Fara í innihald

Fred Hampton

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fred Hampton
Hampton árið 1969.
Fæddur30. ágúst 1948
Dáinn12. apríl 1969 (20 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunTriton College
StörfAðgerðasinni, byltingarmaður
FlokkurSvörtu hlébarðarnir
MakiAkua Njeri
BörnFred Hampton Jr.

Fredrick Allen Hampton Sr. (30. ágúst 19484. desember 1969) var bandarískur baráttumaður fyrir borgaralegum réttindum. Hann komst til áhrifa ungur að aldri í Chicago og varð varaformaður Svörtu hlébarðanna (e. Black Panther Party) í Illinois.[1] Fred Hampton var myrtur þegar lögreglumenn réðust inn á heimili hans.

Fred Hampton ólst upp í Maywood, úthverfi í Chicago, með foreldrum sínum, bróður og systur. Upplifun Hampton af kynþáttamisrétti, ásamt morðinu á Emmett Till, sem var fjölskylduvinur Hampton-fjölskyldunnar, varð til þess að hann helgaði sig baráttu fyrir réttindum svarts fólks.[1] Emmett Till, sem móðir Hampton passaði, var myrtur af hvítum mönnum aðeins fjórtán ára gamall í Mississippi árið 1955, en atvikið vakti athygli um allan heim og varð að hvata í réttindabaráttu svarts fólks í Bandaríkjunum.[2]

Fred Hampton var framúrskarandi námsmaður og íþróttamaður. Í gagnfræðaskóla kom baráttuandi hans í ljós, og stofnaði hann stúdentahreyfingu innan National Association for the Advancement of Colored People (NAACP) og vann að fræðslu fyrir hvíta nemendur skólans um rasisma. [1] Eftir útskrift gekk hann í Triton Junior College, þar sem hann stundaði fornám lögfræði í von um að nýta þekkingu sína til þess að binda enda á lögregluofbeldi gegn svörtu fólki. [3] Hann tók þátt í mótmælaaðgerðum og kröfugöngum, meðal annars fyrir sundlaugum sem væru opnar öllu fólki óháð kynþætti þeirra.

Þátttaka í Svörtu hlébörðunum

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir árekstra við lögregluna, sem á stundum voru ofbeldisfull, ákvað Fred að yfirgefa NAACP árið 1968, en samtökin störfuðu af mikilli reglufestu og gekk hann þá til liðs við Svörtu hlébarðana og var stofnmeðlimur Illinois deildarinnar. Svörtu hlébarðarnir voru stofnaðir tveimur árum áður í Oakland í Kaliforníu, af Huey P. Newton og Bobby Seale. Upprunalegur tilgangur hreyfingarinnar var að skipuleggja gæslueftirliti í hverfum þar sem svart fólk bjó, til þess að vernda íbúa þeirra frá lögregluofbeldi. Á skömmum tíma þróaðist hreyfing Svörtu hlébarðanna í marxískan byltingarhóp sem krafðist skaðabóta fyrir svarta bandaríkjamenn vegna þess arðráns og kúgunar sem hópurinn hafði mátt þola, og barðist gegn herkvaðningu svartra bandaríkjamanna og fyrir vopnavæðingu samfélaga svartra Bandaríkjamanna. Á þessum tíma álitu bandarísk stjórnvöld að Svörtu hlébarðarnir væru „stærsta ógnin við innra öryggi landsins“ eins og haft var eftir yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar, J. Edgar Hoover.[1]

Um leið og Svörtu hlébarðarnir hófu starfsemi sína í Chicago fór bandaríska alríkislögreglan að fylgjast með starfsemi þeirra. Hoover hafði álitið hættu á að nokkurs konar messías kæmi til sögunnar, leiðtogi sem gæti sameinað og eflt það sem hann áleit herskáa hreyfingu svartra þjóðernissinna og hafði Hampton í sigtinu vegna þess. Malcolm X (áður en hann var myrtur), Martin Luther King, Jr., Stokely Carmichael og Elijah Muhammad voru einnig meðal þeirra sem alríkislögreglan taldi mögulega æsingamenn. Alríkislögreglan sendi njósnara til þess að vera viðstaddan við stofnfund Svörtu hlébarðanna í Chicago, en hann hét William O'Neal, og var svartur unglingur, sem hafði komist í kast við lögin og fékk loforð um að kæran á hendur honum yrði felld niður ef hann léti upplýsingar um hreyfinguna af hendi. Hann útvegaði alríkislögreglunni skýrslur um fundi um Svörtu hlébarðanna, upplýsingar um vopnaeign meðlima og grunnmynd af heimilum þeirra, með sérstakri áherslu á Hampton.[1]

