Gufuskálar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gufuskálar

Gufuskálar eru við útjaðar þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, nálægt Hellissandi. Langbylgjustöðin á Gufuskálum sendir á 189 kHz. (Hin langbylgjustöðin er á Eiðum.) Þar er einnig æfingasvæði fyrir björgunarsveitir Slysavarnafélagssins Landsbjargar. Æfingaaðstaða fyrir björgunarsveitir er mjög góð. Á Gufuskálum er einnig starfræktur útivistarskóli fyrir unglinga á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Á Gufuskálum hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð frá 1994.

Landnámsmaðurinn Ketill gufa Örlygsson var um kyrrt á Gufuskálum einn vetur samkvæmt Landnámu. Búið var þar til ársins 1948 og var þar þá yzta býlið í Neshreppi utan Ennis. Útgerð var mikil frá Gufuskálum líkt og fleiri stöðum á Snæfellsnesi. Vítt og breitt eru þar minjar og merki um sjávarútveg og byggð fyrri alda.

Landnáma segir um Ketil gufu: „Ketill tók Rosmhvalanes; sat hinn fyrsta vetur að Gufuskálum.“ (Hinar mörgu „gufur“ hér á landi, hafa vakið spurningar um hvor séu upprunalegri, mannsnöfnin eða örnefnin)

Munnmæli segja að á Gufuskálum séu gömul álög allt frá landnámstíð. Þar á að hafa numið land kona sú er Gufa hét, hún átti tvo sonu, duglega til sóknar, en missti báða í sjóinn, einn og sama dag. Þá reiddist Gufa sjónum og landinu og kvað svo á að 20 bátar skyldu farast frá Gufuskálum og menn ekki mega bjargast. Víst er að óvenju margir skipskaðar hafa þar orðið.[heimild vantar]

Lendingarnar voru í víkinni niður af bænum. Aðalvörin var Gufuskálavör. Lengd varinnar er um 70 metrar og var hún rudd í stórgrýti og hellulögð. Djúpar raufar eru í sjávarklappirnar, merki um kili bátanna, sem voru dregnir þar á land og hrundið fram á víxl. Yfir 200 forn byrgi eru í jaðri Bæjarhrauns ofan þjóðvegarins þar sem talið er að fiskur hafi verið geymdur og þurrkaður. Byrgin eru topphlaðin og falla mjög vel inn í hraunlandslagið og því erfitt að sjá þau frá veginum.

Írsk örnefni á þessum slóðum eru fjögur: Írskubúðir eru nokkru sunnar, vestur af Gerðubergi og Kvarnahrauni. Þar eru rústir, sem voru kannaðar 1998. Þær reyndust vera frá níundu öld. Íraklettur er við ströndina skammt frá vörinni, en Írskabyrgi og Írskrabrunnur eru nokkru vestar, niður af Smáhrauni. Brunnurinn er 16 þrep niður að vatni. Hann týndist í nokkra áratugi en fannst 1989 aftur og sandur hreinsaður úr honum. Írskabyrgi er vestur af brunninum. Þar standa reisulegir veggir. Lagið á byrginu líkist kirkju. Austurgafl er bogamyndaður og inngangur á vesturgafli.

Milli Bæjarhraunsins og þjóðvegarins, og víðar á svæðinu, eru margar rústir ókannaðar. Allt svæðið er friðað með öllum rústum og mannvirkjum. Í landi Gufuskála, á svokölluðum Gufuskálamóðum, var gerður flugvöllur árið 1945. Þaðan var áætlunarflug í rúman áratug, þar til vegasamband komst á fyrir Jökul. Um Gufuskálamóður fellur Móðulækur. Hann getur orðið býsna vatnsmikill þegar miklar leysingar eru í Snæfellsjökli.

Lóranstöð var reist árið 1959 og rekin af Pósti og síma til ársloka 1994. Nú er þar langbylgjustöð Ríkisútvarpsins og mastrið sem nú er næsthæsta, en lengi var hæsta mannvirki í Evrópu, 412 m. Það er notað fyrir sendingar stöðvarinnar, sem sendir út á 189 kHz. Frá 1970 hefur verið þar veðurathugunarstöð.

Árið 1997 fengu Slysavarnarfélag Íslands og Landsbjörg Gufuskála til afnota fyrir þjálfunarbúðir við leit og björgun. Árið 1999 hófst þar eiginleg starfsemi félaganna, sem voru um það leyti sameinuð í ein samtök undir nafninu: “Slysavarnafélagið Landsbjörg”. Miklar breytingar og lagfæringar hafa átt sér stað á húsnæði og aðstöðu til að mæta kröfum um alhliða þjálfunaraðstöðu. Aðstaðan er nú mjög góð. Þar eru tvær velbúnar kennslustofur, setustofa, útiæfingasvæði fyrir alhliða þjálfun og tvær samtals 30 manna svefnpokaíbúðir. Þar er einnig 70 manna matsalur með setustofu auk gistirýmis í 8 fullbúnum íbúðum fyrir samtals 60 manns.

