Kobbi kviðrista
Kobbi kviðrista (enska: Jack the Ripper) er viðurnefni á óþekktum raðmorðingja sem talið er að hafi verið á ferli í fátækrahverfum Whitechapel-hverfis í London árið 1888. Nafnið „Jack the Ripper“ kom úr bréfi til fjölmiðla frá sendanda sem sagðist vera morðinginn og fékk mikla umfjöllun í dagblöðum. Nú er almennt talið að bréfið hafi verið blekking og að fjölmiðlar hafi hugsanlega skrifað það sjálfir til að auka áhuga á umfjölluninni og sölu blaðanna. Morðinginn var kallaður „Whitechapel-morðinginn“ og „Leðursvuntan“ í rannsóknargögnum lögreglunnar og í umfjöllun fjölmiðla í byrjun.
Morðin sem eignuð eru Kobba kviðristu voru flest á vændiskonum sem bjuggu og unnu í austurhluta London og voru skornar á háls og á kvið. Þar sem líffærum hafði verið stolið úr a.m.k. þremur fórnarlambanna fóru tilgátur á kreik um að morðinginn væri læknir eða skurðlæknir að mennt. Orðrómur um að morðin tengdust varð ákafari í september og október árið 1888 þegar lögreglan og fjölmiðlar fengu bréf frá manni sem sagðist vera morðinginn. Bréf merkt „frá helvíti“ barst George Lusk, forseta sjálfboðavarðsveitar í Whitechapel, og með því fylgdi hálft nýra úr manneskju sem átti að vera úr einu fórnarlambinu. Almenningur fór í síauknum mæli að trúa því að einn raðmorðingi undir nafninu „Kobbi kviðrista“ stæði að baki Whitechapel-morðunum, bæði vegna þess hve illyrmisleg morðin voru og hvernig fjölmiðlarnir fjölluðu um þau.
Dagblaðaumfjöllunin um morðin gerði Kobba kviðristu alræmdan á alþjóðavísu og eins konar goðsögn sem lifir enn góðu lífi myndaðist í kring um þessa dularfullu persónu. Lögreglurannsókn á ellefu morðum í Whitechapel til ársins 1891 tókst ekki að tengja öll drápin afdráttarlaust við morð ársins 1888. Fimm fórnarlömb – þær Mary Ann Nichols, Annie Chapman, Elizabeth Stride, Catherine Eddowes og Mary Jane Kelly – sem drepnar voru frá 31. ágúst til 9. nóvember 1888 eru yfirleitt taldar hafa orðið fyrir barðinu á sama morðingjanum. Fyrstu fjórar vændiskonurnar drap morðinginn á götum úti en þá síðustu á heimili hennar. Sökum þess var hún verst farin og talið er að ástæðan sé sú að morðinginn hafði meiri tíma og næði til að svívirða hana en þær fyrri.
Morðgátan hefur aldrei verið leyst og sögurnar sem myndast hafa í kringum hana eiga meira skylt við flökkusögur, samsæriskenningar og getgátur en við sagnfræði. Upp hefur komið fjöldi kenninga um nafn og ásetning morðingjans og kenningar hafa jafnvel tengt meðlimi bresku krúnunnar við morðin. Líklegast er talið að þetta hafi verið almúgamaður sem enginn tók eftir í hverfi þar sem glæpamenn og vændiskonur héldu til. Engin sönnunargögn hafa varðveist til þessa dags.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Jack the Ripper“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. september 2017.