Fara í innihald

Glacier-þjóðgarðurinn (Bandaríkin)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort.
George Grinnell.
Going to the sun-vegurinn í byggingu.
Bird Woman Falls.
St. Mary Lake.
Many Glacier-hótelið, byggt 1914, við Swiftcurrent-vatn.

Glacier-þjóðgarðurinn (enska: Glacier National Park) er þjóðgarður í bandaríska fylkinu Montana. Þjóðgarðurinn er yfir 4000 ferkíómetrar að stærð og á landamæri að kanadísku fylkunum Alberta (Waterton Lakes National Park) og Bresku-Kólumbíu (Akamina-Kishinena Provincial Park). Flathead Provincial Forest er vestur af þjóðgarðinum og verndarsvæði Blackfeet-frumbyggja austur af honum.

Áður en Evrópumenn komu á svæðið voru Blackfeet-frumbyggjar þar í austri og Flathead-frumbyggjar í vestri. Árið 1891 var lestarleiðin Great Northern Railway lögð um svæðið og var við mörk þess. Árið 1895 gáfu Blackfeet-frumbyggjar undan þrýstingi og létu eftir land á svæðinu en fengu veiðiréttindi og peningasummu fyrir. Veiðiréttindum var síðar breytt sem leiddi til ósættis meðal Blackfeet-frumbyggja og stjórnvalda. Þjóðgarðurinn sjálfur var stofnaður árið 1910 og var hvatamaður þess mannfræðingurinn og könnuðurinn George Grinnell. Þónokkur hótel og gististaðir voru byggðir milli áranna 1910 og 1914 og eru sumir þeirra taldir til verndaðra menningarverðmæta. Vegurinn Going-to-the-Sun Road, sem kláraður var 1932, veitti meira aðgengi að þjóðgarðinum.

Fjallalandslag þjóðgarðins ber keim af því hvernig jöklar móta landslag, skera fjöll og mynda U-laga dali. Um miðja 19. öld eru jöklar taldir hafa verið um 150 en í dag eru þeir um 25 talsins. Hæsta fjall Glacier national park er Mount Cleveland (3190 m.). Hæsti fossinn þar er Bird Woman Falls sem fellur 150 metra. Á austurmörkum þjóðgarðsins stendur fjall eitt og sér Chief Mountain upp úr Sléttunum miklu.

Af spendýralífi svæðisins getur að nefna: Brúnbjörn, elg, klettafjallageit og jarfa. Af trjám eru blágreni,degli, fjallaþinur og risalerki algeng. Í suðvesturhorni þjóðgarðsins vaxa risalífviður og fjallaþöll og er það austasta útbreiðsla þeirra tegunda. Skógareldar eru sjaldgæfir en árið 2003 urðu þó 13% þjóðgarðsins fyrir eldum.

Höfuðstöðvar þjóðgarðsins eru við staðinn West Glacier. Þjóðgarður með sama nafni er í Bresku Kólumbíu, Kanada: Glacier National Park.

Fyrirmynd greinarinnar var „Glacier National Park (U.S.)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. des. 2016.