Ólafur pái Höskuldsson
Ólafur pái Höskuldsson[1][2] (forníslenska: Olafr pá Höskuldsson,[3] 10. öld) var sonur Höskuldar Dala-Kollssonar stórbónda og höfðingja á Höskuldsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu og ambáttar hans, Melkorku Mýrkjartansdóttur. Melkorka neitaði að tala og héldu menn að hún væri mállaus, en þegar Ólafur var nokkurra ára kom faðir hans að þeim þar sem Melkorka sagði syni sínum sögur í hvammi fyrir neðan bæjarhólinn. Kom þá í ljós að hún var konungsdóttir frá Írlandi.
Ólafur var látinn heita eftir Ólafi feilan bónda í Hvammi í Hvammssveit, en hann var móðurbróðir Höskuldar og dó skömmu áður en Ólafur pái fæddist. Frá 7 ára aldri var hann í fóstri hjá Þórði godda á Goddastöðum í Laxárdal og mannaðist vel.
Ólafur pái var skartmaður mikill þegar hann óx úr grasi og var það orsök viðurnefnisins, sem Höskuldur faðir hans gaf honum. Hálfbræður hans voru Þorleikur og Bárður og hálfsystir hans var Hallgerður langbrók og var hann því mágur Gunnars á Hlíðarenda.
Er Ólafur var átján vetra fór hann í frægðarför til Írlands að finna Mýrkjartan afa sinn, sem tók honum vel og gerði honum mikinn sóma. Einnig hlaut hann mikinn sóma af Haraldi Eiríkssyni Noregskonungi, sem hafði hann í miklum metum og kom hann stórríkur til baka úr för sinni að tveimur árum liðnum.
Ólafur pái kvæntist Þorgerði Egilsdóttur Skallagrímssonar frá Borg á Mýrum. Voru þau fyrst um vetur á Höskuldsstöðum með Höskuldi, en bjuggu svo á Goddastöðum þar sem Ólafur var fóstraður. Síðar bjuggu þau í Hjarðarholti, sem er norðan Laxár gegnt Höskuldsstöðum og byggði Ólafur þar fyrstur manna. Þegar þau fluttu lét Ólafur reka búsmalann á milli bæjanna og náði hjörðin í óslitinni röð á milli Goddastaða og Hjarðarholts, en það er alllöng leið.
Börn þeirra Ólafs og Þorgerðar voru synirnir Kjartan, Steinþór, Halldór, Helgi og Höskuldur og dæturnar Bergþóra, Þorbjörg og Þuríður. Auk þess fóstruðu þau Bolla, son Þorleiks, og voru þeir jafnaldrar Kjartan og Bolli. Þeir voru miklir vinir, en þó gerðist Bolli banamaður Kjartans vegna ástamála þeirra og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Var Kjartan veginn við stein nokkurn uppi á Svínadal og heitir þar Kjartanssteinn.
Frá öllum þessum persónum og atburðum segir í Laxdæla sögu.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Valgarður Egilsson fór með hlutverk Ólafs í kvikmyndinni Hvíti víkingurinn.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ólafur Pái sbr. „Laxdæla saga - 31. kafli“. www.snerpa.is. „Laxdæla saga - 4. kafli“. mms.is. en einnig kallaður Ólafur Pá sbr. „Laxdæla Saga - Bls. 120“. baekur.is.
- ↑ „Íslensk stafsetningarorðabók“. stafsetning.arnastofnun.is. Sótt 6. febrúar 2024.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Bækur.is“. baekur.is. Sótt 6. febrúar 2024. Bls. 120