France Prešeren
France Prešeren (3. desember 1800 – 8. febrúar 1849) var ljóðskáld sem orti á slóvensku. Hann er þjóðskáld Slóvena og hefur þar sömu stöðu og Jónas Hallgrímsson á Íslandi. Prešeren var lögfræðingur að mennt. Hann orti sonnettur að ítölskum hætti.
Árið 1834 orti hann sonnettusveiginn Sonetni Vene, söguljóð þar sem hann tvinnar saman einkalíf sitt og ógæfu í ástum við örlög og niðurlægingju föðurlandsins. Í sjöundu sonnettu þess sveigs setur hann fram spádóm um eigin frægð og vísar til goðsagnarinnar um Orfeus, hann fær himnana til að senda nýja Orfeus til Slóvena, sem muni með svo fögrum skáldskap blása þjóðarstolti í íbúa landsins og fá þá til að leggja niður deilur og sameina Slóvena í eina þjóð. Í áttundu sonnettunni afhjúpar hann hvers vegna svona Orfeusartáknmynd fyrir hámenningu almennt og skáldskap sérstaklega hefur ekki ennþá komið fram meðal Slóvena. Hann fer yfir sögu Slóvena, samfellda sögu innrása og sögu innbyrðis deilna og sú saga sé ekki hetjufrásagnir sem ljóðlist geti blómstrað af. Þau fáu blóm skáldskapar sem nái að dafna vaxi á hinum slóvenska Parnassus nærist á tárum og andvörpum.
Uppruni og menntun
[breyta | breyta frumkóða]France Prešeren er fæddur í smábænum Vrba í Karníólu. Hann var þriðji í röð átta systkina, faðir hans var bóndi og gat, með fjárstuðningi ættingja, kostað drenginn til náms. Tólf ára að aldri innritaðist hann í skóla í fylkishöfuðborginni Ljúblíana og árið 1821 lá leiðin áfram til Vínar. Prešeren lærði lögfræði og sneri aftur til Ljúblíana að prófi loknu sjö árum síðar. Honum gekk hins vegar brösulega að koma undir sig fótunum sem lögfræðingur og vann lengst af sem aðstoðarmaður annarra lögfræðinga. Árið 1846 fékk hann leyfi til að opna sína eigin stofu í bænum Kranj sem er miðja vegu milli Ljúblíana og Vrba. Prešeren fór að fást við skáldskap á námsárum sínum í Ljúblíana en mestan hluta æskuljóða sinna brenndi hann eftir að hafa borið þau undir virtan slóvenskan málfræðing og textafræðing, Jernej Kopitar, sem jafnframt vann við ritskoðun í Vín. Seinna áttu þeir Prešeren eftir að elda grátt silfur saman í harðvítugum deilum um æskilegan rithátt slóvenskrar tungu en þar bar Kopitar lægri hlut.
Ljóðagerð
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta kvæði skáldsins kom fyrir almenningssjónir 1827, bæði á slóvensku og þýsku. Á næstu árum birti hann fjölda ljóða eftir sig í tímaritum, meðal annars í ljóðaárbókinni Karníólsku býflugunni (Krajnska čbelica) sem Prešeren stóð að útgáfu á ásamt fleiri höfundum. Fyrstu þrjú heftin komu út á árunum 1830 til 1832 en útgáfa fjórða og fimmta heftisins frestaðist fram til áranna 1834 og 1848, meðal annars vegna ritskoðunar og var Kopitar talinn hafa átt þar hlut að máli. Meðal mikilvægustu vina Prešerens á þessum tíma var málfræðingurinn og bókmenntafræðingurinn Matija Čop, sem lést reyndar fyrir aldur fram árið 1835. Hann hvatti Prešeren til að glíma við sonnettuformið og fleiri sígilda bragarhætti. Á þessum tíma voru uppi efasemdir um að slóvenska væri nógu þroskað tungumál fyrir svo háþróaðan skáldskap en Prešeren afsannaði það, ekki síst með rómuðum „Sonnettusveig“ („Sonetni venec“) sínum.
Fyrsta bók hans, sem hafði að geyma söguljóðið Skírnin í Savíku (Krst pri Savici), kom út árið 1836 og áratug síðar var prentað fyrsta safnið með ljóðum hans. Þá var Prešeren hins vegar hættur að yrkja vegna þunglyndis og óreglu en hann lést í fátækt 8. febrúar 1849 og var banameinið talið vera skorpulifur. Enda þótt útförin færi fram með virðulegum hætti í Kranj benti fátt til þess að nafn skáldsins myndi lifa áfram.
Þjóðskáld og þjóðardýrlingur
[breyta | breyta frumkóða]Á síðari hluta átjándu aldar var það svæði sem nú er Slóvenía undir yfirráðum Austurríkis en Napóleon réði yfir svæðinu frá 1809 til 1813 og er það tímabil sem á eftir fylgdi gjarnan kennt við rómantíska þjóðernishyggju en hún náði hámarki byltingarárið 1848. Veruleg ólga var í samfélaginu og í kjölfarið var bændaánauð og ritskoðun aflétt, farið var að birta lög ríkisins á slóvensku og slóvensku héröðin fengu eigin fána. Á þessum tíma voru einnig settar fram kröfur um að slóvenska yrði gerð að opinberu tungumáli og að komið yrði á fót háskóla í Ljúblíana. Síðast en ekki síst voru mótaðar hugmyndir um sameiginlega sjálfstjórn slóvensku héraðanna innan austurríska keisaradæmisins. Prešeren var af ýmsum ástæðum kjörinn táknmynd þessarar menningarpólitísku baráttu. Í kvæðum sínum hafði hann lagt áherslu á lykilhlutverk skálda og skáldskapar við að vekja upp þjóðarandann og skapað Slóvenum goðsögulega fortíð með lýsingum sínum á hinu forna veldi Karantaníumanna, ekki síst í Skírninni í Savíku og „Sonnettusveig“. Það fór líka svo að skrif frjálslyndra menntamanna – „Ungra Slóvena“ eins og þeir voru nefndir – um skáldskap Prešerens og ný útgáfa á ljóðum hans árið 1866 tryggðu honum smám saman stöðu þjóðskáldsins. Árið 1905 var líkneski af Prešeren afhjúpað í miðborg Ljúblíana. Fyrir aftan Prešeren á stöplinum er fáklædd skáldagyðja sem heldur lárviðarlaufi fyrir ofan höfuð hans. En afhjúpun styttunnar var jafnframt fyrsti stóri áfanginn í helgifestu Prešerens sem þjóðardýrlings; til marks um „það hjónaband bókmennta og þjóðernispólitíkur sem setti varanlegt mark sitt á síðari hluta 19. aldarinnar“."
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Karl Helgason, Menningarlegir þjóðardýrlingar Evrópu". Ritið 2011; 11 (3): s. 69-97