Fara í innihald

Harún Alrasjid

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Abbasídaætt Kalífi Abbasídaveldisins
Abbasídaætt
Harún Alrasjid
Harún Alrasjid
هَارُون الرَشِيد‎
Ríkisár 14. september 786 – 24. mars 809
SkírnarnafnHarún ar-Rasjid ibn Múhammeð al-Mahdi
Fæddur17. mars 763 eða febrúar 766
 Rey, Jibal, Abbasídaveldinu (nú Íran)
Dáinn24. mars 809
 Tus, Khorasan, Abbasídaveldinu (nú Íran)
GröfGröf Harúns Alrasjid í Ímam Reza-moskunní í Mashad, Íran
Konungsfjölskyldan
Faðir Al-Mahdi
Móðir Al-Khayzuran
KonurÝmsar, þ. á m. Zubaidah bint Ja`far
BörnMuhammad al-Amin, Abdallah al-Ma'mun, Muhammad al-Mu'tasim, al-Qasim, Abdan, Sukaynah

Harún Alrasjid (arabíska: هَارُون الرَشِيد‎) (17. mars 763 eða febrúar 766 – 24. mars 809) var fimmti kalífi Abbasída. Viðurnefnið Alrasjid merkir „hinn réttsýni“ eða „hinn rétttrúaði“. Harún var kalífi frá 786 til 809, á hápunkti íslömsku gullaldarinnar. Valdatíð Harúns var blómaskeið á sviði arabískra vísinda, trúariðkunar, menningar, myndlistar og tónlistar. Harún stofnaði bókasafnið Bayt al-Hikma („hús viskunnar“) í Bagdad og Bagdad varð ein helsta menningar-, mennta- og verslunarborg síns tíma. Árið 796 færði Harún hirð sína og stjórnarmiðstöð til Al-Raqqah í Sýrlandi.

Harún tók á móti sendiboðum frá Frankaveldinu árið 799. Hann sendi þá heim með ýmsar gjafir til Karlamagnúsar, þar á meðal vatnsklukku sem mældi tímann með því að drjúpa bronskúlum í skál. Karlamagnúsi þótti svo mikið til koma að hann taldi helst að klukkan væri töfragripur. Harún stofnaði einnig til bandalags við kínverska Tangveldið.

Ævintýrabókin Þúsund og ein nótt gerist að miklu leyti í glæstri hirð Harúns Alrasjid og Harún sjálfur birtist sem persóna í mörgum sögunum. Í sögunum dulbýr Harún sig gjarnan sem alþýðumann og blandar þannig geði við þegna sína.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Harún var sonur þriðja Abbasídakalífans, Múhameðs ibn Mansur al-Mahdi, og jemenkrar ambáttar. Móðir hans naut talsverðra áhrifa í stjórn föður hans og hafði síðar sterk áhrif á Harún.

Sem prins leiddi Harún arabíska heri í hernaði gegn austrómverska ríkinu og herjaði á Litlu-Asíu frá 780 til 782. Her hans náði alla leið til Bosporussunds þar sem Konstantínópel var í augsýn þeirra. Harún ætlaði sér ekki að reyna að hertaka höfuðborg Austrómverja, en hann vildi með hernaðinum sýna fram á styrk kalífadæmisins.[1][2] Austrómverjar féllust á að greiða Abbasídum verndarskatt. Aðeins fjórum árum síðar hætti keisaraynjan Írena að greiða skattinn og stríð braust því út á ný.[3] Sama ár gerðist Harún kalífi Abbasídaveldisins og tók við stjórn herrekstursins. Stríðið endaði með sigri Abbasída árið 798

Kalífi[breyta | breyta frumkóða]

Harún Alrasjid tekur á móti sendiboðum Karlamagnúsar á málverki eftir Julius Köckert (1864)
Abbasídaveldið á tíma Harúns Alrasjid.

Harún stofnaði glæsilegt bókasafn í Bagdad, hús viskunnar,[4] og gerði borgina að menningar- og fræðamiðstöð. Á valdatíð Harúns náði Abbasídaveldið pólitískum, efnahagslegum og menningarlegum hápunkti sínum. Árið 796 flutti hann höfuðborg kalífadæmisins til borgarinnar Al-Raqqah við bakka Efratár.

