Fara í innihald

Háhraðalest

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tvær Eurostar lestir á Waterloo brautarstöðinni í Lundúnum

Háhraðalest er lest sem ferðast á töluvert meiri hraða heldur en hefðbundin lest. Ekki er til neinn einn staðall sem segir til hvenær lest flokkast undir það að vera háhraðalest. Samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins er lest flokkuð sem háhraðalest þegar hún ferðast á 200 km/klst eða hraðar en lestir í Bandaríkjunum flokkast sem háhraðalestir þegar þær ferðast á 145 km/klst eða hraðar. Háhraðalestir í sinni núverandi mynd eru upprunnar í Japan og ganga lestirnar þar í landi undir nafninu Shinkansen. Fyrsta Shinkansen lestin hóf starfsemi sýna árið 1964 og tengdi saman japönsku stórborgirnar Tókýó og Osaka. Hún ferðaðist á allt að 210 km/klst og var hraðinn seinna meir aukinn upp í 220 km/klst. Í dag eru lestirnar notaðar í löndum víðsvegar um heim og sem dæmi um lönd sem hafa háhraðalestir eru Taívan, Belgía, Frakkland og Bandaríkin.

Leiðir sem eru ákjósanlegar fyrir háhraðalestir

[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er litið á háhraðalestir sem samgöngumáta sem leysir af bíla eða flugsamgöngur. Heldur er frekar litið á þær sem viðbót við hina tvo samgöngumátana. Þau svæði sem best henta til þess að leggja háhraðalest eru svæði á milli tveggja borga. Dæmi um slíkar lestir er lestin sem tengir saman japönsku stórborgirnar Tókýó og Osaka eða Eurostar sem tengir saman Lundúnir og París. Það má segja að bestu svæðin til þess að leggja lest séu vegalengdir sem eru of langar til þess að ferðast með bíl (eða eru ófærar með bíl), en of stuttar til þess að ferðast með flugvél. Aðrar leiðir þar sem háhraðalestir eru hentugar eru leiðir á stóra ferðamannastaði eins og frá París til Frönsku Alpana, skemmtigarða, ferðamannastaða við Miðjarðarhaf eða við strönd Atlantshafsins. Til eru lestir eins og norska lestin Flytoget sem tengir Gardermoen flugvöll við Osló, höfuðborg Noregs. Aðrar leiðir sem taldar eru ákjósanlegar eru leiðir notaðar til vöruflutninga. Eins og háhraðalest yfir Síberíu frá Sankti Pétursborg til Peking eða lest sem færi frá Ítalíu í gegnum Alpana til Þýskalands. Eins og með háhraðalestir fyrir borgara, þá myndi háhraðalest fyrir vöruflutninga ekki leysa af vöruflutninga með skipum, bílum eða flugvélum heldur aðeins vera valmöguleiki þar sem lestir væru hentugari heldur en hinir þrír möguleikarnir. Sem dæmi má taka að háhraðalest frá Sankti Pétursborg til Peking gæti flutt vörur frá Austurlöndum til Evrópu á aðeins þremur dögum á meðan það tæki vörur með skipi mánuði að komast á sama áfangastað (flugvél gæti aftur á móti flutt vörur sömu vegalengd á mun styttri tíma en lest).