Kalevala
- Ljóðaþrá til kvæða knýr mig.
- Kveikt er löngun, sem ei flýr mig,
- orðs að leita, söng að syngja,
- sögur fornar ljóðum yngja,
- láta bragi leika á vörum,
- ljóðin gjalla í spurn og svörum,
- gómstáls láta glauminn vakna,
- í gljúpum huga þræði rakna.
Kalevala er 19. aldar finnskt söguljóð með goðsagnablæ sem textafræðingurinn Elias Lönnrot safnaði saman úr munni kvæðamanna með þrotlausum ferðum sínum um núverandi Finnland og útjaðra landsins. Kalevala er talið vera þjóðargersemi Finna og er eitt af langmikilvægustu bókmenntaverkum á finnskri tungu. Fyrsta útgáfan af Kalevala, sem nefnist Gamla Kalevala, kom út 28. febrúar árið 1835. Sú útgáfa sem þekktust er nútildags kom út árið 1849 og er 22.795 ljóðlínur sem skipt er í 50 kviður (finnska: runot). Kalevala mætti þýða sem Land Kaleva eða Hetjulandið.
Íslenska þýðingin
[breyta | breyta frumkóða]Karl Ísfeld þýddi Kalevala á íslensku, og kom fyrri hlutinn út árið 1957 og sá síðari 1962 eftir að Karl dó. Karl vann að síðari hlutanum helsjúkur og lauk ekki síðustu 7 blaðsíðunum. Þær kláraði Sigríður Einars frá Munaðarnesi.
Í íslensku þýðinguna vantar þrettán kviður (37-49), auk þess sem Karl skar frá ýmsar endurtekningar. Eins og verkið liggur fyrir í íslenskum búningi vantar í það rílflega þriðjung útgáfunnar frá árinu 1849 en það er hin viðurkennda heildarútgáfa Kalevala-bálksins. Við útgáfu verksins luku þó margir upp lofsorðum um þýðinguna og hljómfegurð hennar á íslensku. Sigurður A. Magnússon rithöfundur segir í eftirmála íslensku útgáfunnar:
Þýðing Karls Ísfelds er yfirleitt gerð með miklum glæsibrag og er vafamál að snjallari þýðing sé til á öðrum tungum að því er snertir hrynjandi og kunnáttusamlega notkun stuðla og ríms. Karl notar jöfnum höndum innrím, hálfrím og endarím, og gefur það verkinu mikla hljómfegurð. Hef ég lesið kafla úr þýðingunni fyrir finnska vini mína, og ljúka þeir upp einum munni um að hljómfallið sé nákvæmlega einsog á frummálinu. |
Eitt og annað
[breyta | breyta frumkóða]- 28. febrúar er Kalevala-dagur í Finnlandi, en þann dag kom fyrsta Kalevala-útgáfa Elíasar Lönnrots út á prenti.
- Finnska þungarokkssveitin Amorphis sækir innblástur í Kalevala.