Harún ræktaði vinskaparbönd við Tangveldið í Kína og jók viðskipti og menningarskipti milli stórveldanna tveggja.[5][6] Hann átti einnig í samskiptum við Karlamagnús og sendi honum ýmsar gjafir, þar á meðal vatnsklukku og fíl að nafni Abúl-Abbas.[7]

Harún fór að dæmi forvera síns, Ómars 2., og fyrirskipaði kristnum og gyðingum í veldi sínu að bera sérstök auðkennismerki. Kristnum var gert að bera blá belti en gyðingar þurftu að klæðast gulum.

Við byrjun valdatíðar Harúns var Abbasídaveldið nokkuð miðstýrt en skattbyrði tiltekinna hluta veldisins ollu talsverðum samfélagsdeilum. Þessi spenna leiddi til þess að stórveldið fór að klofna. Múhallabidaættin sem réð yfir Ifriqiya (Túnis) fyrir kalífana féll saman og nýja Aglabídaættin sem tók þar við völdum var aðeins undirgefin kalífadæminu að nafninu til. Íbúar núverandi Marokkó klufu sig alfarið frá kalífadæminu og stofnuðu sjálfstætt sjíaíslamskt ríki í Maghreb. Uppreisnir voru einnig gerðar í Egyptalandi, meðal annars vegna hárrar skattlagningar.

Stríð við Býsansríkið[breyta | breyta frumkóða]

Árið 802 var Írenu keisaraynju steypt af stóli og Nikephoros 1. varð keisari. Hann hætti umsvifalaust að greiða Harún verndarskattinn. Þetta leiddi til annars stríðs milli Abbasídaveldisins og austrómverska ríkisins. Harún gerði innrás í Litlu-Asíu ásamt um 130.000 manna her árið 806. Nikephoros neyddist til að semja um frið árið 807 og hóf að greiða kalífanum verndarskattinn á ný.[8]

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Harún dó árið 809 í bænum Tus í Khorasan í herför gegn uppreisnarmönnum í Transoxaníu. Sjö árum fyrr hafði hann skipt ríki sínu á milli sona sinna, Al-Amins og Al-Mamuns. Þetta fyrirkomulag leiddi til erfðakreppu og borgarastyrjaldar eftir dauða Harúns. Al-Mamun sigraði eldri bróður sinn árið 813 en borgarastríðið hélt áfram til ársins 827 og veikti mjög kalífadæmið.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

 • „Hvað getið þið sagt mér um Harún al-Rashid?“. Vísindavefurinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir
 1. Treadgold 1988, bls. 68–69.
 2. Kennedy 1990, bls. 220–222.
 3. Brooks 1923, bls. 125; Treadgold 1988, bls. 78–79.
 4. Audun Holme: Geometry: Our Cultural Heritage, bls. 150
 5. Dennis Bloodworth, Ching Ping Bloodworth (2004). The Chinese Machiavelli: 3000 years of Chinese statecraft. Transaction Publishers. bls. 214, 346.
 6. Herbert Allen Giles (1926). Confucianism and its rivals. Forgotten Books. bls. 139.
 7. Gene W. Heck When worlds collide: exploring the ideological and political foundations of the clash of civilizations Rowman & Littlefield, 2007, bls. 172 Google Books Search
 8. http://runeberg.org/nfbs/0550.html
Heimildir
 • Clot, André (1988): Harun al Raschid. Kalif von Bagdad. München: Artemis.
 • Gabrieli, F. (1926–28): «La successione di Harun al-Rashid e la guerra fra al-Amin e al-Ma"mun». i: Rivista degli studi orientali (RSO). Bind 11, ISSN 0392-4866, s. 341–397.
 • Jokisch, Benjamin (2007): Islamic Imperial Law. Harun-Al-Rashid's Codification Project. Berlin: Walter de Gruyter, (Studien zur Geschichte und Kultur des islamischen Orients NF 19).
 • Kennedy, Hugh (2004): The Prophet and the Age of the Caliphates. the Islamic Near East from the sixth to the eleventh Century. 2. opplag. Harlow: Pearson Longman, (A history of the Near East).
 • Kennedy, Hugh (2005): When Baghdad ruled the Muslim world. The rise and fall of Islam's greatest dynasty. Cambridge MA: Da Capo Press.
 • Warren T. Treadgold (1988). The Byzantine Revival, 780–842. Stanford University Press.
 • Hugh N. Kennedy (1990). The History of Al-Tabari, Volume XXIX: Al-Mansur and Al-Mahdi. State University of New York Press.