Hampton var varaformaður Svörtu hlébarðanna í Illinois-deild samtakanna og ynntu meðlimir af hendi ýmsa samfélagsþjónustu í Chicago, líkt og aðrar hreyfingar Svörtu hlébarðanna. Var þar á meðal gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta og gjaldfrjáls morgunverður fyrir börn. Hið síðarnefnda varð kveikjan að breytingum og ákváðu stjórnvöld að byrja verkefni á landsvísu þar sem boðið var upp á gjaldfrjálsan morgunverð í skólum, en Hoover taldi kveikjuna að verkefninu koma frá röngum stað. Varaði alríkislögreglan opinberlega við því að Svörtu hlébarðarnir væru að nýta gjaldfrálsan morgunverð til þess að ýta undir sundrungu meðal kynþátta og í Kaliforníu komst sá orðrómur á kreik að maturinn væri mengaður af kynsjúkdómum. Fyrrum meðlimur Svörtu hlébarðanna sagði síðar frá því, að kvöldinu áður en verkefnið fór af stað í Chicago, hafði lögreglan brotist inn í kirkju þar sem Svörtu hlébarðarnir geymdu matarbirgðir, kramið matinn og loks pissað á hann. Þó skemmdarverkin hafi tafið verkefnið, varð það til aukins stuðnings meðal samfélagsins.[1]

Hampton, sem sagður var hafa mikla hæfileika á sviði samskipta og sátta, stofnaði það sem hann kallaði „Rainbow Coalition,“ bandalag Svörtu hlébarðanna við aðra hópa sem unnu á svipuðum vettvangi. Bandalagið kallaði saman hópa sem höfðu ekki átt í samskiptum áður, til að mynda fátæks hvíts fólks, götugengja og hópa fólks frá Puerto Rico, til að vinna saman að því að aðstoða tekjulága einstaklinga.

Morðið á Fred Hampton

[breyta | breyta frumkóða]

Átök voru tíð milli Svörtu hlébarðanna og lögreglunnar í Chicago, og varð mannfall hjá báðum. Ofbeldið náði hápunkti 4. desember 1969 þegar 14 manna lögreglusveit réðst inn í íbúð Fred Hampton í Chicago. Lögreglan fékk grunnmynd íbúðarinnar hjá alríkislögreglunni, sem uppljóstrarinn William O'Neal hafði látið af hendi. Íbúð Hampton hafði verið nokkurs konar höfuðstöðvar fyrir Svörtu hlébarðana í Chicago, og taldi lögreglan að þar væri að finna mikið af vopnum, þar á meðal væru ólögleg vopn.[1] O'Neil hafði áunnið traust Hamptons, og var lífvörður hans þegar innrásin var gerð. Telja sumir að Hampton hafi verið byrlað, til þess að tryggja að hann gæti ekki varið sig. Í íbúðinni sváfu Hampton og barnshafandi kærasta hans, Deborah Johnson (síðar Akua Njeri) auk nokkurra meðlima Svörtu hlébarðanna.[4]

Lögreglan réðst inn á heimilið og skaut Mark Clark, sem stóð vörð, einu skoti í brjóstið. Talið er að dauðakrampi eða fall hans í gólfið hafi ollið því að hann hleypti af byssunni, en það var eina skotið sem Svörtu hlébarðarnir skutu í árásinni. Lögreglan var þungvopnuð, og hafði meðal annars til umráða vélbyssu, og skaut um alla íbúðina þrátt fyrir ákall um að láta af árásum sínum. Lögreglumennirnir skutu að minnsta kosti 90 skotum. Fred Hampton og Deborah Johnson særðust í árásinni, og þegar lögreglumenn fóru inn í svefnherbergið fjarlægðu þeir Johnson af Hampton, en hún hafði reynt að vernda hann með líkama sínum og drógu hana í annað herbergi í íbúðinni. Þar heyrði hún lögregluna skjóta af aftur og samtal þeirra um að nú væri hann dáinn. Hampton hafði verið skotinn í höfuðið tvisvar, af stuttu færi.[4]

Eftirmálar morðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir árásina voru vopn gerð upptæk, en upplýsingar um fjölda þeirra og gerð, voru ekki gerðar opinberar. Þau sem lifðu af árásina, þar á meðal kærasta Hampton, Deborah Johnson, voru handtekin fyrir tilraun til manndráps, stórfellda líkamsárás og ólöglega notkun vopna. Síðar kom í ljós að af nærri 100 skotum, voru þau öll af hendi lögreglunnar, mögulega að undanskildu einu skoti. Johnson (nú Njeri) hefur sagt frá því að þegar lögreglan kom, hafi hún ítrekað reynt að vekja Hampton án árangurs, og einnig á meðan árásinni stóð. O'Neill sagði síðar að hvorki hann, né aðrir, hefðu byrlað Hampton, en sjálfstæð krufning leiddi í ljós hættulegt magn barbítúrata (finnst í róandi lyfjum og svefnlyfjum) í blóði hans.[4]

