Fara í innihald

Fionn Mac Cumhaill

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fionn Mac Cumhaill (einnig ritað Finn eða Find mac Cumail eða mac Umaill, borið fram „Finn mac Cool“, [fɪnː mak kul]) var goðsagnakenndur veiðimaður og bardagamaður í Írskum þjóðsögum, en sögur af honum voru einnig þekktar í Skotlandi og á Mön. Sögur af Fionn og fylgismönnum hans, Fianna, eru skráðar í Fianna sögunum (e. Fenian cycle eða Ossianic Cycle. i. Fianaigecht). Fianna sögurnar eru að mestu sagðar frá sjónarhorni sonar Fionn, Oisín, sem var skáld. Fenian bræðralagið dregur nafn sitt af þessum þjóðsögum.

Fionn var gæluheiti sem þýðir „fölur“, „hvítur“ eða „bjartur“. Í æsku hét hann Deimne og í nokkrum frásögnum er sagt frá því hvernig hann öðlaðist gælunafn sitt þegar að hár hans varð hvítt langt fyrir aldur fram. Hann er líklega tengdur við Velsku goðsagnapersónuna Gwyn ap Nudd.

Þjóðsagan

[breyta | breyta frumkóða]

Fionn var sonur Cumhal, sem var leiðtogi fianna reglunnar, og Muirne, dóttir drúidans Tadg mac Nuadat sem bjó á hæðinni Almu í Kildare sýslu. Cumhal nam Muirne á brott eftir að faðir hennar neitaði að leyfa sér að giftast henni, og Tadg leitaði ráða til hákonungsins yfir Írlandi, Conn Cétchathach (Hundrað bardaga-Conn), sem gerði hann að útlaga. Bardaginn við Cnucha var háður milli Conn og Cumhal, og Cumhall var drepinn af Goll mac Morna, sem gerðist svo leiðtogi fianna reglunnar.

Þá var Muirne þegar orðin ólétt eftir samfarir hennar við Cumhal, þannig að faðir hennar afneitaði henni og fyrirskipaði að hún skyldi brennd á báli, en Conn bannaði það og setti hana undir verndarvæng Fiacal mac Conchinn. Kona Fiacals, drúidinn Bodhmall, var systir Cumhals. Í húsi Fiacals eignaðist hún son sem hún kallaði Deimne.

Nafnið Cumhal kann að vera komið af forn-Írska orðinu cumal, sem þýðir ambátt. Það kann að vera að einhvern tímann hafi Fionn verið sagður ambáttarsonur (mac cumal), áður en að virðingarmeiri uppruni var skáldaður fyrir hann.

Muirne skildi Deimne eftir hjá Bodhmall og bardagakonunni Liath Luachra, en hún ól hann upp með leynd í Sliab Bladma skógi, og kenndi honum þar bardagalistir og veiðar. Þegar hann varð eldri gekk hann í hirðir ýmissa konunga undir fölsku nafni, en þegar að þeir báru kennsl á hann sem sonur Cumhals var honum skipað að fara, af ótta við að óvinir hans leituðu hann uppi.

Fionn kynntist svo skáldinu Finneces við ánna Boyne og lærði kveðskap hjá honum. Finneces hafði eytt sjö árum í að reyna að veiða lax þekkingarinnar, sem bjó í ánni, en sagt var að hver sá sem æti laxinn myndi hljóta alla þekkingu heims. Að lokum náði hann að veiða laxinn, og sagði Fionn að elda hann fyrir sig. Fionn brenndi sig við matreiðsluna, og setti brennda þumalputtann í munn sinn, og át óvart hluta af roði laxins. Þannig fékk hann vísdóm laxins, en upp frá þessu gat hann kallað til sín vísdóm á örlagastundum með því að sjúga á þumal sinn.

Ámóta frásagnir af viskuþumalnum eru til í íslendingasögum, enskum fornsögum og í finnsku fornvísunni Kalevala. Einnig kemur sama minni fyrir í velsku sögunni um Gwion Bach, en hugsanlegt er að sögurnar eigi sér sameiginlega rót.

