Elínborg Þorbjarnardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Elínborg Þorbjarnardóttir (1860–1947), fullu nafni Þuríður Elínborg Þorbjarnardóttir, var húsfreyja á Gufuskálum

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Elínborg var fædd á Broddanesi í Strandasýslu 9. mars 1860. Hún var dóttir Sólborgar Sigurðardóttur og Þorbjörns Oddssonar.

Ung fluttist Elínborg vestur á Snæfellsnes, giftist þar árið 1897 Sæmundi Guðmundssyni. Þau byrjuðu búskap að Görðum, en fluttu ári síðar að Gufuskálum og bjuggu þar myndarbúi til ársins 1914, er Sæmundur drukknaði í róðri ásamt tveimur fóstursonum og vinnumanni.

Með 6 börn og eitt fósturbarn bjó hún á Gufuskálum til ársins 1941, er hún flutti til Reykjavíkur til dóttur sinnar Ásthildar.

Landnáma segir um Ketil gufu: „Ketill tók Rosmhvalanes; sat hinn fyrsta vetur að Gufuskálum.“ (Hinar mörgu „gufur“ hér á landi, hafa vakið spurningar um hvor séu upprunalegri, mannsnöfnin eða örnefnin)

Munnmæli segja að á Gufuskálum séu gömul álög allt frá landnámstíð. Þar á að hafa numið land kona sú er Gufa hét, hún átti tvo sonu, duglega til sóknar, en missti báða í sjóinn, einn og sama dag. Þá reiddist Gufa sjónum og landinu og kvað svo á að 20 bátar skyldu farast frá Gufuskálum og menn ekki mega bjargast. Víst er að óvenju margir skipskaðar hafa þar orðið.

1914 Sæmundur Guðmundsson eiginmaður Elínborgar drukknaði í róðri ásamt tveimur fóstursonum og vinnumanni.

1931 Gaf Elínborg út pésa lítinn, prentaðan, sem hét „Gufuskálar.“ Þar segir hún um missi manns síns m.a.:

„Þessi missir minn nam mér djúpt í hjarta,“  

Í krafti kærleikans og miskunnseminnar er þetta bæn mín:“

   „Þú hinn voldugi herra hafs og lands, Drottinn allsherjar, blessa þú hafið og ströndina fyrir Gufuskálalandi, svo enginn, sem héðan leitar á sjóinn verði fyrir grandi, né neinn sá er leitar hér lands af sjónum farist, heldur læg þú öldurnar og stjórna hinu veika fleyi, lát engar bölbænir veikja hugi þeirra sem á hafið leita, heldur gef að þeir treysti þér einum og reiði sig á kraft þinn. Þín blessun hvíli yfir hverjum kima og hverjum tanga landsins, yfir hafinu og þeim sem á jörðinni búa nú og framvegis, meðan land er byggt.

1942 skrifar Dr. Þorkell Jóhannesson í Andvara greinina „Þúsund ár“ m.a. um heimsókn sína til Elínborgar á Gufuskálum.[1]

1947 Elínborg Þorbjarnardóttir lést 4. ágúst, 87 ára að aldri.

1986 Bautasteinn Elínborgar Þorbjarnardóttur húsfreyju að Gufuskálum, Snæfellsnesi, afhjúpaður á sjómannadaginn. Sæbarinn steinn úr hennar landareign, sem nokkrar konur úr Slysavarnardeild kvenna á Hellissandi ákváðu að reisa við Gufuskálavör.[2][3]

Missir Elínborgar nam henni djúpt í hjarta. Dr. Þorkell Jóhannesson segir um hana í grein sinni "Þúsund ár" í Andvara árið 1942:

Hún er snoturlega búin, að nokkuð fornum hætti. Fas hennar allt ber glöggan vott um að, að hún er vön að stjórna og láta vilja sínum framgengt verða, ekki mjög gjarnt að sinna undanbrögðum eða andmælum, húsfreyja í orðsins fornu og veglegu merkingu.”

