Giovanni Pierluigi da Palestrina

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Giovanni Pierluigi da Palestrina (fæddur einhverntíma á tímabilinu 3. febrúar 1525 - 2. febrúar 1526, látinn 2. febrúar 1594) var ítalskt tónskáld, sem var uppi á endurreisnartímanum. Hann var ásamt þeim Orlande de Lassus og William Byrd eitt af mestu tónskáldum á seinni hluta 16. aldar. Palestrina var einn af fulltrúum rómverska skólans í tónlist, afkastamikið messu- og mótettutónskáld en samdi einnig nokkuð af madrígölum. Hápunktur verka hans er þó í messunum. Hann hafði mikil áhrif á þróun kaþólskrar kirkjutónlistar og oft er litið á verk hans sem fáguðustu fyrirmynd pólyfóníu endurreisnartímabilsins.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Giovanni Pierluigi da Palestrina

Giovanni Pierluigi fæddist í bænum Palestrina, skammt frá Róm og tók síðar upp nafn borgarinnar og kallaðist Giovanni Pierluigi da Palestrina. Fyrstu tónlistarmenntun sína hlaut hann í Róm. Árið 1537 var hann kórdrengur í Santa Maria Maggiore (Stóru Maríukirkjunni) í Róm, m.a. undir handleiðslu Giacomo Coppola, eins af söngvurunum í kirkjunni. Ekki er vitað hvað hann var þar lengi. 28. október árið 1544 fékk hann stöðu organista í dómkirkju heimabæjar síns, Palestrina. Þar lék hann á orgel og kenndi tónlist. Í þessari stöðu var hann til ársins 1551. Lítið er vitað um ævi hans á þessu tímabili, annað en að hann kvæntist Lucreziu Dori þann 12. júní 1547. Þau eignuðust börnin Rodolfo, Angelo og Iginio.

1. september 1551 varð Palestrina kórstjóri í Júlíusarkapellunni (Cappella Giulia) í Péturskirkjunni í Róm. Á meðan hann starfaði þar gaf hann út fyrstu þekktu messubók sína árið 1554. Messubók þessi var tileinkuð Júlíusi III. páfa, sem hafði verið stuðningsmaður og bakhjarl Palestrina. Sem þakklæti fyrir þessa tileinkun fékk Palestrina inngöngu í Páfakórinn við Sixtínsku kapelluna, þó að hann hafi verið giftur. Hann varð þó að hætta í kórnum árið 1555 þegar nýr páfi tók við völdum og setti reglur um einlífi.

1. október 1555 varð Palestrina kapellumeistari við Jóhannesarkirkju á Lateran (St. John Lateran), en áður hafði Orlande de Lassus gegnt þessari sömu stöðu. Við Jóhannesarkirkjuna starfaði Palestrina til ársins 1560. Árið 1561 fór hann aftur til starfa í Maríukirkjunni, þar sem hann gerðist kórstjóri. Þeirri stöðu gegndi Palestrina í tíu ár, eða til ársins 1571. Á þessu tímabili kom m.a. út önnur messubókin hans og ýmsar mótettubækur.

Um 1570 og áratuginn þar á eftir missti hann tvo syni sína, bróður og eiginkonu úr farsótt sem þá geisaði. Eftir að kona hans lést sneri Palestrina sér að prestsnámi. En átta mánuðum eftir lát eiginkonunnar giftist hann Virginiu Dormoli, ríkri ekkju, og tók að sér að stjórna skinnaverslun hennar, og við það vænkaðist fjárhagur hans nokkuð. Árið 1571 sneri hann aftur til starfa sem kórstjóri í Júlíusarkapellunni, þar sem hann starfaði til dauðadags árið 1594.

Kirkjuþingið í Trent[breyta | breyta frumkóða]

Kirkjuþingið í Trent, sem haldið var á árunum 1545-1563, var einn af stærstu viðburðunum sem vitað er um á ævi Palestrina. Á þessu þingi voru listir ritskoðaðar verulega, meðal annars kirkjutónlist. Mörgum fannst veraldlegar tónsmíðaaðferðir ekki hæfa trúarlegum tónverkum, hljóðfæri væru ofnotuð og fjölröddunin væri svo íburðarmikil að hún skyggði á orð guðsþjónustunnar. Sumir vildu hverfa aftur til einfaldara tónlistarforms, svo sem einradda söngs sem legði áherslu á orðin en ekki tónlistina. Með messu sinni, Missa Papae Marcelli, sem tileinkuð var Marcellus II. páfa, sýndi Palestrina að fjölradda tónlist gæti vel skilað trúarlegum boðskap með nógu miklum skýrleika að kröfu kirkjuþingsins. Sagt er að Palestrina hafi samið messuna sérstaklega fyrir kirkjuþingið. Hvort sem það er satt eða ekki telja margir hann vera „bjargvætt kirkjutónlistar“ með þessu verki.

