Fara í innihald

Gotneskt rokk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gotneskt rokk er undirstefna sem myndaðist út frá síð-pönkinu á Englandi í lok áttunda áratugarins. Síð-pönk þróaðist hins vegar út frá pönkstefnunni sem hóf innreið sína í Englandi um 1976. Gotneskt rokk gat af sér gotneska menningarkimann en hann má einnig rekja út frá pönkmenningunni. Gotnesk tónlist var áberandi á Englandi í lok áttunda áratugarins með komu hljómsveita á borð við Bauhaus, Siouxsie and the Banshees og UK Decay. Í Bandaríkjunum þróaðist stefnan aðeins seinna. Miðað er við að hún hafi þróast út frá dauða-metal en hljómsveitin Christian Death frá Los Angeles mun hafa verið með þeim fyrstu til að spila í anda gotneskrar tónlistar í Ameríku. Efnið sem verður farið yfir í þessari grein er tónlistarstefnan og tískan sem finnst í gotneskum hljómsveitum. Síðan verður farið í fyrirrennara og áhrifavalda gothsins.

Gotneska tónlistarstefnan

[breyta | breyta frumkóða]

Enginn veit í rauninni út á hvað nútíma gotneski menningarkiminn eða gotneska tónlistin gengur en óhætt er að segja að náið samband sé á milli þeirra. Margir vilja meina að gotnesk tónlist fjalli einungis um einmanaleika og dauðann, sé almennt niðurdrepandi og yfirborðskennd.[heimild vantar] Tónlistin eigi að endurspegla menningarkimann og hvernig fólk í honum almennt hagi sér.[heimild vantar] Þeir séu að boða neikvæðan og spilltan boðskap til ungmenna samfélagsins.[heimild vantar] Þetta er algengur misskilningur fyrir leikmenn sem ekki eru búnir að kynna sér menningarkimann né skilja hann. Þótt að gotneskar hljómsveitir og gotneskir hópar taki dökku hliðar lífsins fram yfir þær björtu þá þýðir það ekki að þeir séu hlynntir ofbeldi, upplausn eða öðrum neikvæðum hlutum. Gotharar eiga til með að lýsa tónlistarstefnu sinni sem töfrandi, dulspekilegri, fullri af ástríðu og hinu góða, einnig erótískri og mjög skapandi.[heimild vantar] Í henni er einnig að finna hrollvekju, ofbeldi, hið illa, sársauka og geðraskanir. Gotneski menningarkiminn sér hið fagra í heiminum þar sem venjulegt fólk sér það yfirleitt ekki. Fólkið í honum aðhyllast hinar ýmsu bókmenntir, hrollvekjur, ljóð, gamla tísku sem rekja má allt til Viktoríu Bretadrottningar. Þau vilja almennt myrkrið, þögnina og það sem öðruvísi er.[1] Hins vegar gengur gothic líka út á að hafa gaman, svartan húmor, gera í því að vera öðruvísi, jafnvel hneyksla fólk viljandi.[2] Allt þetta er hægt að sjá í tónlistinni þeirra. Þetta er þeirra stíll og list. Í sjálfu sér er ófullnægjandi að segja að gothic sé einungis listform, það er í rauninni hugarástand.[3]

Upphaf og þróun

[breyta | breyta frumkóða]

