Haida Gwaii

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Haida Gwaii.
Haida Gwaii er úti fyrir miðri strönd Bresku Kólumbíu.
Súlur frumbyggjanna Haida.
Mynd frá 1878 af húsum Haida frumbyggja.
Mosagróinn regnskógur í Windy Bay.

Haida Gwaii eyjar, áður þekktar sem Queen Charlotte-eyjar, eru eyjaklasi í Bresku Kólumbíu í Kanada. Nafnið þýðir eyjar Haida-fólksins. Helmingur íbúa er af Haida-uppruna. Norður af Haida Gwaii eru eyjar í Alaska-fylki Bandaríkjanna og lengra í suðri er Vancouvereyja.

Aðaleyjarnar eru tvær, Graham-eyja í norðri og Moresby-eyja í suðri, en auk þeirra eru smáeyjar um 150 talsins. Stærð eyjaklasans eru 10.180 ferkílómetrar. Íbúar eru tæpir 5000.

Skógarhögg og fiskveiðar eru mikilvægar atvinnugreinar. Ferðamennska er mikilvæg og fer vaxandi.

Náttúrufar[breyta | breyta frumkóða]

Stærsta undirtegund svartbjarnar (Ursus americanus carlottae) finnst á eyjunum. Hjartardýr og þvottabirnir eru innfluttar tegundir. Skallaörn, sæljón og háhyrningur eru dæmi um önnur dýr þar.[1] Miklir regnskógar eru á Haida Gwaii, sitkagreni, risalífviður, alaskasýprus, stafafura, marþöll, fjallaþöll og ryðelri eru helstu tegundir.

Tveir þjóðgarðar eru á eyjunum: Naikoon Provincial Park og Gwaii Haanas-þjóðgarðurinn.

Jarðskjálftasvæði er við eyjarnar og árið 2012 varð þar skjálfti upp á 7,7 stig.[2]

Veðurfar[breyta | breyta frumkóða]

Veðurfari svipar til vesturstrandar Skotlands. Nokkuð mikil rigning er á þessum slóðum og veðrið hafrænt. Ársúrkoma er 1200-1400 millimetrar.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Frumbyggjar eru taldir hafa búið á Haida Gwaii í 13-14.000 ár. Árið 1786 kom breski skipstjórinn George Dixon til eyjanna og nefndi þær eftir skipi sínu sem aftur á móti var nefnt eftir bresku drottningunni á þeim tíma: Karlottu af Mecklenburg, konu Georgs þriðja. Þegar Evrópumenn komu til eyjanna fyrst er talið að þar hafi búið 10 þúsund manns en þeir komu með sjúkdóma eins og bólusótt sem voru skæðir og felldu marga frumbyggja eyjarinnar. Bandaríkjamenn ásældust eyjarnar en í gullæðinu tryggðu Bretar sín völd á eyjunum. Um aldamótin 1900 voru aðeins um 350 manns eftir af frumbyggjunum. En í dag eru íbúar eyjanna um 5000 manns. Árið 2010 var nafninu á eyjunum breytt opinberlega og þær nefndar Haida Gwaii í stað eyja Karlottu drottningar.[3] Var það í sáttaskyni við Haida-þjóðflokkinn en tungumál þeirra var skipulega bannað og menningu haldið niðri frá um 1870-1970.[4]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var Haida Gwaii á ensku Wikipedia. Sótt 14. mars, 2016.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Go Haida Gwaii upplýsingavefur

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Introducing Haida Gwaii Geymt 8 apríl 2016 í Wayback Machine Lonely Planet. Skoðað 14. mars. 2016.
  2. Snarpur skjálfti í Kanada Rúv. skoðað 14. mars, 2016.
  3. Queen Charlotte Islands renamed Haida Gwaii in historic dealCBC. Skoðað 15. mars, 2016.
  4. The aboriginal community using tourism to help preserve its way of life BBC. Skoðað 14. mars, 2016