Tónverk og stíll[breyta | breyta frumkóða]

Sem tónskáld var Palestrina enginn byltingarmaður, heldur samdi hann í hefðbundnum stíl síns tíma. Sem undirstöðu í messurnar notaði hann tónsöngssálma sem hann braut upp í stuttar hendingar í staðinn fyrir að bæta við þá skrautröddum og hljómum eins og áður þekktist. Hann byrjaði oft á einni röd, og hljómar urðu til eftir því sem fleiri raddir bættust við, eins og hjá Bach síðar, en komu ekki fyrir sem sjálfstætt byggingarefni. Sama stefið heyrist í ýmsum röddum eins og þær séu að herma eftir hver annarri. Allar raddirnar eru því jafnmikilvægar, þær líða eðlilega áfram og minna að því leyti á tónlist Ockeghems.

Ekki er vitað um neinar hljóðfæratónsmíðar eftir Palestrina og heldur engin einsöngslög. Tónskáldaferill hans hefst frekar seint miðað við ævihlaup hans, fyrsta þekkta messubókin eftir hann kom út þegar hann var um þrítugt, 1554. Ári síðar kom svo út madrigalabók eftir hann. Á meðan hann var við störf í Jóhannesarkirkjunni komu engar nýjar tónsmíðar út, að undanskildum nokkrum madrigölum í yfirlitsbókum. Frá 1554 til dauðadags voru verk hans gefin út af þremur útgefendum.

Hann var eitt mesta messutónskáld sögunnar og færði messuna yfir í það form sem þekkist í dag, einkum þó í kaþólskum kirkjum. Af 104 messum sem þekktar eru eftir hann voru 43 gefnar út á meðan hann lifði. Mörg atriði í messunum benda til þess að Palestrina hafi samið þær löngu áður en þær voru gefnar út. Flestar þessar messur er erfitt að tímasetja og því er erfitt að raða þeim í tímaröð. Frægasta messa hans er Missa Papae Marcelli, en einnig mætti nefna Missa Aeterna Christi munera og Missa Assumpta est Maria.

Öfugt við messurnar voru flestar mótettur og önnur kirkjuleg verk Palestrina gefnar út á meðan hann lifði. Eftir hann voru gefnar út sjö mótettubækur á árunum 1563-1584, sem bendir til þess að auðveldara hafi verið að gefa út mótettur heldur en messur. Mótettur Palestrina er einnig auðveldara að raða upp í tímaröð heldur en messunum.

Sem madrigalatónskáld er Palestrina oft sagður frekar íhaldssamur og talið er að hann hafi ekki haft mikinn áhuga á breytingum og tilraunum með þetta tónlistarform. Þrátt fyrir það var litið á madrígala hans sem fullgild tónverk.

Rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Tónskáldið og tónfræðingurinn Johann Josep Fux skrásetti stíl Palestrina eftir rannsóknir á honum á 17. og 18. öld. Niðurstöður þeirra eru enn notaðar við kennslu í kontrapunkti. Viðamestu rannsóknirnar á Palestrina fóru fram á 19. öld og var það Giuseppe Baini, prestur, tónskáld og tónlistargagnrýnandi sem hafði frumgöngu af þeim. Baini gaf út fræðirit um Palestrina árið 1828, sem gerði Palestrina aftur frægan og endurvakti goðsögnina um „bjargvætt kirkjutónlistarinnar“. Í þessu fræðiriti er hetjudýrkun 19. aldar áberandi. Þessi hetjuímynd Palestrina hefur haldist að nokkru leyti allt til dagsins í dag. Meðal annars birtist hún í óperu eftir þýska tónskáldið Hans Pfitzner, þar sem Palestrina er aðalsögupersónan.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • John Stanley (1996). Sígild tónlist. Staka ehf. ISBN 9979-844-01-9.
  • Theodór Árnason (1943). Tónsnillingaþættir. Þorleifur Gunnarsson/Steindórsprent.
  • Westberg, Marita og Þorsteinn Thorarensen (ritstj.) (1989). Tónagjöf Fjölva. Fjölvaútgáfan, Reykjavík.
  • „Palestrina, Giovanni Pierluigi da“. Sótt 4. september 2007.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]