Þjálfunarbúðirnar eru notaðar af björgunarsveitum samtakanna, kvenna- og unglingadeildum, Björgunarskólanum, lögreglu og slökkviliðum. Jafnframt gefst félagsmönnum kostur á að leigja orlofsíbúðir, þegar laust er, ýmist eina helgi eða viku í senn. Auk þess er útivistarskóli samtakanna staðsettur á Gufuskálum yfir sumartímann, en hann er ætlaður ungu fólki með áhuga á útivist og fjallamennsku og þá eru þeim einnig kennd hin fjölmörgu undirstöðuatriði björgunarstarfa til sjós og lands.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Gufuskála er getið í fornbréfasafninu árið 1274. Lengi var tvíbýli á Gufuskálum og átti konungur annan helming og kirkjan á Staðastað hinn helminginn. Á báðum helmingunum voru þurrabúðir og er talið að þær hafi verið allt að átta. Á 15. öld voru allt að 14 búðir á Gufuskálum og mátti hver hafa eitt skip. Lendingarnar á Gufuskálum þóttu hættulegar vegna brims. Síðasti ábúandinn á Gufuskálum var Elínborg Þorbjarnardóttir en hún bjó á Gufuskálum til 1948 og komst þá jörðin í eigu ríkissjóðs. Árið 1950 var gerður flugvöllur á Gufuskálamóðum en hann er nú aflagður. Árin 1959 var byggð þar lóran fjarskiptastöð sem nú er aflögð. [1]

Nýlegar framkvæmdir á Gufuskálum[breyta | breyta frumkóða]

 • 1959 er hafin bygging Loran-A stöðvar á Gufuskálum með 183 metra háu mastri. Landið hafði verið tekið eignarnámi í þessum tilgangi árið 1955. Sendingarnar voru á miðbylgju á tíðnunum 1.850 og 1.950 kHz, öldulengd 158 metrar og gögnuðust við staðarákvörðun skipa og flugvéla, sem höfðu Loran-A viðtæki.[2] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1963 var Lóranstöðin á Gufusskálum aukin og efld með 412 metra háu mastri og byggingu Loran-C stöðvar, sem sendi á langbylgju á tíðninni 100 kHz, öldulengd 3000 metrar, og gefur miklu nákvæmari staðarákvörðun en þær Loran-A sendingar, sem fyrir voru. Hvatinn á tímum kaldastríðsins var þörf kafbáta fyrir nákvæma staðsetningu við uppskot Polaris eldflauga með kjarnaodda, sem síðan reyndi ekki á. Sendingarnar gögnuðust einnig til mun nákvæmari staðarákvörðunar skipa og flugvéla, sem höfðu Loran-C viðtæki. Er á leið og viðtökutæki voru orðin lítil og ódýrari, var ekkert fiskað á togurum án lóransins.[3][4][5] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1994 Slökkt á Loran-C sendingum á Gufuskálum í árslok og mastrið látið Ríkisútvarpinu í té til afnota fyrir útvarpssendingar á langbylgju. GPS staðsetningartæknin tekin við.
 • 1997 Langbylgjusendir Ríkisútvarpsins á Gufuskálum, 300 kW að afli á tíðninni 189 kHz, öldulengd 1587 metrar, gangsettur. Sendingum hans ná sjómenn á öllum miðum, frá Smugunni í austri til Flæmska hattsins í vestri.[6] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1997 Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg fengu aðstöðu á Gufuskálum til afnota fyrir þjálfunarbúðir við leit og björgun[7].
 • 1999 Eiginleg starfsemi félaganna hefst á Gufuskálum með opnun björgunarskóla. Um svipað leyti voru þau sameinuð í ein samtök Slysavarnarfélagið Landsbjörg.[8][9][10] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 2013 Landsbjörg kveður björgunarsvæðið á Gufuskálum. Ljósar höfðu verið af blaða­skrifum ýmsar hræringar er snertu m.a. afstöðu til björgunar­skólans.[11]

Gufuskálaland er innan landamerkja Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Fornleifakönnun á verbúðarleifum á Gufuskálum, Snæfellsnesi (Fornleifastofnun Íslands, 2009)
 2. „Loranstöð reist í Gufuskálalandi í vor“. Vísir. mars 1959. Sótt 8. feb. 2021.
 3. „Landssíminn rekur lóranstöðvarnar á Gufuskálum“. Tíminn. nóv. 1961. Sótt 8. feb. 2021.
 4. „Loranstöðin á Gufuskálum aukin og efld“. Þjóðviljinn. janúar 1963. Sótt 8. feb. 2021.
 5. „TEXAS karlar innan um „vonda fólkið,". Vísir. júlí 1963. Sótt 8. feb. 2021.
 6. „Almenningur hvattur til að eiga langbylgjuútvarp“. Morgunblaðið. september 1997. Sótt 8. feb. 2021.
 7. „Mannvirki á Gufuskálum fá nýtt hlutverk“. Morgunblaðið. mai 1998. Sótt 8. feb. 2021.
 8. „Öflugur björgunarskóli á heimsmælikvarða“. Skessuhorn. september 1999. Sótt 8. feb. 2021.
 9. „Björgunarskólinn á Gufuskálum tekinn til starfa. Vekur athygli“. Skessuhorn. nóvember 1999. Sótt 8. feb. 2021.
 10. „Slysavarnarskólinn Gufuskálum“. Sveitarstjórnamál. maí 2002. Sótt 8. feb. 2021.
 11. „Landsbjörg kveður björgunarsvæðið á Gufuskálum“. Skessuhorn. október 2013. Sótt 8. feb. 2021.