Gotneska tónlistarstefnan kemur frá pönk-stefnunni í lok áttunda áratugar seinustu aldar og vilja margir halda því fram að gotneska tónlistin sé dökka hlið pönksins.[4] Gotneska stefnan var samt ekki til á einum degi. Á mið-áttunda áratuginum voru miklar umbyltingar í tónlist hvað varðar hugmyndafræði, pólitík og samfélagið. Þetta var aðalefni flestra pönkhljómsveita eins og til dæmis Sex Pistols, Clash og The Damned. Seinna leit post-pönkið dagsins ljós sem var öðruvísi en upprunalega pönkið að því leyti að það var meira á tilraunastigi og aðhylltist einstaklingshyggju og sjálfsskoðun. Innan frá síð-pönkinu byrjaði síðan ný tegund tónlistar að heyrast. Yfirbragð þeirrar tónlistar var drungalegri og dularfyllri. Þær hljómsveitir sem spiluðu þessa drungalegu tónlist sem einkenndist einnig af tómhyggju og mannhatri,[5] urðu svokallaðar positive-pönksveitir, eða posi-pönkarar, en þetta voru hljómsveitir á borð við Siouxsie and the Banshees, Bauhaus, U.K. Decay og Joy Division. Þetta var fyrsta kynslóð gotneskra hljómsveita sem brutust út á Englandi en reyndar byrjuðu ekki allar gotneskar hljómsveitir sem gotneskar hljómsveitir. Þær áttu rætur að rekja í pönkið. Til dæmis var Siouxsie Sioux í The Banshees fyrst pönkari og færðist síðan út í gotneskan stíl, eða eins og það kallaðist þá, positive-punk. Positive-pönk sveitirnar fengu ekki gothic heitið fyrr en í byrjun níunda áratugarins.[6]

Önnur bylgjan eða önnur kynslóð gotneskra tónlistarmanna birtist í byrjun níunda áratugarins og þá byrjaði stefnan að festa rætur í Bandaríkjunum. Önnur kynslóð gotneskra hljómsveita eru til dæmis The Sisters of Mercy og Christian Death. Á þessum tíma voru gotharar komnir verulega á skrið ásamt því að búa til hinar ýmsu undirstefnur í tónlistinni.[7]

Á Íslandi þróaðist pönk í mörgum tilfellum út í síð-pönk og jafnvel gotneskt rokk. Þeyr og Q4U voru tvær hljómsveitir sem báru ýmis einkenni gotneska rokksins. Þær fjölluðu um himnaríki og helvíti, dulmögn og annað í þeim anda.

Tónlistarstíll

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og kemur fram hér á undan þá bættust við óhugnarlegri tónar og dularfull hljóð við tónlistina í síð-pönkinu og þar með birtust fyrstu gothararnir með nýja tegund af tónlist. Jafnvel má segja að gotnesk tónlist sé í sínu almennasta formi blanda af pönk rokki, indie-rokk eða sjálfstætt rokk og nýbylgjutónlist.[8] Almennt er hljómurinn í gotneskri tónlist þungbær og holur, samt ber að taka þessum lýsingum með fyrirvara þar sem undantekningar finnast. Algengustu hljóðfærin sem gotneskar hljómsveitir nota eru trommur, gítar, bassi, hljóðgervill og svo er söngvari. Hljóðgervillinn spilar oft mikilvægt hlutverk í gotneskri tónlist. Hann er af og til notaður og hljómar hann kaldrifjaður og fjarlægur. Söngurinn í lögunum á til með að vera annað hvort mjög djúpur og seiðandi eða hár og er undirspilið oft melídískt og nístandi gítarspil. Nánast alltaf er þetta síðan stutt af þungum og taktföstum trommuslætti. Varast skal að rugla gotneskri tónlist við harðkjarnarokk, Shock rock og dauða-metal.[9]

Þungamiðja tónlistarstefnunnar er án efa textarnir og söngurinn. Textarnir eru yfirleitt mjög ljóðrænir, geta snert mann djúpt og verið mjög áhrifaríkir. Þeir geta einnig verið blygðunarlausir og þungbúnir.[10] Margar hljómsveitir sóttu oft innblástur í textana sína úr ljóðum og bókmenntum eftir höfunda á borð við Edgar Allan Poe og H. P. Lovecraft en þeir voru vinsælir hrollvekjuhöfundar og skrifuðu margar gotneskar bækur. En þrátt fyrir að textarnir geti verið þunglyndir og þungir þá getur tónlistarspilið verið líflegt og fjörugt.

