Fara í innihald

Roxelana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hürrem Sultan)
Hürrem Sultan
خرم سلطان
La Sultana Rossa, mynd af Roxelönu eftir Titian.
FæddÍ kringum 1502–04
Dáin15. apríl 1558
TrúÍslam, áður kristinn rétttrúnaður
MakiSúleiman mikli
Börn6; þ. á m. Selím 2.

Hürrem Sultan, einnig þekkt sem Roxelana (um 1500 – 15. apríl 1558) var eiginkona Súleimans mikla Tyrkjasoldáns. Hún hafði áður verið ambátt í kvennabúri hans. Roxelana var ein valdamesta kona í sögu Tyrkjaveldis á því tímabili sem kallað hefur verið „soldánsdæmi kvennanna“.

Fáar samtímaheimildir eru til um uppruna Roxelönu en samkvæmt rúþenskri sagnahefð fæddist hún undir nafninu Anastasía Lisovska í bænum Rohatyn í núverandi Úkraínu. Þessi skýringarsögn er ef til vill upprunnin í úkraínskum þjóðernisskáldskap frá 19. öld.[1] Pólski sagnfræðingurinn Stanisław Rzewuski (1806-1831) var einn sá fyrsti sem greindi frá þessum uppruna Roxelönu.[2] Skáldið Samuel Twardowski, sem var í sendinefnd til Tyrkjaveldis á aldamótum 16. og 17. aldar, hafði eftir tyrkneskum hirðmönnum að Roxelana hefði verið dóttir prests úr rétttrúnaðarkirkjunni í Galisíu, sem þá var hluti af pólska konungdæminu.

Á þriðja áratugi 16. aldar rændi hópur Krímtatara í ránsferð henni til þess að selja hana á þrælamarkaði.[3] Stúlkan var seld í þrældóm, líklega fyrst í Þeódósíu á Krímskaga en síðar í Konstantínópel, höfuðborg Tyrkjaveldis.

Ævi í kvennabúrinu

[breyta | breyta frumkóða]

Unga ambáttin endaði í kvennabúri Súleimans mikla Tyrkjasoldáns. Óvíst er hvenær hún kom þangað, en talið er að það hafi verið í kringum valdatöku hans í september árið 1520 og hugsanlegt að hún hafi verið færð nýja soldáninum sem krýningargjöf.[4] Í kvenálmunni hlaut stúlkan nýtt nafn, Hürrem, sem merkir „hin káta“. Hún hlaut einnig gælunafnið Roxelana, sem merkir „sú rúþenska“.[3] Súleiman og Roxelana eignuðust son, Mehmed, strax árið 1521. Roxelana varð fljótt eftirlæti soldánsins (tyrkneska: Haseki sultan), sem vanrækti í kjölfarið aðrar frillur sínar (þar á meðal Mahidevran, móður elsta sonar síns).

Í kringum júní árið 1534 hlaut Roxelana frelsi sitt og varð formlega eiginkona Súleimans. Það að Súleiman skyldi kvænast frillu úr kvennabúrinnu braut í bága við tyrkneskar hefðir á þessum tíma.[5] Samkvæmt miðausturlenskum heimildum frá seinni hluta 16. aldar beitti Roxelana kænskubrögðum til að fá Súleiman til að kvænast sér. Eftir að hafa fyrst gengist undir íslamstrú og hlotið frelsi sitt tjáði hún honum að sem frjáls múslimakona mætti hún ekki framar sænga með honum utan hjónabands.[6]

Grafhvelfing Roxelönu í Mosku Súleimans í Istanbúl.

Á fjórða áratugi 16. aldar flutti Roxelana út úr „gömlu höllinni“ þar sem soldánsfjölskyldan bjó jafnan og inn í „nýju höllina“ (Topkapı), þar sem hún gat verið nær soldáninum.[7]

Roxelana lék mikilvægt hlutverk í valdabaráttu innan tyrknesku hirðarinnar á næstu árum. Hún tók m. a. þátt í samsæri til að koma Pargali Ibrahim Pasja, hirðgæðingi Súleimans, fyrir kattarnef árið 1536.

