Gljúfrasteinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gljúfrasteinn (2023)
Ljósmynd Hreinn Guðlaugsson

Gljúfrasteinn er hús efst í Mosfellsdal við ána Köldukvísl. Húsið var heimili Halldórs Laxness og fjölskyldu hans í meira en hálfa öld en hýsir nú safn um skáldið.

Húsið var byggt árið 1945 af Halldóri Laxness og konu hans Auði Sveinsdóttur. Arkitekt hússins var Ágúst Pálsson og Birta Fróðadóttir hannaði innréttingarnar. Halldór valdi staðsetningu hússins en það er reist á æskuslóðum hans rétt hjá Laxnesi. Nafn hússins er dregið af stórum steini í nágrenninu sem kallaður var Gljúfrasteinn en um þann stein skrifaði Halldór smásöguna „Steinninn minn helgi“ 19 ára að aldri.[1]

Stofan á Gljúfrasteini er viðarklædd og hljómburðurinn í stofunni er mjög góður. Halldór og Auður héldu tónleika á heimili sínu til margra ára og þar komu fram margir þekktir tónlistarmenn, bæði innlendir og erlendir. Oft spiluðu þar tónlistarmenn frá Ráðstjórnarríkjunum en Halldór var formaður MÍR í nokkur ár á 6. áratugnum. Sovéskir listamenn nýttu sér oft heimsóknir sínar til Íslands sem stökkpall yfir til Vesturlanda.[2]

Halldór naut mikillar virðingar erlendis, ekki síst eftir að hann hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1955. Þegar opinberir gestir komu til landsins var þeim oft boðið í heimsókn á Gljúfrastein. Sem dæmi má nefna að bæði Gústaf VI Adólf Svíakonungur og sonarsonur hans Karl XVI Gústaf heimsóttu Gljúfrastein, árin 1957 og 1987.

Halldór lést árið 1998 en Auður bjó áfram á Gljúfrasteini til ársins 2002. Þá keypti íslenska ríkið Gljúfrastein og listaverkin en Auður gaf allt innbú hússins. Í september 2004 var húsið opnað sem safnið Gljúfrasteinn - hús skáldsins eftir viðhald og hefur verið opið gestum síðan þá.

Húsið er í nánast upprunalegu ástandi og í því má finna ýmsa áhugaverða muni úr eigu Halldórs og Auðar, til að mynda allt bókasafn Halldórs. Á Gljúfrasteini má einnig finna listaverk eftir helstu listamenn tuttugustu aldarinnar, listamenn á borð við Jóhannes Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur, Svavar Guðnason, Karl Kvaran og Ásmund Sveinsson. Einnig er hægt að sjá þar verk eftir danska málarann og myndhöggvarann Asger Jorn og norska málarann Jakob Weidemann.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

References[breyta | breyta frumkóða]

  1. Halldór Guðmundsson. „„Í holtinu fyrir ofan Laxnes er steinn": Um Gljúfrastein og Halldór Laxness“. Lesbók Morgunblaðsins, laugardagur 4.9.2004. Sótt 2. október 2011.
  2. Edda Andrésdóttir og Auður Sveinsdóttir (1984). Á Gljúfrasteini: Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness. Vaka - bókaforlag.