Fara í innihald

Höskuldur Dala-Kollsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Höskuldur Dala-Kollsson var stórbóndi og héraðshöfðingi í Dalasýslu snemma á 10. öld og bjó á Höskuldsstöðum í Laxárdal. Bærinn er vestarlega í dalnum, sunnan Laxár.

Höskuldur var sonur Kolls, sem Laxdæla ættfærir ekki en er sagður sonur Veðrar-Gríms Ásasonar hersis í Sturlubók Landnámu, og Þorgerðar, dóttur Þorsteins rauðs sem verið hafði konungur í Skotlandi, en Skotar drápu. Amma Þorgerðar var Unnur (Auður) djúpúðga, landnámskona í Hvammi í Dölum. Hálfbróðir Höskulds var Hrútur Herjólfsson. Koma þeir bræður allnokkuð við sögu í Laxdælu og Njálu.

Höskuldur tók ungur við búi er faðir hans lést og gerðist snemma voldugur í héraði. Kona hans var Jórunn, dóttir Bjarnar landnámsmanns í Bjarnarfirði á Ströndum og þótti hún góður kvenkostur. Hún var systir Svans galdramanns, þess sem síðar gekk í Kaldbakshorn. Börn þeirra voru Þorleikur, Bárður, Hallgerður, sem kölluð var langbrók, og Þuríður.

Höskuldur fór í Noregsleiðangur til að afla sér húsaviðar. Í þeirri för keypti hann ambátt, sem virtist vera heyrnarlaus og mállaus, en var samt verðlögð á við 3 aðrar. Með henni eignaðist Höskuldur son, sem nefndur var Ólafur, eftir Ólafi feilan, ömmubróður sínum, sem þá var nýdáinn. Ólafur Höskuldsson var mjög bráðger og er hann var liðlega tveggja ára komst Höskuldur að því, að ambáttin bæði heyrði og talaði, er hann kom að þar sem hún sat niðri við Laxá og sagði syni sínum sögur. Sagði hún Höskuldi þá að hún héti Melkorka og væri dóttir Mýrkjartans Írakonungs, en víkingar höfðu rænt henni þegar hún var 15 ára. Þegar þetta var hefur hún verið innan við tvítugt að öllum líkindum. Eftir þetta setti Höskuldur hana til bús á Melkorkustöðum innar í Laxárdal, sunnan ár, vegna þess að illa fór á með Jórunni og Melkorku og höfðu þær slegist, svo að Höskuldur varð að ganga á milli. Þórður goddi á Goddastöðum bauð Höskuldi fóstur og tók hann við Ólafi páa til fósturs er hann var 7 ára, þó að Melkorku líkaði illa og þætti fóstrið of lágt eins og segir í Laxdælu.

Hrútur hálfbróðir Höskulds var fæddur og fóstraður í Noregi, en kom út og settist að á Kambsnesi, rétt utan Laxárdals. Höskuldur og Hrútur deildu um móðurarf sinn og vildi Höskuldur ekkert greiða Hrúti og sat yfir fé hans. Eitt sinn er Höskuldur var af bæ kom Hrútur þar og hafði á brott með sér tuttugu naut, en skildi jafn mörg eftir. Fimmtán húskarlar Höskulds veittu honum eftirför, en svo lauk viðskiptum þeirra að af þeim féllu fjórir en hinir voru allir sárir og báðu sér þá griða. Eftir þetta var samið á milli þeirra bræðra og greri um heilt á milli þeirra.

Er Höskuldur fann elli fara fast að sér, kallaði hann til sín Þorleik og Bárð og bað þá þess að Ólafur pái yrði arfgengur til jafns við þá. Þessu þverneitaði Þorleikur og þar við sat, þrátt fyrir samþykki Bárðar. En Höskuldur nýtti rétt sinn og gaf Ólafi 12 aura gulls, en það voru hringur og gullrekið sverð. Þetta mislíkaði Þorleiki ákaflega en svo varð þó að vera, því að þetta voru lög.

Eftir þetta dó Höskuldur og héldu synir hans mikla veislu eftir hann og segir sagan að sú veisla sé næstfjölmennasta veisla sem haldin hafi verið á Íslandi í þá daga. Er fjöldi boðsmanna sagður hafa verið níu hundruð (stór, = 1080 manns). Greiddi Ólafur pái ríflega þriðjung kostnaðar á móti bræðrum sínum, þó svo að hann væri sviptur arfi.