Mestalla valdatíð Súleimans var erfinginn að soldánsdæminu Sehzade Mústafa, elsti sonur Súleimans með Mahidevran. Árið 1553 fannst falsað bréf sem stílað var til keisara Safavídaríkisins frá Mústafa þar sem beðið var um hernaðaraðstoð til að steypa Súleiman af stóli. Súleiman lét taka Mústafa af lífi þann 6. nóvember árið 1553. Dauði Mústafa leiddi til þess að synir Roxelönu og Súleimans urðu erfingjar að krúnunni. Eftir dauða Súleimans var það sonur Roxelönu, Selím 2., sem tók við soldánstigninni.

Þegar Roxelana lést þann 15. apríl árið 1558 var hún jarðsett í grafhýsi sem skreytt var með myndum af Edengarði. Skreytingarnar áttu að heiðra hana fyrir kátleika sinn og glaðværð. Grafhýsi hennar er við hliðina á gröf Súleimans í mosku Súleimans mikla.

Áhrifastaða Roxelönu

[breyta | breyta frumkóða]

Roxelana var einn helsti ráðgjafi Súleimans og hafði talsverð áhrif á stjórnarstefnu eiginmanns síns. Tvö bréf frá Roxelönu til Sigmundar 2. Póllandskonungs hafa varðveist og á ævi hennar viðhéldu Tyrkir friðsamlegu sambandi við ríki hans. Sendiherrar frá Evrópu heimsóttu hana gjarnan til þess að færa henni gjafir. Sumir sagnfræðingar telja einnig að hún hafi biðlað til eiginmanns síns um að hemja ránsferðir og þrælaverslun Krímtatara í heimalandi hennar.

Auk þátttöku sinnar í stjórnmálum bar Roxelana einnig ábyrgð á byggingarverkefnum í Mekka og Jerúsalem. Hugsanlega vildi hún líkja eftir velferðarverkefnum Zubaidu, eiginkonu kalífans Harúns Alrasjid. Meðal bygginganna sem hún lét reisa var ein moska, tveir guðfræðiskólar, gosbrunnur og sjúkrahús fyrir konur við hliðina á ambáttamarkaðinum í Konstantínópel.

  • Vera Illugadóttir (19. janúar 2019). „Ambáttin sem varð ein valdamesta kona heims“. RÚV. Sótt 29. maí 2019.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Dr. Galina I. Yermolenko (2013). Roxolana in European Literature, History and Culturea. Ashgate Publishing, Ltd. bls. 49. {{cite book}}: |archive-url= þarfnast |archive-date= (hjálp)
  2. J. de Hammer, Histoire de l'Empire ottoman depuis son origine jusqu’à nos jours, vol. 5, Paris, 1836, bls. 487.
  3. 3,0 3,1 „Kvennabúrið“. Sagan öll. 22. ágúst 2008. Sótt 28. maí 2019.
  4. Leslie Peirce (1993). The Imperial Harem: Women and Sovereignty in the Ottoman Empire. Oxford University Press. bls. 58. ISBN 0-19-508677-5.
  5. Leslie Peirce (1993). The Imperial Harem: Women and Sovereignty in the Ottoman Empire. Oxford University Press. bls. 61-62. ISBN 0-19-508677-5.
  6. Dr. Galina I. Yermolenko (2013). Roxolana in European Literature, History and Culturea. Ashgate Publishing, Ltd. bls. 25. {{cite book}}: |archive-url= þarfnast |archive-date= (hjálp)
  7. Leslie Peirce (1993). The Imperial Harem: Women and Sovereignty in the Ottoman Empire. Oxford University Press. bls. 62. ISBN 0-19-508677-5.