu kirkjubyggingu til eignar án endurgjalds sumarið 1957 er ný kirkja hafði verið byggð og vígð í Saurbæ það sama sumar, en byggingin hafði verið guðshús Saurbæjarsóknar frá árinu 1878.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Hugmyndin um að flytja kirkjuna frá Saurbæ upp í Vindáshlíð hafði vaknað hjá velgjörðarmanni sumarstarfs KFUK í Reykjavík, Guðlaugi Þorlákssyni, meðan á byggingu nýju kirkjunnar í Saurbæ stóð, en draumur um kirkju í Vindáshlíð hafði lengi verið í huga hans og annarra sem tengdir voru starfinu. Tveimur árum áður en ný kirkja í Saurbæ var vígð leitaði Guðlaugur Þorláksson á fund prófastsins og sóknarprestsins í Saurbæ, séra Sigurjóns Guðjónssonar og kom hugmyndinni og beiðni um gömlu kirkjuna á framfæri. Tók hann henni vel og kom þessari málaleitan til skila við sóknarnefndina, sem samþykkti beiðnina. Í miklu hvassviðri í febrúar 1957 færðist kirkjan til á grunni sínum. Þá hringdi sr. Sigurjón Guðjónsson, prófastur í Saurbæ, í Guðlaug Þorláksson og sagði við hann: „Nú er kirkjan lögð af stað í Vindáshlíð“. Þegar heimild til að flytja hana var fengið með flutningi á eignarhaldi gekk Guðlaugur Þorláksson í undirbúningsstörfin og fékk fleiri til liðs við sig, m.a. Guðlaug Jakobsson, verkstjóra hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Guðlaugur Þorláksson bað um leyfi bæjarráðs Reykjavíkur til að fá lánuð tæki og vélar til kirkjuflutnings. Þeirri bón var vel tekið og öll tæki, bílar og menn fengust frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur fyrir milligöngu Guðlaugs Jakobssonar. Leyfi fékkst einnig frá vegamálastjóra til að fá að fara um þjóðveginn með kirkjuna og var það auðsótt mál. Símamenn urðu einnig að vera viðlátnir til að taka niður eða lyfta símalínum og loks þurfti löggæslu. Útbúa þurfti grunn fyrir kirkjuna og ljúka við að breikka veginn upp í Vindáshlíð í Kjós.

Kirkjan var svo flutt á flutningavagni upp í Vindáshlíð mánudaginn 23. september 1957 og kom þann 24. september um kvöldið þangað eftir einstaka ferð sem í dag er talið mikið verkfræðilegt afrek miðað við tækni þess tíma. Kirkjunni var valinn staður uppi á flötinni þar sem hæst ber í Vindáshlíð og ekkert skyggir á hana. Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður, var fenginn til að annast endurbætur á kirkjunni ásamt félögum sínum, Magnúsi Jónssyni og Ægi Vigfússyni húsgagnasmiðum. Kirkjan var stækkuð með viðbyggingu við kórgafl, en hélst að öðru leyti óbreytt að utan. Að innan var hún öll einangruð og þiljuð. Smíðaðir voru nýir bekkir, prédíkunarstóll og altari og settar nýjar umgjarðir um gluggana og eru allar innréttingar unnar í oddbogastíl samkvæmt teikningum Aðalsteins Thorarensen. Kirkjan var endurvígð 16. ágúst 1959. Séra Bjarni Jónsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna og hófst athöfnin klukkan þrjú með skrúðgöngu frá skálanum að kirkjunni. Í henni voru, auk séra Bjarna, herra Sigurbjörn Einarsson, biskup Íslands, og dr. Ásmundur Guðmundsson, fyrrv. biskup Íslands. Auk þeirra voru sex prestar, stjórn KFUK í Reykjavík, Hlíðarstjórn og starfsstúkur Vindáshlíðar. Um fimm hundruð manns var samankominn í Vindáshlíð að þessu tilefni, en þar eð aðeins brot þeirra rúmaðist inni í kirkjunni hafði hátölurum verið komið fyrir utandyra og inni í skálanum svo að allir gætu fylgst með athöfninni.

Inni í kirkjunni tók vígslubiskup við kirkjugripunum, sem gefnir höfðu verið í tilefni endurvígslunar, og setti á altarið. Vígslan hófst með því að Gústaf Jóhannesson lék á orgelið. Blandaður kór KFUM og KFUK annaðist söng. Séra Bjarni hélt vígsluræðu og ritningarlestra lásu þeir séra Friðrik Friðriksson, séra Kristján Bjarnason, þáverandi sóknarprestur að Reynivöllum í Kjós, séra Magnús Guðmundsson í Ólafsvík og séra Sigurjón Þ. Árnason, prestur í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Að því loknu vígði séra Bjarni Hallgrímskirkju í Vindáshlíð og afhenti hana sumarstarfi KFUK. Þá prédikaði séra Sigurjón Guðjónsson prófastur og athöfnin endaði á því að séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í Reykjavík, tónaði bæn og blessunarorð. Hallgrímskirkja í Vindáshlíð eignaðist marga góða gripi í tilefni endurvígslunnar og eru þeir flestir áletraðir með nafni kirkjunnar sem fengist hafði samþykki kirkjuyfirvalda fyrir að tilstuðlan Guðlaugs Þorlákssonar. Kirkjuklukkan var smíðuð í Stálsmiðjunni hf. í Reykjavík. Hlíðarstjórn samþykkti á stjórnarfundi 18. apríl 1959, að áletrunin á kirkjuklukkuna skyldi vera svohljóðandi: Hallgrímskirkja í Vindáshlíð 24. september 1957, þann dag sem kirkjan kom upp í Vindáshlíð.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Hallgrímskirkja í Vindáshlíð, bls. 87-92 í bókinni: Hér andar Guðs blær – Saga sumarstarfs KFUK, Reykjavík 1997, útgefandi: Vindáshlíð, ritstjóri: Gyða Karlsdóttir.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]