Á hverju ári í 23 ár kom eldspúandi álfadís að nafni Aillen á Samhain (1. nóvember), og svæfði alla mennina í Tara með tónlist og brenndi svo kastalann til grunna. Fianna reglan, sem Goll mac Morna stýrði, gat ekkert gert til þess að varna því. Fionn kom til Tara, vopnaður með galdravopnum í poka úr fuglaskinni. Hann hélt sér vakandi með því að halda spjótsoddi sínum undir hausnum á sér, þannig að ef að hann sofnaði hrökk hann upp þegar hann rakst á oddhvassa spjótið, og drap svo Aillen með spjótinu. Eftir að hann drap Aillen var hann viðurkenndur sem sonur Cumhal. Goll vék úr stóli og Fionn tók við sem leiðtogi Fianna reglunnar.

Í sumum frásögnum er fjallað um samskipti Fionn og Goll, en vinátta þeirra var ótraust og þeir lentu oft upp á móti hvor öðrum.

Seinna heimtaði Fionn bætur af Tadg fyrir morðið á föður sínum, og hótaði stríði eða einvígi ef að hann neitaði. Tadg bauð honum heimili sitt, hæðina Almu, sem skaðabætur, og Fionn þáði það.

Bardagi risanna

[breyta | breyta frumkóða]
Giants Causeway

Mörg landfræðileg fyrirbrigði á Írlandi eru tengd við Fionn Mac Cumhail. Í sumum yngri frásögnum er Fionn risi, og í deilum sínum við risa í Alba (nú þekkt sem Skotland) tók hann hluta úr Írlandi til þess að kasta í mótherja sinn. Hann varpaði aurhnettinum í mótherja sinn, en hann dreif ekki yfir Írlandshaf og klumpurinn varð að eyni Mön, en holan sem varð eftir varð Lough Neagh.

Í annarri tilraun til þess að há einvígi við mótherja sinn í Alba byggði hann stuðlabergsbrúnna Giants Causeway frá Írlandi til Skotlands, til þess að hann gæti barist við andstæðinginn án þess að blotna í fæturna.

Fingalshellir í Skotlandi er einnig nefnt eftir honum, en í hellinum eru sexhyrndar súlur úr basalti.

Fionn kynntist frægustu föstukonu sína, Sadbh, þegar hann var að veiðum. Drúidinn Fer Diorich hafði breytt henni í hreindýr, en hundar Fionns, Bran og Sceolang, sem höfðu sjálfir eitt sinn verið mennskir, áttuðu sig á því að hún væri mennsk, og Fionn hlífði henni. Hún breyttist aftur í fallega konu, sem Fionn giftist og gerði ólétta. Fer Diorich kom aftur seinna og breytti henni aftur í hreindýr, og hún hvarf á brott. Sjö árum síðar hitti Fionn son þeirra, Oisín, sem varð einn af mestu hetjum fianna reglunnar.

Í einni frægustu sögunni hafði hákonungur Írlands, Cormac mac Airt, lofað Fionn dóttur sína, Gráinne, en Gráinne féll fyrir öðrum meðlimi fianna reglunnar, Diarmuid Ua Duibhne, og þau stungu af saman með Fionn á hælunum. Fósturfaðir Diarmuids, guðinn Aengus, aðstoðaði þau við flóttann. Mörgum árum síðar voru Fionn og Diarmuid á veiðum og bráðin stangaði Diarmuid alvarlega. Vatn sem var drukkið úr höndum Fionn hafði lækningarmátt, en þegar Fionn safnaði vatni lét hann það vísvitandi leka á milli puttanna sína áður en að hann færði Diarmuid það. Sonur hans, Oisín, og sonarsonur hans, Osgur, hótuðu honum og sögðu honum að vera heiðarlegur, en það var um seinan, því Diarmuid dó skömmu síðar.

Ýmsar misjafnar sögur segja af dauða Fionns, en vinsælustu frásagnirnar segja að hann sé í raun ekki dauður, heldur lifi enn góðu lífi í helli undir Dyflini, og mun hann koma þaðan til þess að bjarga Írlandi á mesta raunatíma þess.