Nýlegar framkvæmdir á Gufuskálum[breyta | breyta frumkóða]

Eftir daga Elínborgar verða nokkrar framkvæmdir á Gufuskálum, þar á meðal:

 • 1959 er hafin bygging Loran-A stöðvar á Gufuskálum með 183 metra háu mastri. Landið hafði verið tekið eignarnámi í þessum tilgangi árið 1955. Sendingarnar voru á miðbylgju á tíðnunum 1.850 og 1.950 kHz, öldulengd 158 metrar og gögnuðust við staðarákvörðun skipa og flugvéla, sem höfðu Loran-A viðtæki.[4] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1963 var Lóranstöðin á Gufusskálum aukin og efld með 412 metra háu mastri og byggingu Loran-C stöðvar, sem sendi á langbylgju á tíðninni 100 kHz, öldulengd 3000 metrar, og gefur miklu nákvæmari staðarákvörðun en þær Loran-A sendingar, sem fyrir voru. Hvatinn á tímum kaldastríðsins var þörf kafbáta fyrir nákvæma staðsetningu við uppskot Polaris eldflauga með kjarnaodda, sem síðan reyndi ekki á. Sendingarnar gögnuðust einnig til mun nákvæmari staðarákvörðunar skipa og flugvéla, sem höfðu Loran-C viðtæki. Er á leið og viðtökutæki voru orðin lítil og ódýrari, var ekkert fiskað á togurum án lóransins.[5][6][7] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1994 Slökkt á Loran-C sendingum á Gufuskálum í árslok og mastrið látið Ríkisútvarpinu í té til afnota fyrir útvarpssendingar á langbylgju. GPS staðsetningartæknin tekin við.
 • 1997 Langbylgjusendir Ríkisútvarpsins á Gufuskálum, 300 kW að afli á tíðninni 189 kHz, öldulengd 1587 metrar, gangsettur. Sendingum hans ná sjómenn á öllum miðum, frá Smugunni í austri til Flæmska hattsins í vestri.[8] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 1997 Slysavarnafélag Íslands og Landsbjörg fengu aðstöðu á Gufuskálum til afnota fyrir þjálfunarbúðir við leit og björgun[9].
 • 1999 Eiginleg starfsemi félaganna hefst á Gufuskálum með opnun björgunarskóla. Um svipað leyti voru þau sameinuð í ein samtök Slysavarnarfélagið Landsbjörg.[10][11][12] Öryggi sjómanna naut góðs af.
 • 2013 Landsbjörg kveður björgunarsvæðið á Gufuskálum. Ljósar höfðu verið af blaða­skrifum ýmsar hræringar er snertu m.a. afstöðu til björgunar­skólans.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Dr. Þorkell Jóhannesson (janúar 1942). „Þúsund ár“. Andvari. Sótt 8. feb. 2021.
 2. Svandís Elímundardóttir (apríl 1987). „Afhjúpun bautasteins Elínborgar Þorbjarnardóttur“. Breiðfirðingur. Sótt 8. feb. 2021.
 3. Jón Karl Helgason (ágúst 1987). „Tvennir tímar undir Jökli“. Vikan. Sótt 8. feb. 2012.
 4. „Loranstöð reist í Gufuskálalandi í vor“. Vísir. mars 1959. Sótt 8. feb. 2021.
 5. „Landssíminn rekur lóranstöðvarnar á Gufuskálum“. Tíminn. nóv. 1961. Sótt 8. feb. 2021.
 6. „Loranstöðin á Gufuskálum aukin og efld“. Þjóðviljinn. janúar 1963. Sótt 8. feb. 2021.
 7. „TEXAS karlar innan um „vonda fólkið,““. Vísir. júlí 1963. Sótt 8. feb. 2021.
 8. „Almenningur hvattur til að eiga langbylgjuútvarp“. Morgunblaðið. september 1997. Sótt 8. feb. 2021.
 9. „Mannvirki á Gufuskálum fá nýtt hlutverk“. Morgunblaðið. mai 1998. Sótt 8. feb. 2021.
 10. „Öflugur björgunarskóli á heimsmælikvarða“. Skessuhorn. september 1999. Sótt 8. feb. 2021.
 11. „Björgunarskólinn á Gufuskálum tekinn til starfa. Vekur athygli“. Skessuhorn. nóvember 1999. Sótt 8. feb. 2021.
 12. „Slysavarnarskólinn Gufuskálum“. Sveitarstjórnamál. maí 2002. Sótt 8. feb. 2021.
 13. „Landsbjörg kveður björgunarsvæðið á Gufuskálum“. Skessuhorn. október 2013. Sótt 8. feb. 2021.