Hallgerður Höskuldsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hallgerður langbrók)

Hallgerður Höskuldsdóttir (10. öld) var þekkt undir nafninu Hallgerður langbrók, að líkindum vegna þess að hún hefur verið hávaxin og leggjalöng, eða að nafn hennar hafi verið ranglega skráð sem langbrók í stað langbrok sem þýðir langt hár.

Hallgerður var dóttir Höskuldar Dala-Kollssonar og konu hans, Jórunnar Bjarnardóttur, sem bjuggu á Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu. Hún var systir þeirra Þorleiks og Ólafs páa, en frá sonum þeirra, Bolla og Kjartani, segir í Laxdæla sögu. Hallgerður þótti kvenna fríðust, en var að sama skapi geðstór og óstýrilát. Fóstri hennar hét Þjóstólfur og var hann vígamaður mikill.

Hallgerður var ung að árum er faðir hennar gifti hana að henni forspurðri og líkaði henni það stórilla. Fyrsti maður hennar var Þorvaldur Ósvífursson er bjó undir Felli á Meðalfellsströnd (Staðarfelli á Fellsströnd). Hann sló Hallgerði utan undir er hún sakaði hann um nísku og fyrir það drap Þjóstólfur hann. Síðar giftist hún Glúmi Óleifssyni, en bræður hans voru Ragi og Þórarinn lögsögumaður. Bjuggu þau á Varmalæk í Borgarfirði. Dóttir þeirra hét Þorgerður Glúmsdóttir og varð hún húsfreyja á Grjótá í Fljótshlíð, gift Þráni Sigfússyni, sem Skarphéðinn drap og var móðir Höskuldar Hvítanessgoða. Hallgerður og Glúmur unnust mjög en þó sló Glúmur hana kinnhest og fyrir það drap Þjóstólfur hann einnig þó svo að Hallgerður bæði honum griða.

Hallgerður skipti löndum við Þórarin mág sinn, hann fékk Varmalæk en hún Laugarnes við Reykjavík. Nokkru síðar giftist hún Gunnari Hámundarsyni á Hlíðarenda og var húsfreyja þar. „Af henni mun standa allt hið illa er hún kemur austur hingað“ sagði Njáll á Bergþórshvoli við Gunnar um þann ráðahag. Eitt vor varð þurrð í búi þeirra Hlíðarendahjóna og sendi Hallgerður þá Melkólf þræl til að stela í Kirkjubæ á Rangárvöllum, en þar hafði hann verið áður og þekkti öll húsakynni. Er Gunnar komst að þessu sló hann Hallgerði kinnhest og kvaðst ekki vilja vera þjófsnautur. Þennan kinnhest mundi hún honum er hún neitaði að gefa honum lokk úr hári sínu áður en hann var veginn. Hefur það verið túlkað á ýmsa vegu af bókmenntafræðingum. Synir Gunnars og Hallgerðar voru Grani og Högni og var Högni vinur Skarphéðins, en Grani ekki.

Eftir víg Gunnars fór Hallgerður að Grjótá til Þorgerðar dóttur sinnar. Síðar fluttist hún að Laugarnesi við Reykjavík, sem var eignarjörð hennar eftir Glúm mann sinn. Þar bjó hún um nokkurt skeið og dó þar nokkru eftir kristnitöku. Hallgerðarleiði hét þúst eða stór þúfa, sem nú er horfin undir gatnamót Kleppsvegar og Laugarnesvegar. Henni fylgdi sú sögn að þar lægi Hallgerður grafin, en einnig er til sú sögn að legstaður hennar sé í Laugarneskirkjugarði. Þegar grafið var í þúfuna árið 1921 fannst þar gjallhaugur og einhverjar hleðslur.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]