Útlit og klæðnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Eitt af því augljósasta við gotneskar hljómsveitir, bæði í fyrr og nú, er útlitið og klæðnaðurinn. Fyrstu gothararnir, skáru sig ekki algjörlega úr pönkinu hvað varðar klæðaburð þar sem þeim líkaði við stíl pönkaranna. Þeir voru til dæmis í svörtum rifnum tættum fötum og líka með svipaðar hárgreiðslur sem pönkararnir voru með, til dæmis broddagreiðsluna og hanakambinn. Gotharar bættu síðan við þetta dekkra útliti.

Seinna, þegar hinar ýmsu undirstefnur innan gotneskrar tónlistar fóru að líta dagsins ljós, þá þróaðist útlitið og klæðaburðurinn. Yfirleitt er hver gotnesk undirstefna með sitt útlit og má segja að útlitið og tónlistin endurspegli hvort annað. Til að mynda eru þeir sem klæða sig í anda gotnseska framtíðar- og tæknistílinn (enska. cyber goth) yfirleitt að spila industrial gothic rock.[11]

Í dag er að finna allskonar gotneskan klæðaburð bæði í menningarkimanum almennt og hjá hljómsveitum. Sumir klæðast gotneska-pönkstílnum, aðrir klæðast fötum sem voru vinsæl á Viktoríutímabilinu á 19. öld. Það er klæðnaður eins og lífstykki, blúndukjólar, gamaldags jakkaföt og pípuhattar svo eitthvað sé nefnt. Aðrir klæða sig upp eins og dúkkur og aðrir eins og vampírur. Andlitsmálning spilar stórt hlutverk hjá menningarkimanum jafnt sem hljómsveitunum. Sumir mála sig ótrúlega mikið á meðan aðrir láta sér duga svartar augnlínur.[12]

Undanfari og áhrifavaldar

[breyta | breyta frumkóða]

Bæði gotneski menningarkiminn og gotnesku hljómsveitirnar sem tileinka sér hugmyndafræðina, klæðnaðinn eða almennt stíl gothsins, eru í rauninni að fylgja stefnum, listaverkum og stílum sem má rekja allt til 17.aldar. Hrollvekjumyndir á borð við Nosferatu frá 1922 og Dracula frá 1931, óhugnalegu ritverk Edgar Allan Poe og H. P. Lovecraft, tónlist Johann Sebastian Bach í sýningunni Phantom of the Opera og sýningin Faust, allt eru þetta dæmi um listaverk sem áttu sinn hlut í að móta þá hugmyndafræði, stíl, texta og framkomu hinna mörgu hljómsveita og fólk sem kallar sig Goth.[13] Listformið sem Goth-tónlistin notast oft við, sem kemur meðal annars frá fyrrnefndum listaverkum og listamönnum, kallast Macabre, á frönsku La Danse Macabre og á ensku Dance of Death. Listformið á að sýna að Dauðinn hangir yfir okkur öllum stundum og á öllum stöðum og tekur þar á meðal á sig hin mismunandi form. Við verðum að gæta okkar því hann getur verið hvar sem er og hvenær sem er. Þau listaverk sem notast við Macabre eru oftar en ekki óhugnaleg, drungaleg og jafnvel óþægileg ásjónu, hvort sem það eru leiksýningar eða eitthvað annað. Yfirleitt þegar notast er við Macabre-stílinn þá er oftast beinagrind dansandi og tælandi mennina til sín til þess að segja þeim að þeirra tími sé kominn. Yfirleitt er þetta hástéttarfólk eins og prestar, klerkar og lögmenn.[14] Annað hugtak sem tileinkað er listamönnum sem notast við Macabre er avant-garde en það merkir það þegar einhver notast við nýjungar í listaverkum, svo sem tónlist þar sem mikil óhljóð myndast og ekki er hægt að kalla tónlist, og brýtur þær hefðbundu reglur sem hafa verið til staðar.