Stjórnvöld sögðu eftir viðburðinn að um gagnkvæmar skotárásir hafi verið að ræða, og að Fred Hampton hefði sjálfur skotið á lögregluna, og látist vegna handahófskenndra skota lögreglunnar um rýmið. Þessar staðhæfingar reyndust allar rangar. Andsvar Svörtu hlébarðanna við þessari frásögn var að opna rýmið fyrir almenningi og leyfa blaðamönnum að skoða það, og varpa þannig ljósi á ofbeldið sem þau höfðu verið beitt. Blaðamenn á Chicago Tribune sönnuðu að meintar holur eftir skot Svörtu hlébarðanna voru göt eftir nagla, og vakti það mikla reiði. Þessi uppljóstrun varð til þess að margir trúðu á sakleysi Svörtu hlébarðanna. Fjölmiðlar birtu efni frá báðum hliðum, en Chicago Tribune og Chicago Defender, studdu Svörtu hlébarðana, umfram aðra.[4]

Reiði almennings yfir dauða Hampton, sérstaklega meðal samfélaga svarts fólks í Chicago, er talin vera ástæða þess að Edward Hanrahan, héraðssaksóknari á svæðinu sem var yfirmaður lögreglumannanna, hafi verið fjarlægður úr embætti. Hanrahan var talinn líklegur framtíða borgarstjóri Chicago en var kosinn burt árið 1972, og lauk þar með ferli sínum í stjórnmálum.[4]

Eftirlifendur árásarinnar hlutu að lokum 1,85 milljón dollara í skaðabætur frá Chicago borg, Cook-sýslu og bandarískum stjórnvöldum. Enginn lögreglumannanna eða embættismanna sem stóðu fyrir aðgerðinni voru ákærðir fyrir glæpinn.[4]

Aðgerðir gegn Svörtu hlébörðunum

[breyta | breyta frumkóða]

Síðar kom í ljós að bandaríska alríkislögreglan og lögreglan í Chicago höfðu lagt á ráðin um aftöku Hampton og skipst á gögnum og leiðbeiningum, með það eitt að markmiði að knésetja Svörtu hlébarðana og aðrar sambærilegar hreyfingar. Þar komu einnig fram mikilvægar upplýsingar um þátt O'Neil í aðgerðunum. Ein stærsta ástæðan fyrir aftökunni á Hampton var ótti yfirvalda við að Hampton tækist að efla Svörtu hlébarðana, vegna persónutöfra hans og getu til þess að leiða saman ólíka hópa. Talið var að hann gæti leitt byltingu svartra Bandaríkjamanna.[4]

Aftakan var hluti af stórum aðgerðum lögreglusveita og alríkislögreglunnar til þess að kveða niður hreyfingar Svörtu hlébarðanna með því að taka út leiðtoga þeirra með kerfisbundnum hætti.[4] Fjórum dögum eftir árásina, þann 8. desember, réðst lögreglan í Los Angeles (LAPD) inn í höfuðstöðvar Svörtu hlébarðanna, og var ástæðan sögð vera að hreyfingin byggi yfir stolnum vopnum. Síðar kom í ljós að leitarheimildin byggði á fösluðum upplýsingum frá bandarísku alríkislögreglunni og var hún nýtt til að ráðast gegn tólf meðlimum Svörtu hlébarðanna. 200 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum, og höfðu meðferðis fimm þúsund skot, gasgrímur, þyrlu, skriðdreka og handsprengju. Þrír lögreglumenn og sex meðlimir Svörtu hlébarðanna særðust.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 „Fred Hampton | Biography, Black Panthers, Death, & Civil Rights | Britannica“. www.britannica.com (enska). 10. maí 2024. Sótt 11. maí 2024.
  2. „Emmett Till's Death Inspired a Movement“. National Museum of African American History and Culture (enska). Sótt 11. maí 2024.
  3. University, © Stanford; Stanford; California 94305 (5. ágúst 2020). „Fred Hampton“. Say Their Names - Spotlight at Stanford (enska). Sótt 11. maí 2024.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 „The Assassination · The Assassination of Fred Hampton · Digital Chicago“. digitalchicagohistory.org. Sótt 11. maí 2024.
  5. MADEO. „Dec. 4, 1969 | Chicago Police Assassinate Black Panther Leaders Fred Hampton and Mark Clark“. calendar.eji.org (enska). Sótt 11. maí 2024.