Fara í innihald

1. Mósebók

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Genesis)

1. Mósebókgrísku: γένεσις, Genesis; á hebresku בְּרֵאשִׁית Bərēšīṯ ("í upphafi"), á latínu Genesis) er fyrsti hluti gamla testamentsins og biblíunnar. Hún inniheldur sköpunarsögur bæði heimsins og mannsins, fjallar um söguna um syndaflóðið og örkina hans Nóa og söguna um Kain og Abel. Sagt er frá fyrstu kynslóðum afkomenda Abrahams allt fram að för Ísraels til Egyptalands.

Efni[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti dagurinn, úr Liber Chronicarum frá 1493

1. Mósebók hefst með orðunum:

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.

Kaflar fyrstu mósebókar eru 50. Fyrstu ellefu kaflarnir fjalla um sköpun heimsins og mannsins, Adam og Evu, Kain og Abel, syndaflóðið, örkina hans Nóa og Babelturninn. Kaflar 12-50 fjalla um Abram, sem síðar er nefndur Abraham, og afkomendur hans. Guð tortímir borgunum Sódómu og Gómorru. Guð biður Abraham að fórna syni sínum Ísak en hættir við á síðustu stundu. Ísak eignast soninn Jakob, sem eignast tólf syni. Jakob tekur upp nafnið Ísrael eftir áflog við dularfullan anda en synir Ísraels og afkomendur þeirra munu síðar mynda hina ísraelsku þjóð. Bókinni lýkur með ferð Ísraels og fjölskyldu hans frá Kanaan-svæði til Egyptalands þar sem þau setjast að í Gósen.

Jakob var yngri sonur Ísaks, en hinn eldri hét Esaú. Jakob keypti erfðaréttinn af Esaú fyrir súpuskál þegar Esaú var sársvangur. Þegar Ísak, sem var orðinn blindur, ætlaði að veita Esaú mikilvæga blessun blekkti Jakob föður sinn til að blessa sig í staðinn. Það má segja að rauði þráðurinn í lífi Jakobs eru undirferli, sér í lagi við Esaú, og átök, til að mynda við andann.

Sáttmálar[breyta | breyta frumkóða]

Í 1. Mósebók efnir Guð til fyrstu sáttmála sína við manninn. Fyrsti sáttmálinn er við Nóa. Guð bannar mönnum að drepa aðra menn. Hann leyfir mönnunum að nota jurtir og dýr til fæðu og ráða yfir þeim. Nóasáttmálinn er almenns eðlis. Hann á við um allt mannkyn. Ákvæði sáttmálans leggja aðallega skyldur á Drottinn. Annar sáttmáli Drottins í 1. Mósebók er feðraveldissáttmálinn við Abraham. Þessa sáttmáli er sértækur í þeim skilningi að hann á aðeins við um Abraham og afkomendur hans. Drottinn lofar meðal annars að gefa Abraham fyrirheitna landið, sem er landsvæðið milli Egyptalands og Efrat. Til marks um sáttmálann er lögð sú skylda á Abraham og afkomendur hans að umskera öll sveinbörn.

Tilurð bókarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Bókin dregur nafn sitt af kristinni hefð sem gerir ráð fyrir að fyrstu fimm bækur gamla testamentsins, sem nefnast saman Torah á hebresku, hafi verið rituð af Móses. Hefðin er dregin í efa af fræðimönnum, til að mynda er ólíklegt að frásögnin af dauða og jarðsetningu Móses sé rituð af honum sjálfum (34. kafli 5. mósebókar). Mikilvæg kenning, sett fram af þýska guðfræðingnum Julius Wellhausen á 19. öld, er að Mósebækur eru samantekt úr fjórum upprunalegum heimildum: Jahvista, Elohista, Deuteronomista og Prestaskrif, skammstafað JEDP.

Í sköpunarsögunni í 1. og 2. kafla 1. mósebókar má greina áhrif frá babýlónísku sköpunarsögunni Enuma Elish, til að mynda svipar orðalag fyrstu málsgreinarinnar til Enuma Elish.

Önnur mikilvæg eldri heimild er Gilgameskviða, þar sem finna má þætti sem svipar til sögunnar af sköpun Adams og Evu. Í Gilgameskviðu er Enkidu skapaður úr leir eins og Adam. Enkidu tileinkar sér visku með því að sofa hjá tálkvendi, en í mósebók borða Adam og Eva forboðna ávöxtinn. Syndaflóðinu og örk Nóa svipar til 11. bókar Gilgameskviðu. Svipuðum atburðum er lýst í báðum verkum og í sömu röð. Þessi tvö verk eru talin hafa vera rituð á 18. öld f.Kr. og eru talin töluvert eldri en mósebækur.