Avant-garde tónskáld

[breyta | breyta frumkóða]

Dæmi um avant-garde tónskáld er Franz Liszt sem hafði mikil áhrif á goth-stefnuna með tónverkum sínum sem fjölluðu oft um dauðann og djöfulinn. Hann samdi tónverkið Faust árið 1861 en það fjallar einmitt um mann einn sem gerir samning við Satan um að selja honum sál sína. Seinna meir var talið að Liszt sjálfur hefði verið undir áhrifum frá djöflinum sem á að hafa gefið honum innblástur til að semja tónlistina sína.[15]

Þann sem hægt er að kalla hið mesta gotneskta skáld fyrri tíma er hið franska avant-garde tónskáld Hector Berlioz. Byltingarkennda og nýtískulega verk hans, Symphonie Fantastique sem hann samdi 1930, einkennist algjörlega af Macabre listforminu og var mjög umdeilt á sínum tíma. Verkið er um ungan pilt sem er yfir sig ástanginn af stúlku einni. En eftir mikla ópíumneyslu sofnar pilturinn og dreymir að hann drepi ástina sína og er eftir það leiddur til aftökunar fyrir glæp sinn. Verkinu er lýst sem satanísku og vekur hjá manni óþægilegar tilfinningar.[16]

Það sem einkennir einnig avant-garde tónskáldin Berioz og Liszt var að þeir bjuggu til hávaða í tónlistinni sinni og allskyns önnur óhugnaleg og dularfull óhljóð. Þessi tegund tónlistar hafði ekki einungis áhrif á gotneska tónlistarmenn heldur einnig á kvikmyndaiðnaðinn. Til að mynda er kvikmyndin The Exorcist frá 1973 full af dularfullum og ógnvekjandi hljóðum sem eru í anda tónlistar þeirra Liszt og Berlioz.

Rokk og popp

[breyta | breyta frumkóða]

Sá sem stundum er nefndur upphafsmaður gotneska rokksins mun vera Screamin´ Jay Hawkins. Hann var blökkumaður frá Bandaríkjunum sem fékk innblástur frá blues tónlistinni. Hann blandaði saman niðurdregnum textum úr blús og tónlistarstíl rokksins og var mjög vinsæll á sjötta áratug seinustu aldar. Þótt hann væri rokkari þá voru textarnir hans ekki þess legir. Þeir vitnuðu oft í hrollvekjusögur og byrjaði Hawkins oft sýningar sínar á því að rísa hægt og ógnvekjandi upp úr líkkistu, eins og í Nosferatu 1922, og kom yfirleitt fram á svið sem vúdú-galdralæknir. Hann er best þekktur fyrir lagið I put a spell on you.[17]

Englendingar aðhylltust líka þessa hrollvekjustefnu í tónlist en David Edward Sutch var þeirra svar gegn Hawkins. David kom fram sem Screaming Lord Sutch og klæddist eins og Jack the Ripper en hann er einna þekktastur fyrir samnefnt lag sem kom út 1963. Hann notaðist við líkkistur eins og Hawkins og kuldalegan hlátur.[18] Aðrir listamenn sem mikil áhrif höfðu á gotneskar hljómsveitir og gotneska stílinn eru til dæmis David Bowie, The Doors og Velvet Underground en hjá þessum listamönnum og hljómsveitum var að finna gotnesk einkenni í tónlist þeirra sem nútíma gotharar sóttu, og ef til vill sækja enn, innblástur í.[19]


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Platypus (2010).
  2. Kilpatrick (2005): 2.
  3. Kilpatrick (2005): 1.
  4. Kilpatrick (2005): 79.
  5. Gothic Portal (2008)
  6. Scathe (2010).
  7. Alicia Porter Smith (1997).
  8. Knowlegdarush (2009)
  9. Goths for Jesus (2003).
  10. Goths for Jesus (2003).
  11. Platypus (2010).
  12. Platypus (2010).
  13. Baddeley (2002) :159.
  14. Kilpatrick (2005): 223.
  15. Baddeley (2002): 160-161.
  16. Baddeley (2002): 161.
  17. Baddeley (2002): 162.
  18. Baddeley (2002): 164-165.
  19. Scathe (2010).
  • Baddeley, Gavin (2002). Goth Chic, A connoisseur's guide to dark culture. Plexus Publishing Limited.
  • Kilpatrick, Nancy (2005). The Goth Bible, A compendium for the darkly inclined. Plexus Publishing Limited.